Beint í efni

Draugagangur á Skuggaskeri

Draugagangur á Skuggaskeri
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. Börnin hafa komist að því að málminn dýrmæta sem foreldrar þeirra fóru í stríð yfir er í raun að finna í jörðinni á Skuggaskeri og þau ætla að reyna að átta sig á því hvernig best sé að vinna hann án þess að valda of miklu raski. Fullorðna fólkið má alls ekki frétta af áformum þeirra því börnin telja að það endi bara með ósköpum.

Um svipað leyti og foreldrar barnanna sigla frá Skuggaskeri nálgast bátur sem fer með mikilli leynd. Innanborðs eru tveir óprúttnir glæpamenn (ásamt laumufarþega sem er dóttir annars þeirra). Þeir ætla líka að ná málminum úr jörðinni og ætla sér að verða ríkir á honum. Þegar þeir komast að því að þeir eru ekki einir á eyjunni ákveða þeir að sjá til þess að börnin verði ekki fyrir þeim. Skömmu síðar ætla foreldrar barnanna að snúa aftur til Skuggaskers með vistirnar en þá er eins og eitthvað ósýnilegt á hafinu stöðvi för þeirra. Eftir ítrekaðar tilraunir til að komast alla leið gefast þau upp. Börnin verða að bjarga sér sjálf og fljótlega fara þau að lenda í alls konar óvæntum og hættulegum atburðum. Og það er fleira en bara glæpamenn á sveimi á Skuggaskeri.

Skuggasker er, eins og nafnið gefur til kynna, fremur skuggalegur staður sem hefur ekki haft gott orð á sér í Fagradal. Náttúran þar er villt og ósnortin að mestu og ímyndunaraflið getur leikið lausum hala. Börnin upplifa margt sem virðist yfirnáttúrulegt og þau eiga erfitt með að skýra. Í sumum tilvikum skrifast dularfullir atburðir á glæpamennina tvo og ferðir þeirra um eyjuna en það á ekki alltaf við. Kornelíu ömmu er til dæmis vísað á löngu gleymda fjársjóði sem kalla fram minningar úr æsku hennar og þar er eitthvað raunverulega draugalegt í gangi. Sagan verður samt sem áður aldrei óhugnanleg heldur miklu fremur spennandi og grípandi. Umhverfið er mikilvægur hluti sögunnar þar sem börnin fara um skóginn, veiða sér til matar og reyna að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Þau lesa sér til og rannsaka hluti í umhverfinu og er þannig lögð áhersla á fróðleiksfýsn þeirra og áhuga fyrir því að láta gott af sér leiða, sem myndar mótvægi við græðgi glæpamannanna.

Af börnunum er það einna helst Karri sem sker sig úr hópnum vegna þess að bakgrunnur hans er annar en hinna barnanna og skoðanir hans eru ólíkar þeirra. Honum finnst til dæmis óþarfi að fá aðstoð frá foreldrunum því þau geti alveg bjargað sér sjálf. Hin ljóshærða og engilfríða Soffía sem kemur sem laumufarþegi með glæpamönnunum er einnig töluvert ólík hinum. Hún kann að bjarga sér við ýmsar aðstæður og er útsmogin og klár. Soffía er hins vegar alls enginn engill. Hún er síblótandi og óhefluð en þrátt fyrir það skynjar lesandinn að hún góð inn við beinið; hún hefur áhuga á hinum börnunum og vill þeim vel. Kornelía amma er einnig áberandi en hún er um margt óvenjulegur fullorðinn í barnabók. Hún hefur engan sérstakan áhuga á að passa krakkana enda hafa þau sýnt að þau geti vel séð um sig sjálf. Hún velur að búa ekki með þeim og er oft ein á ferð um skóginn, í djúpum þönkum. Börnin tortryggja hana enda er hún fullorðin en hún er ekki mikið að velta fyrir sér hvað þau taka sér fyrir hendur. Hún er upptekin við að rifja upp atburði úr sinni eigin æsku sem hafa hvílt á henni.

Þræðirnir í sögunni eru listalega vel fléttaðir, æskuminningar ömmu, laumufarþeginn í skútunni og rannsóknir krakkanna. Fróðleik er komið á framfæri í gegnum börnin þegar þau lesa og læra um náttúruna enda þurfa þau að fræðast um margt til að geta bjargað sér. Börnin á Skuggaskeri upplifa frelsi frá þeim slæmu hlutum sem fullorðnir hafa látið þau þola, stríði og ósætti. Þau læra að umgangast hvert annað og náttúruna af virðingu og umhyggju. Sagan er spennandi og skilaboðin eru sígild: verðum góð hvert við annað og við umhverfi okkar og sýnum tillitsemi!

María Bjarkadóttir, desember 2014