Höfundur Karen Dionne
Um bókina
Helena Pelletier á sér leyndarmál: Faðir hennar, Mýrarkóngurinn, situr í lífstíðarfangelsi fyrir morð, nauðgun og mannrán. Hann rændi móður hennar þegar hún var unglingur og hélt henni fanginni í fjórtán ár í kofa úti í óbyggðum. Þar fæddist Helena og ólst upp. Hún dáði og elskaði föður sinn þrátt fyrir hörku hans og ofbeldi – þar til hún komst að sannleikanum.
Tuttugu árum síðar hefur hún afneitað fortíð sinni svo rækilega að jafnvel eiginmaðurinn veit ekkert. En þegar faðirinn sleppur úr fangelsi og hverfur inn í óbyggðirnar, konungsríki sitt, getur enginn fundið hann nema dóttirin sem hann þjálfaði og kenndi allt sem hann kunni.
Úr Dóttir mýrarkóngsins
Áður en ég lét jafna hús afa og ömmu við jörðu gekk ég milli herbergja í leit að einhverju sem veitti mér skilning á pabba. Mig langaði til að vita hvernig maður breyttist úr barni í barnaníðing. Réttargögnin varpa ljósi á nokkur smáatriði. Holbrook afi minn heitinn var hreinn Ojibwa-indjáni sem var gefið nýtt nafn þegar hann var sendur að heiman á heimavistarskóla fyrir indjána. Ættmenn ömmu voru Finnar sem bruggu á norðvesturhluta eftir Michigan-skagans og unnu í koparnámunum. Afi og amma kynntust og giftu sig þegar þau voru hátt á fertugsaldri og pabbi fæddist fimm árum síðar. Vörnin dró upp mynd af afa og ömmu eins og þau hefðu verið of gömul og of ströng til að koma til móts við þarfir lítils ólátabelgs og refsuðu honum fyrir smávægilegustu yfirsjónir. Ég fann barsmíðaprik úr sedrusviði í eldiviðarskúrnum og handfangið var slitið af notkun þannig að ég veit að þetta er rétt. Í holrými undir lausri fjöl á skápbotninum í svefnherbergi pabba fann ég skókassa með handjárnum, ljósan hárflóka eins og hreiður sem ég gerði ráð fyrir að væri úr hárbursta móður hans, varalit og perlueyrnalokk hafði verið komið fyrir líkt og eggjum í hreiðrinu, auk hvítra bómullarnærbuxna sem ég gerði ráð fyrir að hún hefði líka átt. Ég get ímyndað mér hvaða mat sækjandi málsins hefði gert sér úr þessu.
Annars er ekki margt að finna í skjölunum. Foreldrar pabba ráku hann að heiman eftir að hann hætti í skóla í tíunda bekk. Hann vann við viðarhögg um tíma, síðan gekk hann í herinn en var rekinn þaðan með skömm að liðnu rúmu ári, því að honum kom ekki saman við hina hermennina og hann hlustaði ekki á yfirmenn sína. Vörnin sagði að ekkert af þessu væri pabba mínum að kenna. Hann væri gáfaður, ungur maður sem hagaði sér svona vegna þess að hann væri í leit að ást og viðurkenningu sem hann fékk aldrei hjá foreldrum sínum. Ég er ekki viss.
(30-31)