Beint í efni

Vetrarfrí

Vetrarfrí
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Hryllingur og fantasía eru ríkjandi meðal barna- og unglingabóka þessi jólin og kennir þar ýmissa grasa. Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur er stíluð á unglinga á efsta stigi grunnskóla og í menntaskóla og byrjar eins og hefðbundin unglingasaga, hún er þó fljót að skipta algerlega um ham og snúast upp í sannkallaða hryllingssögu.

Í upphafi sögunnar er aðalpersónan Bergljót, sem er 15 ára og í 10. bekk, á leið í vetrarfrí og stefnir á að mæta í partí ársins með vinkonum sínum. Foreldrar hennar ætla að skella sér í bústað yfir helgina og litli bróðir hennar Bragi, sem er 10 ára, á að gista hjá vini sínum. Allt er klappað og klárt þangað til mamma Bergljótar þarf óvænt að vinna og skipar börnunum með pabbanum Þórbergi í bústaðinn. Bragi er nokkuð sáttur með breytta áætlun en Bergljót er brjáluð.  Eftir töluverða fýlu ákveður hún samt að sætta sig við orðinn hlut og reyna að gera það besta úr ferðinni. Þegar síma- og netsambandið hjá þeim dettur út ákveða Bragi og Þórbergur að fara á fótboltavöllinn í sumarbústaðarhverfinu til að athuga hvað sé í gangi. Þar verða þeir vitni að hræðilegum atburðum, eina stundina er fólk í góðum gír að spila fótbolta en skyndilega tekur það að hníga ælandi niður og deyja á staðnum. Feðgarnir ákveða að forða sér. Þeir sækja Bergljótu og þau bruna í bæinn til að athuga hvað sé í gangi og láta vita af þessari dularfullu veiru sem hefur herjað á fólkið. Á leiðinni í bæinn verða þau vitni að fleiri ógnvænlegum atburðum sem benda til þess að eitthvað meira en lítið hræðilegt sé í aðsigi og förin til Reykjavíkur breytist í flótta. Borgin sem bíður þeirra er undarlega hljóð og yfirgefin, bílar standa tómir á götum úti, götuljósin eru slökkt og enginn á ferli. Allir virðast vera horfnir. Í íbúðinni þeirra er bláókunnugur maður sem er eins og þau á flótta undan því sem herjar á íbúana og í leit að svörum.

Sjónarhornið í sögunni skiptist á að vera hjá Bergljótu og Braga. Fyrir utan aldursmuninn eru þau systkinin afskaplega ólík og upplifa atburði á mismunandi hátt. Bergljót er dæmigerð unglingstelpa sem vill vera með vinkonum sínum, hlusta á tónlist og hugsa um stráka. Bragi er hins vegar ekki eins og flestir jafnaldrar hans en Bergljót lýsir honum sem sérvitrum sveimhuga og hefur áhyggjur af því að hann verði lagður í einelti í skólanum. Sýn þeirra á atburði litast af persónuleikum þeirra auk þess sem þau lenda í ólíkum aðstæðum sem gerir að verkum að lesandinn fær nokkuð víða yfirsýn yfir atburði.

Hryllingurinn í sögunni er marglaga og verður bæði áþreifanlegur og huglægur fyrir systkinunum. Lýsingar á blóði og blóðlykt, ofbeldi og lemstruðum líkamsleifum eru ítarlegar og ekkert er dregið undan. Bergljót og Bragi sjá og upplifa ýmislegt sem þau hefðu ekki órað fyrir að börn á Íslandi þyrftu nokkruntíman að gera. Á sama tíma er hryllingurinn líka sálfræðilegur, aðalpersónurnar eru í stöðugri hættu og vita ekki hverjum má treysta og hvar er hægt að leita skjóls. Við þetta bætist frekar tregafull örvænting yfir öllu horfna fólkinu, rofnum samskiptum við umheiminn og rafmagns-  net- og símasambandsleysi. Ýmsar spurningar vakna hjá bæði lesanda og aðalpersónum sögunnar, svo sem hvað yrði um Ísland ef allt samband við umheiminn skyldi rofna og hvað yrði um þá sem eftir lifa ef eitthvað hræðilegt gerðist og megnið af þjóðinni þurrkaðist út. Væri hægt að sigla frá Íslandi og yrði einhver eftir sem kynni að stýra skipunum, eða kæmi einhver okkur til bjargar? Hvernig er nútímamaðurinn í stakk búinn til að klára sig án þess sem í dag teljast nauðsynjar?

Hryllingurinn verður svo allur raunverulegri vegna vísana í hversdagslegt umhverfi, götuheiti í Reykjavík og staði svo sem verslunarmiðstöðina Glæsibæ og ráðhúsið, sem hér fær allt annað hlutverk en það gegnir venjulega. Auk þess eru hversdagsleg smáatriði til þess fallin að undirstrika þá hræðilegu atburði sem eiga sér stað og mynda skarpa andstöðu: varasalvi með mangóbragði, baunir í dós, fjölskyldumyndir í ramma á skrifborði. Þrátt fyrir að hryllingurinn sé ríkjandi getur Bergljót samt sem áður séð spaugilegu hliðarnar á aðstæðunum eins og þegar hún skoðar verð á útivistarfatnaði í mannlausri verslun og furðar sig á því hvað svona „lúðaföt“ séu dýr, eða þegar hún áttar sig á því að það þurfi greinilega raunverulegt hamfararástand til að gera hinn svartsýna og áhyggjufulla Þórberg að bjartsýnismanni.

Mörgum spurningum er ósvarað í lok sögunnar og lesandinn fær að ímynda sér sjálfur hvað gæti gerst ef allt færi á versta veg. Sagan er vel skrifuð og vel undirbyggð, andstæður milli hversdagsleika og þeirra undarlegu og hryllilegu aðstæðna sem myndast verða skarpar og hrista upp í lesandanum þó svo að ógnvaldurinn kunni að virka fjarstæðukenndur og svolítið klikkaður. Vetrarfrí er ekki bók fyrir viðkvæma en hún er spennandi og skilur margt eftir sig. Ekki bara hroll og hálfgerða ónotatilfinningu heldur raunverulegar spurningar sem er alls ekki auðvelt að svara.

María Bjarkadóttir, desember 2015