Æviágrip
Guðmundur S. Brynjólfsson fæddist 20. nóvember 1964 og ólst upp á bænum Hellum á Vatnsleysuströnd. Guðmundur vann framan af við grjótmulningvélar í hermanginu á Keflavíkurflugvelli en síðar til dæmis sem skoðunarmaður gúmmibjörgunarbáta og einnig við almenna verkamannavinnu.
Guðmundur tók stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1989, lauk B.A. prófi í almennri bókmenntafræði 1993 frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í leiklistarfræðum frá Royal Holloway, University of London 1994. Stundaði rannsóknir í leiklistarfræðum og menningarsögu við sama skóla á árunum 1997 til 1999. Guðmundur lauk prófi í djáknafræðum frá Háskóla Íslands 2007 og tók vígslu sem djákni 18. nóvember 2012 en það sama ár lauk hann M.A. prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Guðmundur er nú við lok doktorsnáms í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Guðmundur hefur á síðustu árum kennt fræðigreinar við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, starfað sem djákni og var um tveggja ára skeið framkvæmdstjóri Hins íslenska biblíufélags. Þá hefur Guðmundur skrifað pistla fyrir fjölmiðla og unnið að ritstjórnarverkefnum í bókaútgáfu. Þá hefur hann skrifað fræðigreinar og haldið fyrirlestra og um tíma skrifaði hann leiklistargagnrýni.
Guðmundur hefur setið í stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur frá hausti 2014 og var í fulltrúaráði Leikminjasafns 2003-2006. Árið 2004 var hann í dómnefnd Leikskáldafélags Íslands vegna tilnefningar fyrir Norrænu leikskáldaverðlaunin.
Ljósmynd af höfundi : Dagur Gunnarsson
Frá höfundi
Ég er einrænn maður og fælinn, sjálfum mér nógur en geggjaður, og get ekki annað en reynt að halda mig til hlés. Þegar ég er einn þá er það bæði böl mitt og blessun. Samneyti við annað fólk er ofmetin þáttur í heimi mannfólksins. Einsemd er samt mannskemmandi. Þetta rekst vitaskuld hvað á annars horn og endar með ósköpum, jafnvel skelfingu, ef ekkert er að gert. Hér er óleysanlegur hnútur sem óleyfilegt er að höggva á og bannað að brenna.
Mögulega má lifa af á þessum öfugsnúna nálapúða, í það minnsta sætta sig við stungur og sár, ef maður fríar sig frá því að lifa fullkomlega eftir forskrift þeirra sem trúa á félagslyndi, heilbrigði og samvinnu. Maður dólar með þeim frá degi til dags, og leyfir sér að njóta þess besta sem af borðum þeirra hrekkur, þannig heldur fjöldinn sönsum. Við öll.
Á milli, og eins oft og maður getur, skríður maður frá og lokar sig inni. Býr sér til heim sem maður stjórnar. Í þeim heimi getur maður tregað það sem aldrei varð, blessað það sem fór giftusamlega forgörðum og leitt sjálfan sig og aðra á höggstokkinn. Tjáð jafnt ást sína og leiða, gefið mannhatrinu lausan tauminn og hafnað mönnum en lofsungið Guð sinn. Verið maður sjálfur en samt annar en maður er – í augum heimsins.
Ég er sem sé að sætta eitthvað þegar ég skrifa. Jafna einhvern innri ágreining. Sætta mig við að þurfa að vera, jafna mig á því að vera ekki.
Um höfund
Átthagafræði af mörkum mennskunnar
Um verk Guðmundar S. Brynjólfssonar
I
Þegar Gosbrunnurinn, fyrsta skáldsaga Guðmundar S. Brynjólfssonar fyrir fullorðna, kom út árið 2014 hafði hann þegar fengið eitt og annað útgefið og sviðsett. Fyrir utan þrjár smásögur höfðu komið út eftir hann tvær bækur fyrir börn og ungmenni, og Gral, Grindvíska atvinnuleikhúsið hafði sviðsett nokkur leikrit, ýmist eftir Guðmund einan eða samstarfsverkefni með hinum stofnanda og leiðtoga leikhússins, Bergi Þór Ingólfssyni. Síðan hefur eitt leikrit litið dagsins ljós á fjölunum, en ekkert barnaefni, og trúlega rétt að líta á Guðmund fyrst og fremst sem höfund skáldsagna fyrir fullorðna, fyrir utan hina litríku og oft meinfyndnu blaðapistla sem hann hefur skrifað með hléum í nokkur ár.
Efni Guðmundar fyrir börn og svið hefur engu að síður notið velgengni. Fyrsta verk Guðmundar sem kom út á bók er verðlaunasmásagan „At?“ sem kom út í samnefndu safni af draugasögum fyrir börn 2008 og unglingabókin Þvílík vika hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2009. Þá hlaut uppfærsla Gral á leikritinu Horn á höfði Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2010.
Þvílík vika sver sig að mörgu leyti í hefð íslenskra unglingabóka áður en fantasían varð þar ríkjandi grein. Venjulegir lífsglaðir unglingar að reyna fyrir sér á hálu svelli fullorðinsáranna, máta hlutverk fyrir framtíðina, kynnast ástinni og glíma við freistingar. Gjarnan í skugga erfiðleika heima fyrir, sem spanna allt rófið frá almennu skilningsleysi „venjulegs“ fullorðins fólks á tilvistarangist aðalpersónanna, til raunverulegs böls á borð við alkóhólisma og ofbeldis.
Í Þvílíkri viku fylgjumst við með fimm krakka vinahópi með augum Geirs, eins í hópnum, en aðallega kynnumst við honum sjálfum og hans innri manni. Skuggahliðum unglingsáranna kynnumst við í gegnum besta vin hans, Sigga, sem er efnilegur handboltastrákur á leið í atvinnumennsku, en býr við erfiðar aðstæður með drykkfelldum foreldrum og ofbeldisfullum föður. En þó þessi félagslegu vandamál gegni lykilhlutverki í dramatískum hápunkti sögunnar eru þau lengst af í bakgrunni og við fylgjumst með Geira glíma við „meinlausari“ vandamál. Þar ber hæst hin afdráttarlausu áform þeirra vinanna að detta nú loksins í það til að halda upp á útskrift úr grunnskóla, og svo hvaða skref sé óhætt að stíga í samskiptum við Hafdísi, sem er kannski aðeins meira skotin í honum en Geir í henni.
Geir er sérlega aðlaðandi aðalpersóna. Nær bæði að hugsa áhugaverðar og frjóar hugsanir og vera jafnframt trúverðugur fulltrúi hins „venjulega“ unglings:
Auðvitað er alveg fínt að einhver sé hrifin af manni og svona. En það er bara að koma sumar. Ég þarf að gera svo margt og svo er bara ágætt hvernig við vorum saman. Þetta „algjörlega“ hræddi mig. Veit ekki alveg hvað hún er að fara. Svo veit ég ekkert hvernig þetta á að þróast – ég meina, hvað gerir maður svo? Byrjar saman – góður OK – hvað svo? Kossar OK. Kynlíf? Sæll – kann það ekkert. Það er ógnvekjandi, freistandi, fráhrindandi, ógeðslegt en örugglega frábært. Bara svo stórt stökk eitthvað, bara svo eitthvað … eitthvað.
(106–107)
Lýsing sögunnar á unglingalífinu og samlífinu með fullorðna fólkinu (sem er einnig vel lýst, sérstaklega fjölskyldu Geirs) er trúverðug og heldur áhuga lesandans þó Guðmundur stilli sig um æsilega atburðarás. Sögulokin; þegar myrkar hliðar áfengisbölsins fá drengina ofan af áformunum sem hafa kraumað alla bókina um fyrsta fylleríið, eru dálítið brött og melódramatísk, en heilt yfir er Þvílík vika prýðileg og jafnvel óvenju bitastæð bók af sínu tagi.
Það á líka eftir að skýrast betur að Guðmundur freistast gjarnan til að grípa til kröftugra og svipmikilla viðburða í sögum sínum, sem að öðru leyti eru gjarnan með heimspekilegum og sálfræðilega trúverðugum blæ, og tefla jafnvel á tæpasta vað í trúverðugleika með slík atvik.
Barnabókin Kattasamsærið (2012) er skemmtileg saga af lífsbaráttu kisunnar Petru Pott, sem lendir á heimili þar sem hún er ekki nema hæfilega velkomin og á engan traustan bandamann meðal heimilisfólksins. Sem betur fer kemst hún í kynni við öldunginn í gæludýraheimi hverfisins, högnann Hamlet, sem hefur ráð undir rifi hverju þegar fólkið hennar Petru gerir sig líklegt til að senda hana burt. Það er gaman að skoða mannlífið með augum Petru og mannfólkið í sögunni eru hæfilega ýktir og breyskir karakterar sem hafa ekki roð í ráðabrugg Hamlets. Ekki síst heimilisfaðirinn sem „var svo rosalega viss um það að hann væri svo ægilega gáfaður. Mest vegna þess að hann vissi hvað hafði farið mikið af steypu í byggingu íþróttahússins“ (18). Enda fer allt vel á endanum, þó ekki festist Petra í sessi hjá fólkinu sínu, heldur fær að lokum skjól hjá dýravinum í næsta húsi þar sem annar vinur hennar, hundurinn Lúsíus, býr.
II
Eins og áður segir var fyrsta bók Guðmundar fyrir fullorðna stutt skáldsaga sem ber nafnið Gosbrunnurinn – sönn saga af stríði. Þar segir frá fjármálamanni sem hefur flúið það vafstur og leitað skjóls í afskekktu þorpi á stríðshrjáðu svæði og fæst við að senda viðskiptafjölmiðlum uppdiktaðar fréttir um horfur og tækifæri á markaðnum, sem hafa engu að síður áhrif á gang mála í þeim handanheimi. Fleira er á jaðri raunveruleikans í þessari sögu, aðallega mannlífið í þorpinu. Þar eru fæstir allir þar sem þeir eru séðir og flestir þorpsbúar bera ör eftir hið endalausa stríð sem geisar í fjöllunum í kring og enginn skilur hvað gengur út á eða á sér von um að muni nokkurntíma linna.
Heimur sögunnar er næsta kyrrstæður, helsta hreyfingin er sameiginlegt átak þorpsbúa til að koma gosbrunninum fagra á torginu í gagnið aftur. Frásagnir fjármálamannsins af því og lífinu í þorpinu eru reglulega fleygaðar með hjartnæmum bréfum hans til dóttur sinnar sem hann hefur ekki séð árum saman en lofar stöðugt að snúa aftur til en lesandanum þykir nokkuð ljóst að það stendur ekki til í neinni alvöru. Undir lokin kemur síðan í ljós að bréfin eru aldrei send, sem kemur ekki beinlínis á óvart.
Þó svo fjármálavafstur á heljarþröm og borgarastyrjaldir í umhverfi sem auðvelt er að tengja við Balkanskaga sé sviðsmynd Gosbrunnsins (þorpið er samt aldrei staðsett formlega), þá er sögusvið og persónugallerí verksins fyrst og fremst „bókmenntalegt“. Sagan sver sig í ætt evrópskrar fjarstæðuhefðar með tíðindaleysi sínu, kaldranalegrar afstöðu til endalausra átakanna í bakgrunninum og skreytilistinni í persónueinkennum aukakarakteranna andspænis andlitsleysi aðalpersónunnar. Tónn Guðmundar er hér í mótun, en strax auðþekkjanlegur: Hæfilega kaldhæðinn, dálítið lærður, ríkur af pælingum sem flestar eru skemmtilegar, nokkrar óvæntar og allar vel formaðar.
Hann sagðist vera í legsteinagerð og það passaði ekki að maður sem smíðaði legsteina gerði við gosbrunn, það væru allt að því helgispjöll. Þegar hann var spurður að því hvaða helgispjöll væru í því fólgin svaraði hann því til að gosbrunnur ætti að tákna líf og fjör en legsteinn væri dauðanum merktur. Og dauðinn væri virðulegur, sagði hann, en gosbrunnur gæti aldrei orðið annað en manngerður fíflagangur og vottur um sýniþörf pípulagningamanns.
(23)
Efnahagsspár mínar þóttu meira en góðra gjalda verðar. Spár sem ég hafði ekki vit til að gera. Annars held ég að enginn hafi vit á neinu. Menn hlaða upp því sem þeir látast hafa vit á og bera saman við hitt sem aðrir þykjast hafa vit á og þannig verður til ágreiningur um vitneskju eða samkomulag um vitneskju, um sannleika, byggt á ágiskunum eða hreinni lygi
(55)
Gosbrunnurinn gefur til kynna að höfundi sé full alvara með ferð sinni út á þann hluta ritvallarins sem skáldsagnarformið er. Það má finna fyrir því að drifkraftur skrifanna sé ekki síst sá að máta sig við það verkefni, frekar en að reka brýnt erindi eða gera frumlegar formtilraunir. Niðurstaða Guðmundar hefur augljóslega verið sú að fyllsta ástæða væri að halda áfram og færast meira í fang, og því eru lesendur Gosbrunnsins og bókanna sem á eftir koma vafalaust upp til hópa sammála.
IV
Í næstu skáldsögu eru hugleiðingar sögumanns einnig í stóru hlutverki, enda er hún að forminu til nokkurskonar varnarræða, endurlit yfir ævi sem hefur leitt sögumann og aðalpersónu út úr mannlegu samfélagi. Það sem söguhetjan og sögumaðurinn Engilbert hefur að segja er heldur ekki alltaf svo fjarri þeim sem sleppa úr penna útlagans við gosbrunninn:
Læknirinn minn vill meina að ég hafi ranghugmyndir. En þá spyr ég á móti: Hvaða hugmyndir eru rangar. Hugmynd er hugmynd. Ekkert annað. Hún er aldrei röng. Fugl situr í trénu sem ég sit undir. Það er skjór. Hann á ekki heima hér á landi. Hann er samt ekki rangur fugl.
(112)
Fleira er samt sem greinir á milli. Í Líkvöku (2015) er atburðarásin viðameiri, en þó kannski aðallega nærgöngulli við lesandann.
„Ég sit yfir líki“ eru upphafsorð sögunnar. Engilbert hefur framið morð í húsi manns, í hefndarskyni, en hefndin hefur ekki komið niður á réttan stað. Milli þess sem Engilbert hugleiðir og leggur út af stöðu sinni í samfélaginu og andlegu ástandi sínu rekur hann átakanlega sögu sína. Hroðalega meðferðina sem móðir hans sætti hjá mönnum sem hún starfaði hjá sem húshjálp og vinnukona. Endurteknar nauðganir og barsmíðar, oft að barninu ásjáandi. Veikburða tilraunir velviljaðs prests komu fyrir lítið og Engilbert sogast inn í heim eiturlyfjafíknar, útigangs og geðveiki. Fyrir vikið er honum ekki fyllilega treystandi, hvorki sem sannsöglum sögumanni né heiðarlegum greinanda síns eigin skemmda sálarlífs.
Lýsing samfélagsins sem mótar Engilbert er sannfærandi í Líkvöku. Þetta er samfélag harðneskju, skeytingarleysis og kulda. Þó sennilega deili fæstir lesenda reynslu með söguhetjunum þá þarf enginn að efast um að viðlíka örlög séu langt í frá óhugsandi í raunveruleikanum. Niðurbrot persónuleika drengsins virðist manni næsta óhjákvæmilegt, þrátt fyrir stundarskjól sem hann nýtur hjá séra Þórði og frú Oddnýju. Með niðurbrotinu raknar frásögnin eðlilega dálítið upp, þó alltaf haldi Guðmundur athygli lesandans og öllum þráðum í hendi sér.
Þar skiptir miklu hvað rödd sögumanns er skýr og sérstök, full af orðheppni og hryssingslegum húmor til að halda sárum harminum í skefjum. Sennilega væri Líkvaka nokkuð illbærileg lesning ef þessa nyti ekki við. Í bókinni verða líka hvað eftir annað á vegi manns snjallar hugleiðingar sem venda fyrir lesandanum algengum hugmyndum á hressandi hátt:
„Þegar allir ganga í takt en enginn gengur samt í sama takti og næsti maður, þá er ekki gengið í takt.“
(157)
Guðmundur teflir síðan á tæpasta vað með lýsingum á ódæðisverki Engilberts sem rammar inn frásögnina. Óhætt er að segja að þær séu ekki fyrir klígjugjarna og sú hugsun hvarflar að manni hvort sumt af því svaðalegasta standi ekki beinlínis áhrifamætti hennar og erindi fyrir þrifum. Það er á hinn bóginn umtalsvert öryggi í því hvernig lífshlaupi Engilberts eru gerð skil í brotakenndum myndum, hugleiðingum og vitnisburði samferðamanns sem kynnist honum á geðdeild og fleygar frásögnina með myndum sem oft stangast á við það sem hann sjálfur hefur að segja.
V
Næsta skáldsaga Guðmundar kemur út tveimur árum eftir Líkvöku. Þar stígur Guðmundur stórt skref í átt til raunsæis og velur sér viðfangsefni með skýrari skírskotun til hversdagslegrar reynslu meðal-Íslendingsins. Hér er unnið með kunnuglegt viðfangsefni: ráðvillta unga manninn sem veit ekki hvert ber að stefna, hvernig á að fóta sig og mæta kröfunum sem veröld hinna fullorðnu ber fram með sífellt ágengari hætti. Hamlet og Holden Caulfield koma báðir upp í hugann þegar Brynjar Kristjánsson tekur á sig mynd í Tímagarðinum (2017). Kannski fyrst og fremst sá fyrrnefndi, enda er sorg ein af rótum ráðvillu söguhetjunnar í Tímagarðinum, og í bakgrunninum bíður ástin, sönn og trú, þrátt fyrir feilsporin.
Brynjar (Binni), ungur maður úr sjómannsfjölskyldu, er ráðalaus í lífinu. Hann afræður í upphafi bókar að hefja nám í fagurfræði, en áður en til þess kemur verður hann strandaglópur eftir einnar nætur gaman í Hveragerði og biður Begga, móðurbróður sinn, að sækja sig. Sá er bílamaður, partasali og viðgerðarmaður og í stað þess að keyra Binna heim í stórhýsið í Reykjavík þar sem hann býr með móður sinni leggur Beggi upp í leiðangur hringinn í kringum landið með frænda sinn, til að reyna að leiða honum fyrir sjónir fegurð lífsins og hjálpa honum að ná áttum. Og að sjálfsögðu nota ferðina til að erindast í faginu og koma vini sínum, snyrtirónanum Tóta í tauinu, í enn eina meðferðina.
Binni glímir við eftirköst hörmungaratburðar. Nokkrum árum áður en sagan gerist ferst bátur föður hans og með honum faðirinn og eldri bróðir. Illa útleikið lík bróðurins rak nokkru síðar en faðirinn fannst aldrei. Þessi skelfing hefur lagst þungt á Binna, sem fram að því hefur verið lífsglaður og efnilegur. Þó ekki eins dáður og knattspyrnuhetjan bróðir hans. Óregla og lausung í ástarmálum tekur yfir, í bland við getuleysi, og hann hrekur frá sér kærustuna Rebekku. þar stíga lífskúnstnerarnir Beggi og Tóti inn í.
Ferðalagið er á köflum skemmtileg lesning. Ótal smámyndir af fólki, sumar kómískar, eins og óborganleg ræða bæjarstjóra á borgarafundi þar sem hneykslast er á fíflskunni og óráðsíunni fyrir sunnan um leið og kvartað er yfir að hún standi ekki umbjóðendum hans einnig til boða. En líka fallegar og einlægar, eins og samtöl Binna við Sínu, litla sveitastelpu, og rabb hans við feðga á leið í róður sem spegla feðgana sem fórust. Annar eftirminnilegur og sannfærandi karakter er móðir Binna; klassískt hörkutól sem lýst er af hlýju án þess að neitt glatist af hryssingslegum trúverðugleika.
Samskipti Binna við ferðafélagana eru ekki eins svipmikil og þessar smámyndir af fólki sem verður á vegi þeirra. Tímagarðurinn hverfist ekki um spennu eða átök sem þroska söguhetjuna, eins og lesandinn gæti vænst af dæmigerðri „vegasögu“. Vera má að það komi niður á trúverðugleika og rökvísi þess umsnúnings sem verður á viðhorfum söguhetjunnar undir lokin. Vonin um betri tíð sem þar er gefin um að Binni muni finna sinn stað í samfélaginu er ekki byggð á sérlega traustum grunni. Gildi Tímagarðsins birtist fyrst og fremst í skarpri og sérstakri sýn höfundar á sérkennilegt fólk og kátlega drætti í þjóðarsálinni.
VI
Tónninn í skáldsögum Guðmundar er það sem gefur þeim gildi, umfram persónusköpun eða atburðarás. Einhverskonar hlý- og hrúðurkarlaleg kaldhæðni, krydduð með dálítið ögrandi þáþrá. Þetta er áberandi í Tímagarðinum, þar sem partasalinn Baddi elskar bensínháka fortíðarinnar og neitar að venja sig af því að henda sígarettustubbum út um bílgluggann, en er jafnframt í hlutverki „markþjálfa“ og bjargvættar fyrir afvegaleiddan æskumanninn.
Annar þáttur er fyrirferðarmeiri í Líkvöku: öfgakennd og mjög beinskeytt útmálun andstæðnanna góðs og ills, sem birtist lýsingunum á séra Þórði annars vegar og kvölurum móðurinnar hins vegar, að ógleymdu voðaverki Engilberts sjálfs.
Sögumenn Guðmundar eru ekki af þeim skólanum sem leyfa atburðum að tala sínu máli, heldur segja hiklaust kost og löst á fólki, sem setur mjög svip sinn á næstu verk. Þar er á hinn bóginn lögð meiri rækt við atburðafléttu og trúverðuga persónusköpun, eins og greinin sem þar er unnið innan krefst.
Þríleikur Guðmundar um sýslumannshjónin á Eyrarbakka; Eitraða barnið, Týnda barnið og Síðasta barnið, kom út á árunum 2018–2020 og er frumlegt innlegg í glæpasagnaflóruna Það fer ekkert á milli mála að þar skrifar sami höfundur og hafði glímt við „bókmenntalegri“ hefðir fram að þessu. Beinskeyttar og allt að því yfirdrifnar lýsingar á ofbeldisverkum minna á Líkvöku. Sögumaður þeirrar bókar er ófeiminn við að fella skýra og harða dóma, sem verður að teljast rökrétt þar sem illvirkin bitnuðu ekki síst á honum sjálfum. Alvitur sögumaður Eyrarbakkaþríleiksins stendur sjálfur utan og ofan við atburðina en er ekki síður örlátur á einkunnir fyrir söguhetjur sínar. Þá á drykkjuskapur Eyjólfs sýslumanns sér hliðstæðu í taumleysi í lifnaðarháttum persóna í Líkvöku og Tímagarðinum, og vel er hægt að sjá hina sterku, dáðu og umfram allt fyrirgefandi Rebekku sem upptaktinn að lýsingu sýslumannsfrúarinnar, þó Guðmundur haldi þeirri fyrrnefndu „utan bókar“ ef svo mætti segja, láti hana bíða þolinmóða eftir að söguhetjan nái áttum, líkt og Sólveig beið Péturs Gauts á sínum tíma.
Anna Bjarnadóttir bíður líka „vetur og vor“ eftir eiginmanni sínum, Eyjólfi Jónssyni, meðan hann dundar sér tíu síðustu ár nítjándu aldarinnar við laganám í Kaupmannahöfn, en þó aðallega við svall með öðrum eilífðarstúdentum og skáldspírum, að ógleymdum öllum stúlkunum sem hann sefur hjá, að hefðbundnum sið Hafnarstúdenta eins og þeir lifa í þjóðarminninu.
Hann er ekki óhreinn en fötin eru snjáð eins og verða vill hjá snyrtilegum mönnum sem þurfa að nota fé sitt í annað en ný föt en vilja samt ekki vera skítugir.
(22)
Þegar Eyjólfur loksins snýr aftur heim, nauðugur viljugur, tekur Anna honum opnum örmum og umber honum hvert feilsporið og fallið á fætur öðru eftir að hann tekur við sýslumannsembættinu í Árnessýslu og þau koma sér fyrir á Eyrarbakka.
Langlundargeð Önnu meðan hún situr í festum, til viðbótar öðrum mannkostum hennar, gefa strax tóninn um að sögurnar eru ekki rígbundnar sálfræðilegu raunsæi. Hér er málað með frumlitum, persónur eru stórar í sniðum en dregnar skýrum dráttum og verða þegar upp er staðið ansi nákomnar lesandanum. Það á sérstaklega við um hinn drykkfellda en góðviljaða sýslumann, kvenskörunginn fagra við hlið hans, örlynda drenginn Snorra og svo auðvitað erkiómennið með illmennislega nafnið: Kár Ketilsson. Þessir stóru og öfgakenndu drættir, með áherslu á myrkar hvatir og stórar tilfinningar, tengja þríleikinn við bókmenntir tímans sem þær gerast á. Það er ekki tilviljun að einn af drykkjubræðrum Eyjólfs á stúdentsárunum er Laxamýrarpilturinn Jóhann Sigurjónsson.
Margar persónur sem koma aðeins skamma stund við sögu festast líka í minni. Þá eru í útjaðri sögunnar nokkrar sögulegar persónur. Jóhann er ein, en eftirminnileg er aðkoma ungs lagastúdents, Einars Benediktssonar, að réttarhöldum í Eitraða barninu, sem kallast á við Sólborgarmálið sem varð skáldinu svo þungbært í upphafi ferils hans og hefur orðið fleiri höfundum innblástur.
Fyrsti kafli Eitraða barnsins hefst á hrottalegri og verulega vel teiknaðri nauðgun, þar sem lesandinn fylgir hinni ungu Elísabetu Nóadóttur í sendiför á sýsluskrifstofuna þar sem sýsluskrifarinn, illmennið Kár, ræðst á hana:
Hún hélt ekki að lífið væri svona. Svo hrasar hún niður brattan stigann – en það er allt í lagi, hún getur ekki meitt sig meira.
(13)
Raunum Elísabetar er þó hvergi nærri lokið. Lausn gátunnar um nauðgara Elísabetar og örlög barnsins sem fæðist eftir árásina er viðfangsefni Eitraða barnsins. Þar reynist Anna vitaskuld gleggri rannsakandi en bóndi hennar. Meðfram fáum við snjalla og líflega teiknaða mynd af lífi í smáþorpi um aldamótin 1900.
Eitraða barnið er ekki „ráðgátudrifin“ glæpasaga. Það vefst ekki fyrir lesandanum hver er sekur, og Guðmundi er ekki sýnt um að hnýta flókna fléttu. Í Þögla barninu, annarri bók bálksins, fer hann mun nær hefðbundinni uppbyggingu glæpasögunnar. Þar er Eyjólfi sýslumanni skipað að leysa gamalt morðmál í annarri sveit; mál sem fólkið í kotunum á Vatnsleysuströnd telur sig reyndar vita hvernig er vaxið. Þegar Eyjólfur, en þó einkum frú Anna taka til við að kanna málið birtist smám saman önnur mynd.
Aftur er dregin upp athyglisverð mynd af samfélagi, í senn hlý og hryssingsleg, í tóntegund sem Guðmundur leikur oft í og hefur vel á valdi sínu:
„Stundum, og það bara oft, er samfélagið okkar hérna á Ströndinni með þessum hætti. Menn, eða maður veit svo sem ekkert hvaða menn eða hvort það eru einhverjir sérstakir menn yfirleitt, en jú, það er eins og einhverjir sérstakir menn yfirleitt, en jú, það er eins og einhverjir menn ákveði hvað er rétt og hvaða skoðun eigi að hafa. Og svo bara fer það þannig að áður en hundurinn hefur gelt, hafa allir sömu skoðun.“
(136)
Meðfram rannsókn Eyjólfs og Önnu á dauða Helga Jónssonar fylgjumst við með Kár Ketilssyni ná vopnum sínum eftir að hafa verið talinn af í lok Eitraða barnsins. Hann hefur komist til Englands og vinnur skipulega að því að koma fram hefndum og er tilbúinn að leggja ýmislegt á sig, þó hann haldi áfram að svala hvötum sínum líka.
Eitt af því sem gefur þessum bókum viðeigandi „gamaldags“ blæ er hvernig sögumaður grípur hvert tækifæri til að nefna illsku Kárs, þó svo framferði hans segi í sjálfu sér alla söguna um það:
Það er ekki fyrr en í lestinni til Egham að Kár fer að finna til kvíða. Hann hugleiðir að hætta við en fer svo að vega og meta í huga sér hvort sé sætara að ná fram hefnd eða hitt, að verða að búa í útlegð – lifandi dauður.
Rökhugsun Kárs og biturð, öfund, illska og girnd dæma þetta spursmál. Auðvitað heldur hann sínu striki.
(31)
Þó þrjú morð séu framin í Síðasta barninu hverfur rannsókn þeirra í skuggann af átakanlegri lífsreynslu sýslumannshjónanna, sem missa dóttur sína eftir að Anna hafði áður fætt andvana barn, og þarf að lokum að undirgangast legnám. Nafnið vísar þó ekki til þess barns, heldur Snorra litla Snorrasonar, sem hefur verið sendiboði sýslumanns síðan í fyrsta bindi og þau hjónin taka að sér þegar móðir hans og systir farast í bruna. Erkiillmennið Kár Ketilsson er snúinn aftur í sveitina og sækir að sýslumannsfjölskyldunni. Þannig tekst að halda stöðugri spennu í sögunni þó lengst af sé hugur Eyjólfs og Önnu bundinn öðru, jafnvel eftir að Snorri hverfur og lesandinn veit að hann er lentur í klóm Kárs.
Guðmundur teflir á köflum á tæpasta vað melódramans í þessum sögubálki. Yfirgengileg illska Kárs, manngæska Eyjólfs og mildi við smælingja, og ekki síst umburðarlynd ást Önnu þrátt fyrir að ekkert sé dregið undan í lýsingu á drykkjutúrum og sérgæsku eiginmannsins þegar þannig liggur á honum: það blasir við að þetta eru engir „skandikrimmar“ þó ekkert sé dregið undan í að horfast í augu við ofbeldi, fíkn og grimmd, og láta persónubresti og heimilisógæfu aðalpersónanna lita framgang mála.
En einmitt þessi hástemmda tilfinningasemi tengir textann við tímann sem lýst er. Tíma nýrómantíkur og expressjónisma þar sem úrkynjun, öfgar, sturlun og tómhyggja er skáldum og rithöfundum hugstæð. Hér sett í samhengi við kyrrstætt íslenskt samfélag á djarfan og snjallan hátt.
Það lætur Guðmundi S. Brynjólfssyni vel að vinna inn í ramma glæpasögunnar. Áhugi hans á myrkum hliðum mannlífsins fær útrás í þríleiknum, en formið kallar jafnframt á að höfundur virði reglur; leggi rækt við sannfærandi og spennandi atburðarás og persónur sem bregðast við á trúverðugan hátt, en hafa engu að síður sitthvað að fela.
Sögulegt efni fer líka vel í penna hans. Það er einhver þáþrá í öllum hans bókum, eins og áður hefur verið drepið á: í sofandalegu þorpinu í Gosbrunninum sem virðist smíðað úr bókmenntalegu strandgóssi, ekki síður en nýsmíðuðum hugmyndum eða raunverulegu mannlífi. Í voninni sem presthjónin í Líkvöku varpa inn í líf Engilberts af veikum mætti, og í stórkallalegri lífsspeki „markþjálfanna“ í Tímagarðinum.
Ákveðið kæruleysi í umgengni við ströngustu reglur hefðarinnar bendi til að Guðmundur ætli ekki að halda sig alfarið innan glæpasögurammans í framtíðinni. Fyrir vikið verður forvitnilegt að sjá hvar hann drepur niður penna næst.
Þorgeir Tryggvason, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Um einstakar bækur
Þvílík vika
Margrét Tryggvadóttir: „Barnabækur eftir hrun“
Tímarit Máls og menningar: 2010: 71 (2): bls. 80-86
Verðlaun
2010 - Grímuverðlaunin: Horn á höfði
2009 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Þvílík vika
2008 - Fyrstu verðlaun í draugasögu-samkeppni fyrir börn á vegum Forlagsins og bókmenntahátíðarinnar Draugur úti í mýri: „At?“
2006 - Önnur verðlaun í sakamálaleikrita-samkeppni Borgarleikhússins: Net
Tilnefningar
2009 - Tilfnefning til Grímuverðlauna í flokknum „Leikskáld ársins“: Tuttugu og eins manns saknað.
Hrópað úr tímaþvottavélinni
Lesa meira„Í dag eru teknar milljónir mynda. Þær eru helst aldrei skoðaðar. Enda ekki teknar til þess. Heldur til að drepa tímann. Festa tímann. Frysta tímann. Ef tíminn er þá til.“ Í þessari bók ljóða og athugasemda gefur að líta greiningu á stöðu nútímamannsins – þess manns sem virðist úreltur fyrir aldur fram. Hver tekur við? Hvað tekur við?Síðasta barnið
Lesa meiraÞögla barnið
Lesa meiraSvartlyng
Lesa meiraEitraða barnið
Lesa meiraTímagarðurinn : eða Leitin að fegurðinni
Lesa meiraHann gekk nú samt
Lesa meiraLíkvaka
Lesa meiraIceland Defense Force
Lesa meira
Bob læknir og góðu, gömlu félagarnir : ævisaga: ásamt minningabrotum um upphaf AA samtakanna í miðvesturríkjunum.
Lesa meira