Beint í efni

Draumsýn - nýtt forlag með norrænar bókmenntir

Bókaforlagið Draumsýn hefur gefið út sína fyrstu bók, örsagnasafnið Lukkunnar pamfíll eftir norska rithöfundinn Ari Behn, í þýðingu Sigurðar Helgasonar. Stofnendur forlagsins eru Karitas K. Ólafsdóttir og Örn Þ. Þorvarðarson en Draumsýn mun leggja megináherslu á að kynna íslenskum lesendum góðar norrænar bókmenntir fyrir alla aldurshópa, ásamt völdum verkum frá öðrum málsvæðum. Meðal þeirra norrænu verka sem væntanleg eru frá forlaginu eru norsku skáldsögurnar Dagar i stillhetens historie eftir Merethe Lindstrøm, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár, Vidunderbarn eftir Roy Jacobsen og Så höyt var du elsket eftir Nikolaj Frobenius. Einnig eru væntanlegar frá Danmörku ein mest selda og verðlaunaðasta skáldsaga síðari ára þar í landi Vi de druknede eftir Carsten Jensen, en hún hefur verið þýdd við góðan orðstí á fjölda tungumála, ásamt Fordrivelsen eftir Astrid Saalbach og Se på mig eftir Kirsten Hammann. Loks má svo nefna að ein umtalaðasta skáldsaga færeyskra samtímabókmennta Glansbílætasamlararnir eftir skáldið Jóanes Nielsen, sem sló í gegn hjá gestum Alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík haustið 2009, kemur út innan tíðar. Af spennusögum má nefna sögu Gunnars Staalesen, Vi skal arve vinden, um norska rannsóknarlögreglumanninn VargVéum sem íslenskum sjónvarpsáhorfendum er kunnur, Ildmannen eftir Torkild Damhaug, sem í ár er tilnefnd fyrir hönd Norðmanna til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins, og Vinterstengt eftir Jørn Lier, en hún hlaut bóksalaverðlaunin í Noregi í fyrra. Barna- og unglingabækur verða fyrirferðarmiklar hjá forlaginu. Fer þar fremst í flokki hin norska Maria Parr, sem sópar til sín barnabókaverðlaunum um allan heim, með bækurnar Vaffelhjerte og Tonje Glimmerdal, en henni fylgja ævintýrasagnahöfundarnir Helle Ryding frá Danmörku með bók sína Serpina og Marie Moe Holsve með Halvgudene, svo nokkuð sé nefnt. Næsta útgáfa forlagsins verður ævisaga sænsku knattspyrnuhetjunnar Zlathans Ibrahimoviç Jag är Zlatan Ibrahimoviç skráð af sænska skáldsagnahöfundinum David Lagercrantz. Draumsýn verður svo í samstarfi við Norræna félagið og bókasafn Norræna hússins um komur höfunda til landsins og kynningar á bókum útgáfunnar. Íslenskir lesendur geta því farið að hlakka til að fá svo margar spennandi norrænar bækur í hendurnar á næstunni.