Hún er hörð lífsbaráttan sem skáldið Gerður Kristný lýsir í nýjustu ljóðabókinni sem ber titilinn Urta og kom út á dögunum. Verkið sver sig í ætt fyrri ljóðabálka skáldsins, til að mynda Blóðhófni sem kom út árið 2010 og Gerður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir. Bækurnar Drápa (2014) og Sálumessa (2018) skipa einnig flokk með þessum verkum sem eru keimlík að því leyti að um einn bálk er að ræða, eina heildstæða frásögn sem er tálguð og skorinort en engu að síður átakanleg og hrífandi.
Urta segir frá konu sem heyr harða lífsbaráttu á norðurhjara einhvern tíma fyrr á öldum. Veturinn er í nánd og að þessu sinni er hann „níðingur“ því það er kalt og konan býr ein með börnum sínum þar sem maður hennar fórst á sjó. Ljóðabálkurinn skiptist í kafla eða ólíka hluta sem raðað er í línulega röð. Fyrsti kaflinn ber titilinn „Kona ríður net“ en þar kynnumst við sögupersónunni og aðstæðum hennar, hörðum vetrinum og hríðinni sem „hýðir bæinn“ og ísnum á firðinum. Í næsta kafla fer söguhetjan á sjó ásamt sonum sínum og veiðir sel en eins og hún segir er „dauður selur, dýrð í búi“ og mikilvægur afkomu heimilsins en heimilisfólkið etur kjötið, nýtir skinnið í klæði og lýsið á lampa. Skammt undan fylgist urtan með aðgerðunum og við henni blasir ekki sú sama dýrð og mannfólkinu. Hér rifjar skáldkonan upp línu úr einni fallegustu vögguvísu íslenskrar tungu sem Sveinbjörn Egilsson raulaði fyrir börnin sín, þar á meðal skáldið Benedikt Gröndal; 'Sofa urtubörn á útskerjum'.
Eftir vel heppnaða veiði snýr konan heim og hugsar til látins eiginmannsins. Í kaflanum sem ber titilinn „Kona saknar manns síns“ heyrum við af örlögum eiginmannsins, þá sorg sem hann hefur skilið eftir og hvernig konan tekst á við sorgina. Hún lýsir því hvernig hún vaknar upp og „hrekk[ur] úr einu myrkri í annað“ og hvernig hún leitar í hlýjuna í fjósinu því þar er myrkrið mýkra en inni í bænum og hlýtt að vera í skjóli kýrinnar. Hana dreymir jafnvel um að komast inn í kúna og fá að dvelja þar vetrar langt:
Gott væri að hverfa
inn í kýrvömb
yfir háveturinn
dóla sér
í dimmunni
fram á vorKastast út
með kálfi
Síðar þegar hún liggur veik og dauðinn sækir að henni segir hún: „Dreymi mig fjósið“ en þessi útúrsnúningur á ljóði Jónasar Hallgrímssonar sýnir hversu mikla líkn fjósið veitir henni á erfiðum stundum.
Kuldi og sorg er ekki það eina sem einkennir líf á norðurhjara því á eftir köflunum sem fjalla um þau viðfangsefni, segir skáldið okkur af sársauka konunnar. Hann magnast á tímum þegar erfitt var að komast undir læknis hendur, fá rétta meðhöndlun, hvað þá sýkla- eða verkjalyf. Hún lýsir kvölum sem stafa frá veikum fæti og verkurinn er það sár að hún vill deyja en segist ekki leyfa sér þann munað þar sem börn hennar þurfi á henni að halda. Í stað þess lokar hún augunum og flýr sársaukann með hjálp ímyndunaraflsins og minninganna: rifjar upp betri tíð og græna haga, þegar eiginmaðurinn var á lífi og lífið var gott. Verkurinn í fætinum leiðir til ampúteringu sem fær heilan kafla í bálkinum, hún verður „einfætt sem ánamaðkur“ og gæfi ýmislegt til þess að fá fótinn aftur: „lognhæga daga / og dýrindis þurrk“ en aldrei gæfi hún þó kúna. Rétt áður en vorið kemur heyr veturinn síðustu orrustuna og hefur á brott með sér dóttur konunnar. Sorgin er grimm og óvægin og hér eru dregin tengsl við urtuna sem missti kópana sína í upphafi vetrar: „Augu mín / gljáandi fjörugrjót“.
Urtan er yfir og allt um kring í verkinu og svo virðist sem konan spegli sig og tilveru sína í henni. Í upphafi verksins, og áður en fyrsti kaflinn hefst, er hún kynnt til leiks: hún lónir skammt undan fjöru þar sem bær konunnar stendur og fylgist með því sem fyrir augu ber. Hér fáum við því tækifæri á að líta á sögusviðið með augum urtunnar en sjónarhorn annað en mannsins er mikilvægt þema í umhverfishugvísindum, vistrýni og frásögnum sem takast með gagnrýnum hætti á við mannöldina (e. anthropocene). Þá eru augu urtunnar, og sela almennt, sérstök og koma oft fyrir í skáldskap; það er eitthvað mannlegt en um leið kynngimagnað við þau sem gefur dýrinu goðsagnakenndan blæ. Hér skapar skáldið aftur á móti jarðtengingu í umfjöllun sinni um urtuna sem endurspeglar hvernig maðurinn hefur beislað náttúruna sér í hag og um leið hversu háður maðurinn er duttlungum hennar. Eins og áður segir er selurinn „dýrð í búri“ og eftir að hafa veitt litlu kópana beinir ljóðmælandi orðum sínum að urtunni og segir:
Barnið þitt
vaknar í vetur
í kjötinu sem knýr okkur
skinni í skæðum
lýsi á lampa
Ljóðabrotið endurspeglar hversu náið sambýlið við náttúruna var á árum áður og á afskekktum stöðum líkt og lýst er í verkinu. Tengsl mannsins við náttúruna eru að sjálfsögðu enn til staðar í nútímasamfélagi og í umfjöllun um loftslagsbreytingar og hamfarahlýnun erum við minnt á það. En tengslin eru ef til vill ekki eins sýnileg og áður, þegar lífsafkoma einstakra fjölskyldna og býla var algjörlega undir náttúrunni komið. Urta rifjar upp þessi tengsl og ítrekar þau, en um leið hverfur hugurinn til hópa sem heyja svipaða baráttu enn þann dag í dag og við lesturinn vöknuðu hugrenningatengsl við Grænlendinga og ótvírætt mikilvægi selsins í grænlensku samfélagi. Það er eitthvað grænlenskt við verk Gerðar og gott að minna sig á ýmislegt sem frændþjóðir á norðurhjara eiga eða áttu sameiginlegt.
Að vissu leyti má lesa ljóðabálkinn Urtu sem þakklætisóð til formæðrana sem fóru á undan, sem þrátt fyrir áföll á áföll ofan, missi ofan í missi, kulda og stanslaus svikasumur, þráuðust við og héldu út, svo að við, íslenskir lesendur verksins, gætum fæðst hér og dvalið. Við skulum minna okkur á það þegar enn ein gul, rauð eða bleik lægðin leggst yfir landið á komandi vetrarmánuðum, og við kúrum undir mjúkum dúnsængum og horfum á Netflix.
Vera Knútsdóttir, nóvember 2022