Beint í efni

Yosoy – af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

Yosoy – af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Nýjasta skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Yosoy – af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss, er um margt óvenjuleg íslensk samtímaskáldsaga. Hún segir ekki frá íslenskum veruleika eins og hann birtist flestum í daglegu lífi, heldur frá ystu mörkum þessa veruleika. Frá óvenjulegu fólki sem reynir á þanþol þess mögulega, andlega og líkamlega, beinlínis á eigin skinni, meðvitað eða ómeðvitað. Daglegt líf er þrátt fyrir þetta snar þáttur í verkinu, því jafnvel þeir sem lifa á jaðrinum deila sömu hversdagstilveru og flestir lesendur þekkja. Þeir fara í matvörubúðir, á bensínstöðvar, eiga fjölskyldur (hversu óvenjulegar sem þær kunna að vera), fara í skóla, eða skrópa, vinna, elska, lifa og deyja.

Frásögnin er römmuð inn af furðulegum leikum, sem ein aðalpersónan, Madame Louise de Roubaix tekur þátt í. Þetta er einhversskonar strengjabrúðuleikur þar sem raunverulegt fólk er í hlutverki brúðanna. Leikarnir eru flóknir, langir, kostnaðarsamir og aðeins lokaður klúbbur fólks getur tekið þátt í þeim. Verðlaunin sem sigurvegara leikanna hlotnast eru dularfull og óviðjafnanleg, nokkuð sem ekki verður keypt með peningum. Íslenski læknirinn Ólafur Benediktson, sem kennir við læknadeild Frelsisháskólans í Brussel, og hefur sérhæft sig í sársauka, dregst inn í þennan furðulega leik fyrir tilstuðlan Madame Louise án þess að vita beinlíns af því sjálfur. Fyrr en varir er hann fluttur til heimalandsins, sem hann hefur ekki búið í um áratuga skeið, til að fylgjast með hryllingsleikhúsinu Yosoy sem heldur úti starfsemi sinni í gömlu ullarverksmiðjunni í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. Þetta fjölleikahús er rekið af sirkusstýrunni Guðrúnu, en það má reyndar muna sinn fífil fegurri. Þar eru samt sýnd ótrúleg atriði líkamslistamanna, sem framkvæma hluti sem virðast á mörkum hins gerlega. Smátt og smátt tvinnast líf Ólafs saman við líf líkamslistamanna hryllingsleikhússins og fljótlega er hann orðinn hluti af þessari furðulegu fjölskyldu sem Yosoy er. Ólafur kemst einnig í kynni við nágranna sína, þar á meðal átta ára stelpu að nafni Elín sem hefur djúpstæð áhrif á hann.

Fjölbreytilegar persónur sögunnar eru smátt og smátt kynntar til leiks á þann hátt að jafnvel þótt þær séu ekki enn farnar að tengjast neinum augljósum böndum er tilvera þeirra fléttuð saman í innri tíma frásagnarinnar. Atburður sem hefur þegar átt sér stað í einum kafla er þannig tengdur við annan atburð sem á sér stað í þeim næsta: „Ásta og Klói bjuggu í tveggja herbergja kjallaraíbúð við Lindargötu og nokkrum klukkustundum eftir að Beta greip í höndina á Jóa í viðlagasjóðshúsinu í Mosfellsbæ opnaði Klói útidyrnar og tók á móti eina kúnna helgarinnnar“ (bls. 15). Þessu tengt er svo sú skemmtilega aðferð Guðrúnar Evu að hafa heiti kaflanna löng og lýsandi fyrir innihald þeirra. Þetta vekur spennu lesandans, honum eru gefin fyrirheit um að ákveðnir hlutir muni gerast en um leið vekja kaflaheitin spurningar sem lesandinn er knúinn til að leita svara við. Sögumannsrödd verksins er sterk og hún heldur textanum saman. Hún er jafnvel svo sterk að raddir persónanna bera keim af þessari sögumannsrödd. Þar með er ekki sagt að sagan sé einradda því blæbrigðamunur persónanna birtist skýrt og greinilega í þriðjupersónu frásögn sögumanns. Það er ýmislegt fleira skemmtilegt í frásagnarhætti sögunnar sem vert er að gefa gaum. Til dæmis stöðu Madame Louise sem einskonar lesanda innan verksins því vitneskja hennar um það sem á sér stað í kringum Ólaf og Yosoy er öll tilkomin í gegnum skýrslur eða myndbönd. Hún hefur því takmarkaðar upplýsingar um framvindu sem hún sjálf hefur hrint af stað, og er því einskonar höfundur að, og dregur því stundum ályktanir sem eru á skjön við þær ályktanir sem lesandi verksins dregur.

Helsti styrkur þessarar sögu er hve áreynslulaust hún býður lesandanum uppá spennandi túlkunarleiðir og tengingar við samtímann án þess að kvikað sé frá því megin markmiði að segja spennandi og áhrifaríka sögu. Undirritaður komst a.m.k. ekki hjá því að velta fyrir sér hliðstæðu líkamslistarinnar, sem boðið er upp á í hryllingleikhúsinu, og þeirri þörf afþreyingarmiðla samtímans að sýna sífellt meira, ganga lengra og lengra, jafnvel svo langt að heilu sjónvarpsþættirnir ganga út á að móta og skapa fullkomna líkama úr „gölluðum“ efnivið og er þá ekkert til sparað við að sýna skurðaðgerðirnar sjálfar. Þessi bylgja hefur jafnvel gengið svo langt að til eru þættir um „fegrunaraðgerðir“ sem farið hafa úrskeiðis. Þessi þörf fyrir að sýna innviði líkamans birtist á margvíslegan hátt í Yosoy en einkum þó í tilburðum Jóa unglings sem er haldinn þeim hryllilega kvilla að finna ekki fyrir sársauka og þráir ekkert heitar en að verða aðal stjarna hryllingsleikhússins. Þótt Yosoy hafi upphaflega verið stofnað af einhversskonar listrænni hugsjón Guðrúnar sirkusstýru, virðist sem hún hafi vikið fyrir þeirri einföldu hugsjón að hala inn tekjur og þóknast áhorfendum með því að ganga sífellt lengra. Sagan veltir því upp fjölda spurninga um sálarlífið, líkamann, siðferðileg mörk og mörk hins gerlega og ógerlega en án þess að það beri sjálfa frásögnina ofurliði.

Er það ekki einmitt í þessu sem galdur alvöru sagnaskáldskapar felst? Að frásögnin fái að njóta sín um leið og lesandinn er spurður krefjandi spurninga, á óbeinan og predikunarlausan hátt. Spurninga sem kannski fást engin einhlít svör við. Það er að minnsta kosti frábært þegar þetta fer saman, því um leið og grundvallar heimspekilegum vandamálum er velt upp, einkum um samband hugar og líkama, lífs og listar, vindur fram spennandi sögu með einstaklega vel heppnuðum persónum í kunnuglegu umhverfi sem þó er framandi.

Ingi Björn Guðnason, desember 2005