Beint í efni

Útgönguleiðir

Útgönguleiðir
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í umfjöllun minni um skáldsögu Steinars Braga, Sólskinsfólkið, lýsti ég því yfir að ég væri sannfærð um að Steinar Bragi væri merkilegt skáld, þrátt fyrir að vera ekki fyllilega ánægð með þá sögu. Mörgum þykir gagnrýnandi kannski taka of mikið uppí sig í slíkum fullyrðingum, að halda því fram að skáld sé gott en vera svo ekkert ánægð með þá bók sem til umfjöllunar er. Ef svo er, þá er ég stolt að geta hér vísað fram sönnunargagni og staðfest með því framburð minn: Steinar Bragi er áhugavert og markvert skáld sem vert er að hafa augun á. Sönnunargagn a hefi ég þegar nefnt, ljóðabókina Ljúgðu Gosi ljúgðu, kraftmikla og átakamikla bók um karlmennsku, en nú hef ég í höndun sönnunargagn b, nýja ljóða/prósa bók, Útgönguleiðir.

Já, ljóða- og eða prósabók segi ég, bókina hef ég heyrt kallaða ljóðabók, en ljóðin eru þá prósar og þá er stutt í vangaveltur um örsögur. Að auki eru nokkrir prósanna tengdir og sömu stefin birtast aftur og aftur, til dæmis ‘amenið’ sem er ekki guðlegt, heldur orð sem er notað til að kenna innöndun í reykingum. Þetta er bara eitt dæmi um það einkenni á verkum höfundar sem enskan kallar ‘irreverent,’ að bera ekki mikla virðingu fyrir því sem almennt er talið virðingar vert. Önnur dæmi eru umræður um legvatn og glasabörn. Þessi ólgandi og óreiðukenndi, næstum tætti eða tætandi tónn einkennir líka Ljúgðu Gosi ljúgðu og minnir mig stundum á verk bandaríska höfundarins Chuck Palahniuk, og er þar ekki leiðum að líkjast. Prósarnir minna mig reyndar líka á Braga Ólafsson, Sjón og jafnvel Kristínu Ómarsdóttur á stundum, en án þess þó að vera með einhverja eftirhermustæla, það þarf ekki að lesa lengi í verkum Steinars Braga til að sjá að hann er af nýrri kynslóð höfunda og er að takast á við viðfangsefni sín á nýjan hátt.

Eitt þessara viðfangsefna er draumurinn, en hann er gegnumgangandi tema í prósunum. Þó ekki endilega sem eiginlegur draumur, heldur frekar sem tungutak draumsins sem birtist í upphafssetningum eins og þessum: „Ég er drukkinn og yfirgef barinn með sköllóttum, andlitsþrútnum manni,“ „Ég var í millilendingu á flugvellinum í H*** á leið minni annað“ og „Þegar ég stóð í fyrsta sinn frammi fyrir núverandi kærustu minni, A.“ Annað einkenni draumsins er hvernig haldið er áfram með myndlíkingar þar til þær öðlast sjálfstætt líf, eftirminnilegasta dæmið er dúkkuhúsið í samnefndum prósa, en þar er því lýst að sögumaður átti ungur dúkkuhús. Þar bjuggu fjórar of litla dúkkur en engin húsgögn og í staðinn kom hann þar fyrir matarafgöngum. Svo lifnar dúkkuhúsið með ógnvænlegum afleiðingum. Dúkkuhúsið birtist síðan aftur í „Árbærinn,“ en andrúmsloftið í þeirri sögu minnir nokkuð á Sólskinsfólkið.

Eitt af því sem gerir Steinar Braga svo eftirtektarverðan er hvernig hann nær að skapa ólgu og óreiðu úr því sem virðist vera hin fullkomna kyrrð (og þetta er það sem minnir mig á Braga Ólafsson). Dæmi um þetta er „Biðstofan,“ en þar segir frá því að sögumaður hefur verið rúmliggjandi heilt sumar. Um haustið er hann orðinn afslappaður „að því marki að ég átti erfitt með að fletta; dagarnir einkenndust af syfjulegum óróa í ætt við andvöku.“ Þessi órói heldur áfram þar til hann verður hin fullkomna kyrrð, sögumaður gefur allt frá sér á þeim forsendum að hann sé að flytja úr landi, en heldur eftir völdum gripum, meðal annars fiskabúri með sokknu skipi. Svo bíður hann og eftir nokkrar vikur finnst honum eins og hann sé „staddur í skjákynningu á kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins“ og þegar veturinn kemur er hann orðinn svo afslappaður að hann á „erfitt með að blikka augunum og kyngja.“ Svo lætur hann sig dreyma um „sokkna skipið í búrinu, hvort einhver hafi komist af eða lifði undir þiljum á hverfandi súrefni.“ Og þannig heldur ördeyðan áfram en að lokum kemur í ljós að bráðum verður hann að flýja. Það sem ætti að vera róandi og sefandi er óþægilegt og þrúgandi og þó flótti sé yfirvofandi getur lesandi ekki ímyndað sér að sögumanni takist að finna útgönguleið úr þessu ástandi.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2005