Þegar talað er um sýndarheima nútímans, veruleikafirringu, hjáveruleika og tengslaleysi við náttúru og fortíð, er yfirleitt vísað til tækni, hraða og framfara; að hjáveruleikinn sé veruleiki rafrænna tölvuheima og geima. Því mætti ætla, þegar ég segist hafa upplifað hjáveruleika á ferðum mínum um landið í sumar, að þar ætti ég við að landslagið minnti mig á tölvuleikjalandslag, kvikmyndir og jafnvel sjónvarp. Það væri hinsvegar alrangt, því það voru ljóðabækur sem landið minnti mig á; þegar ég fór um Vestfirði var það ljóða- og ljósmyndabók Aðalsteins Ásbergs og Nökkva Elíassonar, Eyðibýli, sem var mér efst í huga, og þegar ég fór um sveitir norðurlands minntu þær mig stöðugt á ljóð Gyrðis Elíassonar. Og þegar ég las nýju bókina hans, Upplitað myrkur, minnti hún mig á þessa ferð, enda kom í ljós að hann hafði bókstaflega verið á sömu slóðum og ég: í Bárðardal við Aldeyjarfoss, en eitt ljóðið heitir einmitt “Aldeyjarfoss í Bárðardal”.
Þó verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að hér sé heilmikið af ‘kunnuglegum’ Gyrðisljóðum um sveitir og fortíð, er Gyrðir ekkert endilega á kunnuglegum slóðum í bókinni, en að mörgu leyti kveður við nýjan tón í Upplituðu myrkri. Hér er öllu meiri angist og órói en borið hefur á lengi. Þó vissulega sé nóg af slíku í fyrstu bókunum þá er hér eitthvað annað og ólíkt á ferðinni. Þetta finnst mér helst birtast í ákveðnum skorti á lokun á ljóðunum, en þau virkuðu meira leitandi á mig en mörg fyrri ljóða höfundar. Það má segja að tíminn sé aðaltema bókarinnar og birtist hann okkur í ýmsum myndum. Í fyrsta lagi má nefna ljóð sem fjalla á einhvern hátt um fortíð Íslands og eru þá jafnvel jarðfræðileg. Dæmi um þetta eru ljóðin “Jarðsöguleg framtíð”, en þar segist ljóðmælandi vilja sjá landið aftur eftir fimm milljón ár, breytt, en þó óbreytt. Annað dæmi um þetta er “Surtsey (drög að nýrri Völuspá)”, en þar rís land úr hafi að hætti hins forna ljóðs. Þriðja slíka ljóðið er frásögn af endurkomu Ingólfs Arnarsonar til Reykjavíkur. Í þessum ljóðum er Gyrðir á dálítið nýjum slóðum, sem hann er greinilega ekki alveg búinn að ná fótfestu í, því ljóðin eru einkennilega botnlaus, þó vissulega búi þau yfir áhrifamiklum línum og myndum.
Annar og öllu betur heppnaðri ljóðahópur er sá sem lýsir átökum nútíðar og fortíðar, en áður hefur djarfað fyrir slíku í ljóðum skáldsins, þó ég muni ekki eftir því í þessu formi eða magni. Hér eru dásamlegar myndbreytingar á ferðinni, sem minntu mig á stundum á myndasögur, eins og þegar mótin í gömlu plastgerðinni líkjast “kistum horfinna sólkonunga” í “Andblær af verksmiðjulífi”, sláttumenn með vélknúin orf og “dökka / glerhjálma fyrir andlitum” minna á Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum í “Stjörnustríð að sumarlagi” og “Reykskýið frá verksmiðjunni” er eins og “heljarstór vofa með / gráar loppur” í “Hin nýja iðnbylting”. Tíminn og tímaflakk er beinlínis tekið til umræðu í tveimur ljóðum sem nefnast “Tímalykkja” I og II, en í því síðara breytist verksmiðja í “miðaldakastala / þar sem fólk er pyntað” og ljóðmælandi tekur á sig sveig til að þurfa ekki að heyra ópin. Skemmtilegasti áreksturinn er þó í einu draumljóðanna, “Þriðji draumur um skáld” sem ber undirtitilinn “Rússneski fiðrildaskólinn”. Þar hittir ljóðmælandi Nabokov sem er ákaflega ánægður yfir handsnúinni heimilistölvu, sem ljóðmælandi veit að getur ekki átt sér stað.
Draumljóðin mætti síðan kalla þriðja flokkinn og þó draumljóð (og draumsögur reyndar) séu ekki nýtt fyrirbæri hjá Gyrði, þá fannst mér hann taka þetta tema sterkari tökum hér en oft áður og skapar magnaðar myndir draumfara. Fyrsta draumljóðið nefnist “Anonymus”, en það var dulnefni Jóhannesar frá Kötlum. Og viti menn, ljóðmælandi er að þýða ljóð úr latínu eftir Jóhannes og lendir í vandræðum með orðið ‘mutabilis’. Hann lítur upp og horfist í augu við nóttina sem hann dreymir í. ‘Mutabilis’ er auðvitað forsmekkurinn að öllum þeim myndbreytingum sem ganga í gegnum alla bókina, og þessi draumvitund ljóðmælandia gefur líka forsmekkinn að draumljóðatóninum. Annað ljóð fjallar ekki beint um drauma, heldur eiginlega öfugt, svefnleysi, þar liggur ljóðmælandi með höfuðið á kodda og hugsar um hafdjúpin:
Það kemur enginn
djúpsvefnKoddinn er harður
sem steinn
á hafsbotni
Hér er gott dæmi um þá kyrrlátu hæfni Gyrðis til að fella saman tvo heima og búa til draum úr svefnleysi.
Og draumurinn, hann er nefnilega einskonar sýndarveruleiki eins og kemur fram í ljóðinu “Á Gljúfrasteini” (undirtitill: “Sýndarveruleiki”), en þar fer ljóðmælandi í draumaheimsókn til skáldsins sem gefur honum bók. Daginn eftir vaknar hann undrandi yfir að sjá ekki bókina á sínum stað í hillunni: “því ég mundi vel / að við heimkomuna hafði ég sett / hana milli Kristnihaldsins / og Dagleiðar á fjöllum”.
Þótt engin sé hér dagleið á fjöllum þá er alveg óhætt að skella sér í smá ferðalag með Gyrði og fylgja honum um kunnuglegar slóðir sem ókunnuglegar og koma við í sýndarheimi draumanna og hitta þar fyrir draumaprinsinn sjálfan, Sigmund Freud, en í ljóði tileinkuðu honum er sagt frá því að nú hljóti “að koma að því / að búið verði til myndbands- /tæki sem hægt er að tengja / á nóttunni við þann sem sefur / og það tekur upp draumana”. Ég bíð spennt.
Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2005