Vélar tímans er þriðja bókin í ritröð sem Pétur Gunnarsson nefnir Skáldsögu Íslands, þær fyrri eru Myndin af heiminum og Ferðin til Rómar. Að þessu sinni segir ekki af Mána, aðalpersónu úr samtímanum í fyrstu tveimur verkunum, heldur segir frá munknum Natani Fróðasyni og ferðum hans í kjölfar Svartadauða um landið og loks lengst út í heim. Hér er það sem sagt 15. öldin sem er í forgrunni, með mörgum beinum og óbeinum tilvísunum í bókmenntir tímans, meðal annars Dante og Boccaccio, heimssýn og ekki síst trúarleg viðhorf og þá sérstaklega samspil trúar og kynlífs.
Afleiðingum Svartadauða er oft vel lýst með óhugnanlegum smámyndum héðan og þaðan af ferðum Natans. Einnig eru umhverfislýsingar á mörgum og löngum ferðum hans stundum grípandi. Höfundi tekst vel til þegar fylgst er með gerðum Natans sjálfs og sjónarhornið er sem þrengst, því þegar smáatriðin og hversdagurinn eru í brennidepli þá lifnar textinn við og saga Natans og Gróar er snjöll og væmnislaus ástarsaga unglinga sem vill svo til að eru munkur og nunna.
Einn helsti kostur söguskoðunarinnar í verkunum er að hér er ekki litið á Ísland í einangrun, þótt svo megi ætla af titli bálksins, heldur eru tengslin við útlönd vandlega könnuð og ítrekuð. Annars er afstaða sögumanns til sögunnar það sem vefst svolítið fyrir þessum lesanda. Stundum er sögumaður eins og aðeins of upprifinn ferðalangur sem tíundar hvers kyns almenn sannindi úr ferðum sínum og þá er ekki alveg ljóst hverjum þessi saga er ætluð. Auðvitað getur svona hrifning gripið áheyrandann, en þessi sýn getur líka virkað naíf á köflum og almennu sannindin ekki nógu tíðindamikil til að verðskulda svo mikla hrifningu. Eins og í fyrri bókunum í röðinni er hér oft á ferð beinn samanburður á fortíð og samtíð. Sögumaður dregur margoft athygli lesandans að þessum samanburði, en sú aðferð getur virkað nokkuð staglsöm og hreinlega óþörf; það liggur beint við þegar lýst er fornum háttum að lesandi beri saman við eigin samtíma, án þess að bent sé sérstaklega á það.
Það er nokkuð erfitt að leggja mat á eina bók innan bálks í smíðum, því ósjálfrátt hlýtur maður að horfa til framhaldsins þar sem lesandi væntir að finna samhengi og frekari skilning. Skáldsaga Íslands er alls ekki hefðbundin söguleg skáldsaga (ef slíkt er á annað borð til), skáldleg sviðsetning sögulegra atburða er aðeins hluti af verkinu. Í þessum bálki er nefnilega tilraun gerð til að sameina nokkur bókmenntaform og þar ber kannski helst að nefna skáldsögu, sagnfræði og esseyjuna. Saman fara skáldsaga og sagnfræði þegar sagt er af ferðum Natans Fróðasonar og kemst þar verkið næst sögulegum skáldsögum. Síðan má rekja þráð esseyjunnar þegar könnuð er heimssýn tímabilsins, bókmenntir og trú. Það eru að sjálfsögðu fjölmargar tengingar og speglanir þarna á milli, en það er eins og esseyjan gangi ekki nógu vel upp í þessari sameiningu, formið verður svolítið utangátta, kannski þurfum við meiri skáldskap.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004