Beint í efni

Guðmundur S. Brynjólfsson

Æviágrip

Guðmundur S. Brynjólfsson fæddist 20. nóvember 1964 og ólst upp á bænum Hellum á Vatnsleysuströnd. Guðmundur vann framan af við grjótmulningvélar í hermanginu á Keflavíkurflugvelli en síðar til dæmis sem skoðunarmaður gúmmibjörgunarbáta og einnig við almenna verkamannavinnu.

Guðmundur tók stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1989, lauk B.A. prófi í almennri bókmenntafræði 1993 frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í leiklistarfræðum frá Royal Holloway, University of London 1994. Stundaði rannsóknir í leiklistarfræðum og menningarsögu við sama skóla á árunum 1997 til 1999. Guðmundur lauk prófi í djáknafræðum frá Háskóla Íslands 2007 og tók vígslu sem djákni 18. nóvember 2012 en það sama ár lauk hann M.A. prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Guðmundur er nú við lok doktorsnáms í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Guðmundur hefur á síðustu árum kennt fræðigreinar við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, starfað sem djákni og var um tveggja ára skeið framkvæmdstjóri Hins íslenska biblíufélags. Þá hefur Guðmundur skrifað pistla fyrir fjölmiðla og unnið að ritstjórnarverkefnum í bókaútgáfu. Þá hefur hann skrifað fræðigreinar og haldið fyrirlestra og um tíma skrifaði hann leiklistargagnrýni.

Guðmundur hefur setið í stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur frá hausti 2014 og var í fulltrúaráði Leikminjasafns 2003-2006. Árið 2004 var hann í dómnefnd Leikskáldafélags Íslands vegna tilnefningar fyrir Norrænu leikskáldaverðlaunin.

Ljósmynd af höfundi : Dagur Gunnarsson