Beint í efni

Dröfn og Hörgult

Dröfn og Hörgult
Höfundur
Baldur Óskarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðið „Klúka“ hefst á þessum línum: „Stundin sem okkur var gefin / og nú ber að þakka“, á vel við þegar ég sest niður og skrifa umfjöllun um síðustu bækur Baldurs Óskarssonar. Eftir að hafa sinnt ljóðinu síðan árið 1966 (hann var aldrei alveg ánægður með prósaverkin sín) á hann svo sannarlega skilið þakkir, en allt frá því að ég kynntist ljóðum hans fyrir næstum tveimur áratugum hef ég upplifað með þeim – og í þeim – ófáar ánægjustundir. Baldur lést árið 2013, en hafði þá gengið frá handritum að tveimur ljóðabókum, einskonar ljóðabókapari, sem fengu nöfnin Dröfn og Hörgult og voru gefnar út í einu bindi. Nöfnin eru mjög í anda ljóða Baldurs, en honum var hafið hugleikið, ein af síðari bókum hans heitir Ekki láir við stein (2004) og þar birtist borgin við sundin í ýmsum myndum. Titillinn Hörgult vísar svo í annað áberandi þema í verkum Baldurs, en það er myndlistin (Baldur var um tíma skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík). Allt frá upphafi hafa ljóð hans kallast á við myndlist á ýmsan hátt, bæði hvað varðar áferð og liti og svo með textatengslum við myndverk og myndlistamenn.

Það voru litirnir sem hrifu mig fyrst við ljóð Baldurs, í samfloti við myndauðgina. Ég ætla ekki að halda því fram að ég skilji allar myndir Baldurs, stundum fer hann á slíkt flug í meðferð orða og myndhverfinga að ég tapa þræðinum – en það kemur þó aldrei í veg fyrir að ég njóti þeirra, á minn hátt, og upplifi stemningu og hughrif. „Klúka“ er ágætt dæmi um þetta, en seinna erindið hljómar svo:

þessa klúku –
það er farið að gefast úr henni
slæðingur eftir
gufa
gaumlausir áttum lanir bakvið tunglið

Ljóðinu fylgir einskonar ‚viðkvæði‘ eða tilvitnun eins og iðulega hjá Baldri: „hratt flýr stund“. Klúka mun vísa til lítillar hrúgu eða heysátu, auk þess að geta átt við það að sitja, hanga eða eiginlega híma – ég sé fyrir mig fugl sem hniprar sig saman í kulda, fremur aumlegur. Hér virðist það vera heysátan sem er til umráðu, sem myndlíking fyrir lífið og tímann, eins og tilvitnunin gefur til kynna. Það tætist úr sátunni, en eitthvað er eftir, kannski bara gufa. Og svo kemur síðasta línan og gefur þessu allt í einu alveg nýtt bragð: við erum komin bakvið tunglið, alveg óvænt leynast þar fleiri sátur.

Þetta er púsluspil, bæði orða og mynda (klúka, gaumlaus og lanir eru ekki beint orð sem notuð eru daglega), og tekur lesandann í ferð. Við byrjum hæglátlega, veltum fyrir okkur tímanum sem líður og þökkum fyrir hann. Heysátan er á hreyfingu – og endar svo skyndilega hinumegin við tunglið, himinhnettirnir grípa inn í og setja allt af stað.

Í öðru ljóði veltir skáldið fyrir sér orðum og myndum:

Móagötur

Mál og vog
hefur sína sál
efnisdul –
erfitt að taka við
nýjum orðum

Það er gamalt blóð okkar
segir skáldið
Og hvernig á að endurnýja það?

Látum hugann reika
rétta „kúrsinn“

Rennur á eftir hundur –
ekki vandratað

Gamalt blóð og ný orð sigla saman eftir rásum hugans. En hvað er hundurinn að gera þarna? Svona ljóð býður upp á endalausar vangaveltur, við erum minnt á að tungumálið er ekki einfalt fyrirbæri, það hefur sína eigin sál og efnisleika og að nýjum orðum fylgja nýjar hugmyndir sem ekki er endilega sjálfsagt að samþykkja. Hugurinn reikar – til dæmis um ljóðið. En hvað er hundurinn að gera þarna? Er hann að þefa uppi nýjungarnar eða elta gamla blóðið?

Í „Til hvers?“ veltir skáldið fyrir sér ljóðinu: „Til hvers er að yrkja“ og er í fyrstu ekki sérlega bjartsýnt, ljóðinu er líkt við afvelta meri. Hún reynist þó komin að því að kasta og þá fjölgar í stóðinu og allt fer af stað, „ríðum sem fjandinn!“ Niðurstaðan er því að þetta sé nú alveg ágætt bara, „Yndisleg afþreying / aðeins barnaglingur / Kringum þína sæld ég syng / svolítið ævintýr“. Sem fyrr hittir Baldur á réttu stemninguna og hleypir ljóðinu af stað.

Ljóðið er líka dæmi um náttúruljóð Baldurs, en honum er landið hugleikið og reglulega stinga sér niður ljóð sem lýsa bernskuminningum úr sveit. Einnig vísar hann til þjóðsagna og í þessum textum nýtur myndlistin sín vel. Dæmi um það er ljóðið „Drengur á leið frá Galtalæk innað Tungnaá“ sem er einskonar tröllasaga:

Dagur sýnir sig
þegar hann kemur

Nú er það nóttin
svarbrún
ívið græn

gráir taumar
og hálfsvartur himinn
jarðbundið
þétt
sporlatur klár

Við Tröllkonuhlaup
 má leysa pelann úr töskunni
fjallhestur smár, sumarstaðinn

Skeggávaldi
mun ætla þér blað á afrétti

Stemningin er myrk og litir næturinnar dulúðugir, ferðin er ekki hættulaus og hesturinn latur. Þó er sumarið þarna einhversstaðar, og nesti í töskunni. Myndin er þó fyrst og fremst mörkuð af litunum sem ferðast um himinhvolfið líkt og norðurljós.

Í ljóðinu „Giorgio de Chirico“, sem hefur undirtitilinn „Endurfundir“, lýsir ljóðskáldið listaverki eftir samnefndan málara (sem sjá má hér, ég held að málverkið sé örugglega númer tvö á þessari síðu):

Listamaðurinn
sveigir stálfjaðrir í myndina
Veit og veit ekki
hvað vera skal

Grímaldi Völundarson
gætir að öllu

Steinveggur byrgir sýn til hálfs:
eimreið spúandi – stöku segl
Harkaðu af þér
þetta er kveðjustundin

Þeir sem þekkja verk de Chirico kannast við veggina sem skjaga iðulega inn í myndirnar, eða eru í bakgrunni, næstum frístandandi. „Veit og veit ekki“ gæti vísað til súrrealismans, en listamaðurinn var einn af þeim sem veitti ungum súrrealistum innblástur (þó þeir höfnuðu honum síðar) og svo er það einmanaleikinn sem einkennir málverkin. Grímaldi Völundarson er líklegast listamaðurinn sjálfur – en nafnið gæti einnig vísað til þess að grímur birtast í mörgum myndum de Chirico, auk þess sem veggirnir minna á völundarhús. Fyrir þá sem ekki þekkja verkin gæti ljóðið verið torræðara, en þó er þarna áhrifamikil hugmynd um stálfjaðrir, lest á ferð og skip á siglingu. Allt gefur þetta til kynna kraft, sem er við það að leysast úr læðingi.

Ég er að hugsa um að enda þetta á öðru myndlistarljóði, sem nefnist „Fyrirmæli“ og er ágætis veganesti um ljóðalestur:

Marglitarákum
er slöngvað á hvítan flöt
og fleygt að baki

Stundin er hársbreidd

Ekki skal undan líta

Mitt á fletinum hvíta
um skyggnast skaltu

Hér fellir skáldið saman myndlist og ljóðlist, litum er kastað á hvítan flöt og sumum burt. Það er mikilvægt að rýna vel í flötinn og líta ekki undan – því ekki má missa af þessari hársbreiðu stund uppljómunarinnar.

Einmitt þannig eru ljóð Baldurs, þau bjóða upp á margræða fleti og stundum þarf að lesa í það sem sullast útfyrir, það er ekki endilega víst að öll myndin framkallist en ef skyggnst er nægilega vel um þá birtast marglitaleiftur.

úlfhildur dagsdóttir, júlí 2015