Þær eru ekki beint líkar, þessar tvær þýsku glæpasögur sem koma út nú fyrir jólin. Þó eiga þær ýmislegt sameiginlegt, báðar eru eftir konur og báðar gerast í litlum þorpssamfélögum. Og báðar búa þær yfir einhverskonar gotnesku andrúmslofti, með tilvísun til gotneskrar skáldskaparhefðar sem á rætur sínar að rekja til átjándu og nítjándu aldar. Í þeirri hefð er þröngt svið einmitt algengt, lítið lokað samfélag sem geymir fjölda leyndardóma, yfirleitt tengdum fjölskyldumálum; gotneska skáldsagan geymir bókstaflega beinagrindur í skápum.
Drifhvítur dauði (Skjaldborg, 2007) eftir Alexöndru Kui fellur mjög vel að hinu gotneska skáldskaparlíkani, en þrátt fyrir að vera orðin meira en tvöhundruð ára hefur gotneska skáldsagan haldið velli í hrollvekjum, draugasögum og glæpasögum allt fram til dagsins í dag. Drifhvítur dauði gerist í nútímanum, ung stúlka, Dora, neyðist til að gerast kennari á svæði skammt frá Hamborg sem nefnist Gamla landið. Hún kemst fljótlega að raun um að þar er ekki allt eins og það á að vera og þar sem hún er ákaflega forvitin þá reynir hún að grafast fyrir um hvað veldur kaldranalegu viðmóti bæjarbúa. Eftir því sem á líður magnast innilokunartilfinningin samhliða ofsóknum á hendur Doru og í ljós kemur að leyndardómurinn tengist drukknuðum brúðum og bandarísku sönglagi, “A Whiter Shade of Pale”, og svo að sjálfsögðu manninum sem Dora er orðin skotin í, en sagan er öðrum þræði ástarsaga.
Þessi blanda spennu- og ástarsögu með gotneskum undirtónum er vel kunnug, hér á landi eigum við fulltrúa þessarar skáldsagnahefðar í Birgittu Halldórsdóttur. Alexandra Kui fer vel með formið, sagan er spennandi og grípandi, kvenhetjan hæfilega óþolandi og karlhetjan hæfilega háskaleg.
Drápin (Bjartur, 2007) eftir Andreu Mariu Schenkel er byggð á raunverulegum óupplýstum morðum svo það má gera ráð fyrir að sú lausn sem birtist í lok skáldsögunnar sé hugarburður höfundarins, enda tæplega nægilega sannfærandi. Að öðru leyti er sagan áhrifarík en þar er teiknuð upp mynd af litlu þorpssamfélagi áratug eftir að síðari heimsstyrjöldinni lýkur. Samfélagið er enn í sárum, auk þess sem það hylmir yfir það sem fram fer á heimili Dannerfjölskyldunnar, en það er einmitt hún sem er myrt á hrottalegan hátt. Sagan er sögð í gegnum raddir þorpsbúa, aðstandenda og vitna og er þessi margradda frásögn vel heppnuð, stungin bænaköflum sem ná ágætlega að skapa það andrúmsloft innilokunar og einangrunar sem knýr frásögnina áfram.
Sagan er knöpp og fljótlesin, en nær þó að fanga lesandann inni í þessum heimi fátæktar og átaka, höfundur nýtir sér stríðið sem bakgrunn án þess þó að gera þátt þess of mikinn, og byggir þannig upp sannfærandi og eftirminnilegt sögusvið.
Báðar sögurnar eru ágætis afþreying og þýðendurnir Jórunn Sigurðardóttir og Ingunn Ásdísardóttir koma málsniðum og andrúmslofti vel til skila.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007