Stundum virðist bókmenntasagan samanstanda af Stórum Bókum, bókum sem á einn eða annan hátt marka þáttaskil, kannski ekkert endilega hvað varðar bókmenntaleg gæði, heldur frekar áhrifamátt og eftirfylgni. Á tímum upplýsingasamfélagsins eða fjölmiðlasamfélagsins er enn auðveldara fyrir slíkar Stórar Bækur að þrífast, því það er eins og þegar umræðan fari af stað þá geri hún ekki annað en að þenjast út. Þegar litið er yfir bókmenntalandslagið eins og það er í augnablikinu gnæfa þar uppúr tveir risar, Da Vinci lykillinn og Harry Potter, en áhrifamáttur þeirra félaga er óumdeilanlegur. Þannig eru til dæmis áhrif Da Vinci lykilsins svo mikil að óskup venjulegur norskur höfundur er skyndilega orðinn metsöluhöfundur, og það þótt hans bók hafi komið út á undan lyklinum.
Við enda hringsins eftir Tom Egeland byggir vissulega að hluta til á sömu heimild og Da Vinci lykillinn, en það er bókin The Holy Blood and the Holy Grail eftir Michael Baigent og Richard Leigh, en þeir hafa eins og kunnugt er kært Dan Brown, höfund Da Vinci lykilsins fyrir ritstuld, og er afleiðingin af því sú að kvikmynd byggð á bókinni er lent í einskonar gíslíngu. Enn sem komið er hefur engin kvikmynd verið byggð á Við enda hringsins, þó í sjálfu sér bjóði sagan uppá ekki síður myndræna ferð milli Noregs, Lundúna, Afríku-eyðimerkur og Frakklands, með albínóa í fararbroddi.
Sagan, sem höfundur lýsir sem glæpasögu án glæps, hefst á því að Björn Beltö, ungur fornleifafræðingur með dramatíska fortíð, er eftirlitsmaður með uppgreftri. Þegar uppúr krafstrinu kemur gullskrín nokkurt fer allt í flækju, en skrínið er þegar í stað hrifsað burt af forsprakka uppgraftrarins. Björn lætur þetta ekki viðgangast og nær að nappa kistunni til baka og fela vandlega, en bakar sér með því heilmikil vandræði, því valdameiri menn en hann vilja leggja allt í sölurnar til að koma höndum yfir skrínið. Upphefst nú mikill eltingaleikur þarsem Björn ferðast þvers og kruss um heiminn og gerir allt sem í hans valdi stendur til að afla sér upplýsinga um innihald skrínsins. Innihaldið tengist kristinni trú og Biblíunni og líkt og í Da Vinci lyklinum er lesandi bombarderaður með kenningum og vangaveltum um möguleg handrit og kenningar sem gætu gerbreytt kristinni trú einsog við þekkjum hana í dag, jafnvel markað endalok hennar. Inní málið blandast svo stúlka nokkur sem Björn kynnist, en eins og áður er sagt er hann albínói og þykir fremur óheppinn í kvennamálum. Og svo má ekki gleyma hans eigin fortíð, sem er einnig hluti af leyndardómnum.
Í stuttu máli sagt er þetta ágæt saga, nokkuð vel skrifuð og samansett og sæmilega spennandi á köflum. Hinsvegar verð ég að segja að ég á erfitt með að samþykkja þau grunnatriði sem spennuplottið gengur útá, það er, dramatíseringarnar um örlög kristinnar trúar ef upp kæmist eitthvað sem ekki passar við Biblíuna. Það eru afskaplega litlar fréttir að kristin trú eins og hún er iðkuð í dag er túlkun sem hefur mótast í gegnum aldir og valdabaráttu - augljósasta dæmið um þetta eru til dæmis hinar ýmsu trúardeildir og sérstrúarsöfnuðir sem allir leggja sína merkingu í trúna og átrúnaðinn. Þetta er vandamál sem Við enda hringsins deilir með Da Vinci lyklinum, það er einfaldlega erfitt að verða mjög spenntur vegna þess að mögulega er til handrit sem geymir einhverja aðra útgáfu af orðum Krists en þá sem stendur í þeirri Biblíu sem við þekkjum í dag.
Þegar saga Egelands tekur flugið á ný í kjölfar vinsælda Da Vinci lykilsins skrifar hann eftirmála að bókinni þarsem hann rekur sögu þessara tveggja sagna, sem eru bæði líkar og ólíkar. Þar kemur fram að meðan Dan Brown geri allt sem hann getur til að halda því fram að kenningar hans séu byggðar á raunverulegri heimildavinnu og beri því í sér sannleikskorn þá dragi Egeland enga dul á það að hans saga er hreinn uppspuni. Hann bendir meira að segja á að það sem hann hefur úr heimildum sé umdeilanlegt og álítur það greinilega á köflum jaðra við álíka mikinn skáldskap og skáldsögu sína. Þetta finnst mér afarhressandi úttekt, og góð áminning um stöðu skáldskapar gagnvart því sem kalla mætti ‘sannleika.’ Það er undarleg lenska hjá höfundum skáldverka að reyna að auka á gildi skrifa sinna með því að halda því fram að þetta sé ‘byggt á sönnum atburðum’ eða ‘heimildavinnu’ og sé því á einhvern hátt ‘satt’ og þarmeð mikilsverðara en annar skáldskapur. Þetta er sérlega asnalegt að því leyti að skáldverk hljóta ævinlega að búa yfir einskonar þekkingu, og vera á einhvern hátt byggð á einhverjum atburðum. Skáldverk eiga ekki að þurfa að bera einhverja sönnunarbyrði, þau eiga að fá að vera skáldskapur - frá grunni eða sem skáldskaparleg úrvinnsla úr sönnum atburðum - og gæti ég vinsamlega fengið að hafa minn skáldskap í friði takk? Til dæmis býr skáldsagan Við enda hringsins yfir þeirri einföldu en mikilvægu þekkingu að sýna framá að trúarbrögð, sem eru jú áhrifamikið málefni okkar samtíma, eru ævinlega spurning um túlkun og útleggingu, en ekki endanlegur sannleiki eða algild, þó þau birtist oftar en ekki í því ljósi. Og þessi túlkun og útlegging er ekki tilfallandi, heldur afrakstur valdabaráttu og sögulegra og menningarlegra aðstæðna. Þetta er mikilvæg áminning, og dugir að mínu mati fyllilega til að gera Við enda hringsins lestursins virði.
Það sama má segja um Eltingaleikinn: Leitina að Vermeer, eftir Blue Ballett, en það er einnig saga sem býr yfir skemmtilegri og hugvekjandi þekkingu. Þetta er saga ætluð börnum og yngri unglingum, svona ca. Harry Potter lesendahópurinn, og enn er hægt að draga upp samlíkingu við títtnefndan lykil. Sú samlíking myndi þá felast í áherslunni á myndlist frekar en kristnifræði. Það verður að segjast eins og er að Eltingaleikurinn er mun skemmtilegri bók en Við enda hringsins og betur heppnuð hvað varðar grunnhugmynd og úrvinnslu úr henni. Þó ég nefni hér Potterinn er best að taka strax fram að þetta er ekki fantasía, þó höfundi takist að skapa sérstaka og heillandi dulúð yfir ævintýrum tveggja ellefu ára krakka sem flækja sig inn í málverkaþjófnað. Málverki eftir Vermeer er stolið og þjófurinn gefur út yfirlýsingu um að markmiðið sé að vekja athygli á því að einungis hluti þeirra verka sem eignuð eru Vermeer séu eftir hann og að listasöfn og listfræðingar beri ábyrgð á því að ‘falsa’ upplýsingar til almennings. Kallar hann því á almenning til að vitna um að tiltekin verk séu ekki eftir listamanninn sjálfan og vekur með þessu upp miklar almennar umræður um klassíska myndlist. Dularfullar tilviljanir verða til þess að Petra og Calder virðast búa yfir óvæntum upplýsingum um Vermeer og verk hans og þau rekja sig síðan eftir afarsniðugum og frumlegum slóðum í átt að - alls óvæntri - lausn málsins.
Það er margt sem minnir á klassískar unglingabækur um unga krakka sem lenda í því að leysa dularfull mál og liggur beinast við að nefna Enid Blyton í því samhengi. Sagan er vel og líflega skrifuð, flækjurnar, eins og áður sagði, bæði frumlegar og snarpar og vísbendingarnar ánægjulega misvísandi. Ekki spilla myndirnar fyrir en höfundur mynda er Brett Helquist og eru þær fullar af ýmiskonar gátum og vísbendingum sem er afskaplega skemmtilegt að velta sér uppúr. Listfræðiþátturinn er líka vel unninn og miðar að því að minna á að klassísk myndlist er ekki bara fyrir sérmenntaða, heldur getur allur almenningur notið hennar og haft skoðanir á henni. Þetta er kannski sérlega mikilvægt að koma þessu á framfæri við unga lesendur, jafnframt því að umskapa leyndardóma listaverkaþjófnaðar sem leyndardóma listarinnar.
Að lokum ber að geta þess að bækurnar eru báðar afarvel þýddar af Kristínu R. Thorlacius, en henni til aðstoðar í Við enda hringsins var Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005.