Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins eru á vegum Skapandi Evrópu – fjármögnunarverkefni Evrópusambandsins vegna hinna skapandi og menningarlegu greina. Verðlaununum er „ætlað að sýna nýjustu og bestu upprennandi rithöfundum í Evrópu sóma“ svo vitnað sé beint í framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um menntun, menningu, fjöltyngi og æskulýðsmál.
Þátttökuríki í Skapandi Evrópu eru 36 talsins, þar með talið öll aðildaríki Evrópusambandsins; auk umsóknarríkjanna Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Lýðveldinu Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalands og Tyrklands; og loks EES-landanna Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þessum mikla hóp er skipt í þrennt svo að á hverju ári er tilkynnt um sigurvegara eins þriðja ríkjanna (12-13 ríkja), þannig að hvert ríkjanna útnefnir sigurvegara á þriggja ára fresti. „Íslandslotan“ er því einnig lota Bretlands, Búlgaríu, Grikklands, Hollands, Lettlands, Liechtenstein, Möltu, Serbíu, Svartfjallalands, Tékklands og Tyrklands. Þessi hópur hefur útnefnt sína sigurvegara á árunum 2011, 2014, 2017, 2021.
2024 varð breyting á úthlutun verðlaunanna, í stað þess að velja einn höfund frá hverju landi velur 7 manna evrópsk dómnefnd einn vinningshafa auk þess að veita 5 sérstakar viðurkenningar.
Íslenskir verðlaunahafar
2024
Sérstök viðurkenning: María Elísabet Bragadóttir, Sápufuglinn
2021
Sigrún Pálsdóttir: Delluferðin (JPV, 2019)
Dómnefnd: Elín Edda Pálsdóttir, Helga Ferdínandsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir og Þorgeir Tryggvason.
2017
Halldóra K. Thoroddsen: Tvöfalt gler (Kind, 2015)
Aðrar tilnefningar
Dagur Hjartarson: Síðasta ástarjátningin (JPV, 2016)
Dómnefnd: Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Helga Ferdinandsdóttir og Oddný Eir Ævarsdóttir
2014
Oddný Eir Ævarsdóttir: Jarðnæði (Bjartur, 2011)
Dómnefnd: Auður Aðalsteinsdóttir (formaður), Hermann Stefánsson og Ófeigur Sigurðsson
2011
Ófeigur Sigurðsson: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma (Mál og menning, 2010)
Dómnefnd: Auður Aðalsteinsdóttir (formaður), Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Gyrðir Elíasson