Valkyrjusaga er nýjasta bókin frá Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og eins og titillinn gefur kannski til kynna að þá má finna sömu þemu hér og hún hefur unnið með síðustu ár. Hún hefur skapað skemmtilegan ævintýraheim þar sem hún styðst við íslenskar goðsagnir og fornbókmenntir til þess að fleyta sögunni áfram líkt og í fyrri verkum sínum. Lesendur slást aftur í för með Kötlu Þórdísar- og Ugludóttir, en hana ættu allir að þekkja úr Nornasögu þríleik Kristínar Rögnu sem kom út á árunum 2019-2021. Katla, sem er aðalpersóna bókarinnar og gegnir líka hlutverki sögumanns, saknar Mána besta vinar síns ógurlega mikið, en hann er á ferðlagi um Kína.
Fyrstu tuttugu og þrír kaflar bókarinnar (að undanskildum kafla 1) hefjast annað hvort á orðunum „Hæ Máni“ eða „Hæ aftur Máni“ þar sem lengst af eru kaflar bókarinnar í formi bréfa sem Katla er að skrifa til Mána. Þar lýsir hún ótrúlegum atburðarásum sem eru að eiga sér stað, eins og til dæmis að amma hennar, sem kölluð er amma klettur, kemur í heimsókn ásamt systur sinni sem reynist vera galdranorn. Auk þess gengur Katla til liðs við nýtt fótboltalið sem fær nafnið Valkyrjurnar, en þar lýsir hún liðsfélögum sínum sem virðast vera hálfgerðar leiðindaskjóður.
… ef Sirrí verður ekki búin að bola mér úr liðinu. Ég veit ekki hvað ég hef gert henni. (38)
Það er skemmtileg tilviljun að Kristín Ragna skyldi senda frá sér bók sem ber titilinn Valkyrjusaga einmitt á sama tíma og ein slík er að eiga sér stað í okkar pólitísku raunheimum þessa stundina þar sem þrjár konur eru líklegar til að taka við stjórn, stuttu eftir að Íslendingar kusu yfir sig sinn annan kvenforseta auk þess sem nýkjörinn biskup sem tók við stöðunni í sumar er kona. Það mætti því segja að við séum að upplifa okkar eigin Valkyrjusögu.
Kári hafði legið yfir bókum um norræna goðafræði síðan við komum heim úr ferðinni miklu (sem enginn má minnast á). Í kvæðinu Völuspá (sem við tölum heldur ekki um – ekki einu sinni mamma Ugla) rakst hann á erindi um valkyrjur. Þær eru einhvers konar skjaldmeyjar sem ríða vopnaðar um loftin og sækja látnar stríðshetjur á vígvellina og flytja þær í Ásgarð … eða eitthvað svoleiðis. (24)
Í Nornasögunum kemst Katla að því að hún er rammgöldrótt og virðist búa yfir mætti sem hefur eingöngu tilheyrt nornum og völvum. Á upphafssíðu bókarinnar Valkyrjusaga vaknar lesandinn upp úr draumi Kötlu þar sem hún er að eigast við nornina Gullveigu, en hana þekkjum við úr Nornasöguþríleiknum. Katla virðist hafa misst galdramáttinn sinn og er ekki viss um að hún muni endurheimta hann á ný. Hún saknar Mána og er staðráðin í að finna sér eitthvað til dundurs þar til hann kemur aftur. Hún gengur því til liðs við nýstofnað fótboltalið sem fær nafnið Valkyrjurnar. Það líður ekki á löngu fyrr en að undarlegir atburðir fara að eiga sér stað, þar sem til að mynda sex „alvöru“ valkyrjur mæta á svæðið.
Þetta voru valkyrjur!
Þessar sex sem eru nefndar á nafn í erindinu úr Völuspá
Sá hún valkyrjur
vítt um komnar,
görvar að ríða
til goðþjóðar.
Skuld hélt skildi
en Skögul önnur,
Gunnur, Hildur, Göndul
og Geirskögul.
Nú eru taldar
nönnur Herjans,
gjörvar að ríða
grund, valkyrjur. (76)
Það er skemmtilegt hvernig Kristín Ragna fléttar textabrotum úr Eddukvæðum og Brennu-Njáls sögu. Hér er hún að byggja mikilvæga brú á milli ungra lesenda og bókmenntasögulegrar arfleifðar Íslands. Það er nefnilega mjög skiljanlegt að yngri lesendur tengi ekki við fornbókmenntirnar, enda eru þær í besta lagi torskildar og erfiðar í lestri. Með því að vefa saman spennandi frásögn og minni úr fornbókmenntum þjóðarinnar nær Kristín Ragna að kynna þau fyrir innihaldinu á nýstárlegan hátt sem mun sennilega kveikja áhuga hjá mörgum á áframhaldandi grúski.
Að vekja áhuga ungra lesenda á bókmenntum og sögu er eitthvað sem við hljótum flest að vera sammála um að sé mikilvægt verkefni. Sem móðir ungs drengs er ég þakklát höfundum eins og Kristínu Rögnu fyrir að leggja í þessa miklu vinnu sem felst í því að flétta saman gömlum heimi við hinn nýja til þess að kynna söguna í nýju ljósi. Tungumál er lifandi vera og hefur heldur betur breyst mikið síðan á tímum Brennu-Njáls og félaga, því er ekki að undra að börn nútímans eigi erfitt með að lesa þessar fornbókmenntir sem veldur því oftar en ekki að áhuginn kviknar seint eða aldrei. Það er því mikilvægt að við höfum höfunda eins og Kristínu Rögnu til þess að leiða unga lesendur varfærnislega í átt að þessum merkilegu menningararfleifð sem við Íslendingar erum svo stolt af. Ég las bókina fyrir tveggja ára gamlan son minn og hann hlustaði hugfanginn allan tímann, ég geri mér grein fyrir að hann hefur sennilega ekki skilið mikið af því sem fram fór en hann var samt sem áður heillaður og varð að stoppa við hverja einustu litríku mynd og skoða vel.
Bókin er nefnilega ríkulega skreytt litríkum og skemmtilegum myndum sem Kristín Ragna er einnig höfundur af. Bókakápan er æpandi og spennandi auk þess að vera virkilega vel lýsandi fyrir söguna sjálfa. Það er gaman að sjá hvernig hún notast við myndirnar til þess að lýsa hinu og þessu betur fyrir ungum lesendum sínum og setja saman nafn persónu og andlit, hvort sem það er Kári bróðir Kötlu, hundurinn Prins Sjarmör eða gyðjan Kali. Að mínu mati eru myndirnar og sagan sjálf jafn spennandi og glæða hvort annað meira lífi.
Valkyrjusaga er virkilega skemmtileg og spennandi bók, full af húmor og óvæntum atburðum, sem ætti að höfða til margra ungra lesenda, sér í lagi þeirra sem hafa eitthvað verið að daðra við goðafræðina eða fornbókmenntir. Það er verulega heillandi hvernig hún steypir saman nútímaheiminum við hið forna og gefur því þannig nýjan lit. Og sá litur er skærbleikur og glitrandi. Þess má til gamans geta að á dögunum sendi Kristín Ragna einnig frá sér tarot spilastokk þar sem hún notar enn og aftur íslensku goðsagnirnar og fornbókmenntirnar. Þetta eru bæði afskaplega vel heppnuð og skemmtileg verk sem væru mistök að láta fram hjá sér fara.
Þóra Sif Guðmundsdóttir, desember 2024