Beint í efni

Dauðabókin

Dauðabókin
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Stúlka á unglingsaldri deyr vegna ofneyslu eiturlyfja í sumarpartíi í Borgarnesi. Enginn er handtekinn vegna málsins.

Um haustið er piltur myrtur við Rauðhóla. Skömmu síðar fá vinir hins myrta torkennilegar vinabeiðnir á samfélagsmiðlum sem leiða þá að síðu sem kallast Dauðabókin. Hver stendur að baki síðunni og hvað vill Dauðabókin unga fólkinu?

Hörður Grímsson rannsakar málið, sem verður sífellt flóknara. Þegar annað ungmenni liggur í valnum er samfélagið í áfalli en Hörð grunar að vinir hinna látnu segi ekki allan sannleikann. Eiga þeir leyndarmál sem ekki þola dagsljósið?

Dauðabókin er áttunda bók Stefáns Mána um þennan sérstæða lögreglumann.

Úr bókinni

   Hörður ekur sér í sætinu, eins og spenntur áhorfandi á kappleik, enda hefur hann orðið vitni að heilmikilli sýningu sem hann er sannfærður um að tengist málinu sem hann er að rannsaka. Spennan á milli þeirra Braga og Odds er áþreifanleg - rafmögnuð - og það er eins og Lísa sé það sem þá greinir á um.
   Ástarþríhyrningur? Er það heila málið? Hörður trúir því varla en stundum eru svörin jafneinföld og ráðgáturnar eru flóknar. En hvort sem morðið á Patreki var ástríðuglæpur eða ekki er augljóst að hans fyrrverandi tengist því á einn eða annan hátt. Stúlkan á nektarmyndunum.
   Salurinn þagnar þegar fulltrúi hinnar lútersku þjóðkirkju tekur til máls. Fyrir utan nokkrar ræskingar mætti heyra saumnál detta. Presturinn er grár og gugginn, í senn veiklulegur og virðulegur. Hann stendur aftan við púltið, rennir augunum yfir söfnuðinn og talar um missi, um sorg, um það að lifa og deyja. Röddin er djúp og hlý.
   „... við sjáum guðdómleikann speglast í augum nýfædds barns, og þá er eins og eilífið opnist eins og blóm í hjarta okkar - við elskum svo heitt að það er eins og við séum að springa. En þegar Guð sem gefur breytist í Guð sem tekur, þá kólnar okkur í hjartanu, tjöld leggjast fyrir augun og það dimmir í huganum. Við verðum sorgmædd, reið, og við missum trúna. Eða hvað?“
   Þegar presturinn segir eins og blóm beinist athygli Harðar að blómvendinum framan við púltið. Blómin eru liljur, stórar, hvítar og vemmilegar. Þær minna virkilega á dauðann, fölar eins og blóðlaust hold, drjúpandi af magnleysi og lyktin bæði sæt og kæfandi og minnir á rotnun.
   Herði verður hálfóglatt. Það er heitt í salnum - heitt og þröngt. Rödd prestsins smýgur inn í höfuð hans og lyktin af liljunum leggst eins og slímugt teppi yfir öndunarfærin. Hann heyrir suð og hárin rísa á hnakkanum. Í honum er einhver hrollur, kannski eftir rigninguna.
   Er hann að verða veikur eða ...?
   Hörður áttar sig ekki á því hvað er að gerast fyrr en hann sér skuggann, og þá er eins og einhver skvetti yfir hann köldu vatni. Hann hefur upplifað þetta allt saman oftsinnis áður en samt ná einkennin ennþá að læðast svona að honum. Við hliðina á prestinum, hægra megin frá Herði séð, myndast smám saman svört móða - láréttur dauðaskuggi sem svífur nokkra sentimetra yfir sviðinu og virðist stara fram í salinn.
   Hjartað í Herði kippist til, eins og dýr sem krumla reynir að hremma. Hann getur ekki andað, stífnar allur og gapir eins og fiskur á þurru landi. Það eina sem hann heyrir er suð eins og í vanstilltu útvarpi og það eina sem hann sér er bölvaður dauðaskugginn - fyrirboði um dauða.
   SVo er eins og eitthvað sleppi á honum takinu. Hann heyrir prestinn tala, hjartað slær og lungun fyllast af lofti - samtímis leysist skugginn upp og verður að engu. Hann hverfur inn í hina víddina, handanheiminn.
   Hörður stendur á fætur með slíkum látum að stóllinn veltur um koll. Hann lyftir höndunum hátt og hrópar yfir salinn: „Gættu þín, séra - gættu þín! Dauðinn er meðal vor!“
   Presturinn þagnar. Hrópið bergmálar um salinn, sem fyllist síðan af kliði og starandi augum.
   Hörður stendur eins og illa gerður hlutur og horfir í kringum sig á meðan langdregnar sekúndur líða, hver á eftir annarri. Engin hætta virðist vera á ferðum. Enginn reynir að drepa neinn og enginn dettur niður dauður. Hann lætur handleggina síga, ræskir sig og muldrar síðan afsökun á meðan hann reisir stólinn við og fær sér sæti. Einhverjir flissa, aðrir hvísla og fyrr en varir eru einhverjir byrjaðir að hlæja.
   Presturinn bankar í púltið. „Þögn, kæru börn - gæti ég fengið þögn?“
   Hörður felur andlitið í höndum sér. Hvað er í gangi? Sá hann ekki skuggann? Var enginn feigur?
   Eða kom hann í veg fyrir að eitthvað slæmt myndi gerast?

(s. 99-100)

 

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira