Beint í efni

Valeyrarvalsinn

Valeyrarvalsinn
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Frásagnir af lífinu í smábæjum og þorpum eru nokkuð áberandi minni í íslenskum bókmenntum. Kannski er það ekki að furða því þótt stór hluti þjóðarinnar búi núorðið í borginni eða stærri samfélögum hafa langflest okkar einhver tengsl við þorpin og smábæina, hvort sem það er í okkar eigin nútíð eða í gegnum eldri kynslóðir. Hvernig sem því er farið er þó ljóst að smábærinn í bókmenntum hefur yfir sér eitthvað heillandi og forvitnilegt, andrúmsloft sem er fjarlægt en á sama tíma svo nálægt. Í Valeyrarvalsi Guðmundar Andra Thorssonar er sagt frá lífinu í einu af þessum þorpum þar sem allt virðist fara fram fyrir opnum tjöldum en ýmislegt er samt sem áður dulið, jafnvel þaggað niður og bælt eða einfaldlega grafið djúpt í fortíðinni. Undir yfirborðinu bærast flóknar tilfinningar og minningar fullar af trega. 

Sagan er byggð upp af stuttum frásögnum sem nánast mætti kalla smásögur. Þessar sextán sögur mynda heildarlýsingu eða frásögn af lífi fólksins í þorpinu Valeyri. Kaflarnir eru mislangir, en allir fjalla þeir þó um augnablik í lífi fólksins í bænum, tvær mínútur einn eftirmiðdag. Þrátt fyrir að vera mjög afmörkuð í ytri tíma nær sagan yfir töluvert lengra tímabil enda fléttast inn í hana sögur úr fortíð fólksins og fortíð þorpsins.

Um tíma einkenndust sögur af þorpum og landsbyggð af eftirsjá og þrá eftir hinu liðna en þrátt fyrir að hér sé verið að skoða fortíðina er þetta ekki tilfellið í Valeyrarvalsinum. Nútíminn er kominn í þorpið fyrir löngu með Facebook og Youtube og fjárhættuspili á netinu. Munurinn milli fortíðarinnar og nútímans er vissulega áberandi  en hér er einfaldlega sagt frá því sem hefur verið og mun ekki koma aftur og því sem er núna. Stundum ríkir tregi og eftirsjá eftir hinu liðna, stundum feginleiki yfir því að þetta sé liðin tíð.

Frásagnirnar af fólkinu í þorpinu eru eins fjölbreytilegar og fólkið sjálft. Sagt er frá ýmsum karakterum, bæði sérvitringum og venjulegu fólki og ekkert dregið undan. Segir bæði af aðfluttum íbúum bæjarins og þeim sem hafa búið þar alla ævi. Fjölskyldum er lýst og tengslum íbúanna hver við annan og áherslan er á hið mannlega, hamingjustundir og harmleiki, ógnina sem vofir yfir í formi ofbeldis, svika og lyga en líka værðina og rónna, sæluna og fegurðina. Allar sögurnar fléttast saman og vísað er bæði milli frásagna og persóna og milli atburða í tíma og rúmi.

Myndmál er stór þáttur í Valeyrarvalsinum og má þar nefna nokkur áberandi atriði sem eru eins konar leiðarminni og eru endurtekin út í gegnum frásagnirnar. Eitt af þessum minnum er tíminn sjálfur sem kemur fram á mjög myndrænan hátt. Lesandinn horfir endurtekið með augum persónanna á kórstjórann Kötu hjóla um bæinn, frá mismunandi sjónarhornum og í ljósi mismunandi atburða. Ferð Kötu tekur ekki nema þessar tvær mínútur sem frásögnin spannar og heldur saman tímanum í sögunni en líka í raun sögunni allri.

Annað atriði sem sett er fram á mjög myndrænan hátt er einmanaleikinn og einangrunin sem hrjáir persónur sögunnar og nútímamanninn almennt. Hver er einn í sínu horni hvort sem hann er raunverulega, líkamlega einn eða ekki. Bissnessmaðurinn sem kemur að sunnan, snúinn aftur á slóðir feðra sinna, kemur til að vera einn og í friði fyrir fólki en Jósa situr ein og yfirgefin og finnst eins og lífið sé fyrir utan, ‚eins og hún heyri í því þegar það líður hjá.‘ (s. 37). Þótt frásögnin sé oft og tíðum tregafull og hæg er hún samt einnig á köflum svo snörp og hnyttin að lesandinn hrekkur hálfpartinn við:

Hún fær sér kex, bítur snöggt í það eins og hún sé að taka það af lífi, gleypir það svo hálftuggið eins og hún sjái eftir öllu saman. (s. 32)

Lýsingin á Sveinsínu í þungum þönkum er svo lifandi að lesandanum finnst hann hreinlega sitja andspænis henni við eldhúsborðið.

Annað mikilvægt atriði í bókinni er tónlistin sem spilar stórt hlutverk í lífi margra íbúa bæjarins og bæði tengir fólkið saman og skilur það að. Hún leiðir hálfpartinn söguna áfram þar sem allt stefnir að því að kórinn í bænum haldi tónleika um kvöldið. Kata er á leiðinni á tónleikana, séra Sæmundur sér fram á að hafa öðrum hnöppum að hneppa og reynir að boða forföll og bæjarstjórinn og bankastjórinn hita upp fyrir sönginn ásamt vinafólki.

Valeyrarvalsinn er ekki bók sem maður les á handahlaupum. Lesandinn þarf að hafa hugann allan við lesturinn bæði til að fylgjast með persónunum og tengslunum þeirra á milli en líka til að geta notið hins ríka myndmáls sem varla er hægt að gera skammarlaust skil í stuttri umfjöllun. Þetta er líka saga sem þarf að skilja, það þarf að hugsa um hana, velta henni fyrir sér, blaða á milli kafla og sjá alltaf eitthvað nýtt. Lesandanum er veitt einlæg innsýn í líf persónanna og fær að skyggnast inn í hugarheim ólíkra persóna með afar mismunandi sögu og bakgrunn. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að vera á einhvern hátt á hluti af þessu samfélagi þar sem allt tengist en allir standa samt einir.

María Bjarkadóttir, desember 2011.