Beint í efni

Vetrarhörkur

Vetrarhörkur
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Loksins er komið framhald af hrollvekjunni Vetrarfrí sem kom út fyrir jólin í fyrra. Margir (alla vega ég) hafa eflaust beðið þess með eftirvæntingu að fá að vita hvað yrði um Íslendinga eftir að geimverurnar gerðu innrás. Mörgum spurningum var ósvarað í lok sögunnar og hreint ekki ljóst hvað framtíðin hefði í för með sér. Í Vetrarhörkum fáum við svörin sem við höfum beðið eftir og þau eru skemmtilega ófyrirsjáanleg.

Byrjum á smá upprifjun úr Vetrarfríi. Hún byrjar sem sakleysisleg unglingabók um stelpur á leiðinni á skólaball en snýst fljótt upp í ansi magnaða hrollvekju. Sagan er verulega blóðug og lýsingar allar fremur ógeðslegar. Geimverurnar slátra öllum sem á vegi þeirra verða og í lokin eru aðeins fáir Íslendingar eftir á lífi. Aðalsöguhetjurnar, systkinin Bergljót og Bragi, eru heppin að lifa af ásamt pabba sínum Þórbergi, en Bragi verður snemma viðskila við þau hin. Þegar þau finna hann ekki þrátt fyrir leit flýja þau til Vestmannaeyja þar sem þau finna nokkra aðra eftirlifendur í felum. Bragi kemst hinsvegar í skjól hjá skrítnum samsæriskenningakarli sem bjargar honum úr klóm geimveranna.

(Lestu umfjöllun Maríu um Vetrarfrí hér á vefnum.)

Í upphafi Vetrarharka hafast Bergljót og pabbi hennar ennþá við í Vestmannaeyjum, Þórbergur og nokkrir aðrir hafa farið í land að leita að Braga eftir að honum tókst að láta vita af sér í lok Vetrarfrís. Bragi, sem hefur haldið til í kofa einhversstaðar á suðurlandinu, ákveður að fara úr örygginu í kofanum og halda af stað gangandi til Þorlákshafnar. Eftirvæntingin er mikil hjá bæði Braga og Bergljótu en geimverurnar eru ennþá á landinu og ekki óhætt að vera á ferli án þess að eiga á hættu að vera drepin á hrottalegan hátt eða verða tilraunadýr í höfuðstöðvum geimveranna í Reykjavík. Leitin að Braga tekur verulega á þau öll, bæði Braga sem kemst hægt yfir einn síns liðs og Berljótu og Þórberg sem leita að honum í von um að hann sé ennþá á lífi. En lífið heldur áfram þrátt fyrir geimverur og þegar tilveran virðist vera komin í einhverja vægast sagt óhefðbundna rútínu hjá þeim öllum er heimsendir nánast orðinn að hversdagslegu fyrirbæri, en þá snýst heimurinn aftur á hvolf. Geimverurnar eru hvergi nærri hættar og leita enn að fólki til að drepa, samtímis verður deginum ljósara að það eru jafnvel ekki þær sem eru stærsta ógnin.

Vetrarhörkur er ekki eins ógeðsleg og Vetrarfrí og er töluvert minna blóðug, enda kannski fáir sem geimverurnar eiga eftir að drepa. Óhugnaðurinn er engu að síður til staðar en felst frekar í því hvernig spenna byggist upp vegna hættunnar sem vofir stöðugt yfir. Skipst er á að fjalla um afdrif Bergljótar og Braga og kaflarnir enda oft á háskalegum nótum en lesandinn er skilinn eftir í óvissu á meðan skipt er um sjónarhorn. Þetta er feikivel gert og heldur lesandanum í heljargreipum. Lesandinn fær ekki að vita meira en persónurnar um það sem framundan er og veit þannig ekkert frekar en þær hvort þær hafi þetta af.

Í Vetrarhörkum er lögð áhersla á það hvað gerist eftir heimsendi, eða öllu heldur hvernig er hægt að bregðast við því að heimurinn eins og við þekkjum hann þurrkist út. Bergljót og Bragi halda sér bæði gangandi á voninni um að finna mömmu sína á lífi, um að finna hvort annað aftur og um að lífið verði einhverntíman samt við sig. „Ég hafði ekki hugmynd um að heimsendir væri svona leiðinlegur“ (bls. 189) segir Magnea, ein eftirlifenda í Eyjum, við Bergljótu þegar þær ræða ástandið sem þær standa frammi fyrir. Þessi yfirlýsing lýsir ágætlega tilfinningum flestra sem hafa lifað af, uppgjöf og leiði er þeirra helsti óvinur og um leið og slíkar tilfinningar fara að bæra á sér verða aðstæður þeirra í raun enn háskalegri. Þrúgandi aðgerðarleysið verður nánast áþreifanlegt fyrir lesandanum en það er óhugnanlega stutt í að sjálfseyðingarhvötin taki yfir rökhugsunina og spurning hvort beri að óttast mest, geimverurnar eða sjálfan sig.

Geimverurnar eru hér samt sem áður holdtekja ógnar sem mannkynið í heild stendur frammi fyrir en í komu þeirra er einnig fólgin athyglisverð samfélagsádeila sem kemur að miklu leyti fram í umræðum Bergljótar og hinna um ástandið og ástæður þess. Í sögunni er því svarað hvers vegna geimverurnar leggja til atlögu gegn Íslandi og ástæðan virðist fjarstæðukennd (í það minnsta fyrir þá sem hafa ekki áhyggjur af tilvist geimvera) en kannski ekki svo óraunhæf – og óhugnalegri fyrir vikið. Ógnin felst nefnilega líka í því hvað við sem einstaklingar, eða jafnvel Ísland í heild, erum ótrúlega lítil í hinu stóra samhengi og hvað einstaklingurinn hefur litla innsýn í það sem hefur áhrif á lif hans og framtíð. Við erum berskjölduð gagnvart þeim sem eru stærri og sterkari en við og lausir við samvisku og samkennd.

Sagan í heild er mjög vel skrifuð, spennandi og ógnvekjandi, þó minna sé um blóðsúthellingar og fjöldamorð en áður. En auk þess að vera firnagóð hrollvekja er Vetrarhörkur líka beitt ádeila á firringu okkar nútímafólks og dofa gagnvart umheiminum. Hún deilir á sjálfselsku og einstaklingshyggju og vekur til umhugsunar um það hve auðvelt er að gleyma því sem mikilvægast er.

María Bjarkadóttir, desember 2016