Beint í efni

Eðlileikinn, nærumhverfið og normið  

Eðlileikinn, nærumhverfið og normið  
Höfundur
Eva Rún Snorradóttir
Útgefandi
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Leikrit
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Eðlileikinn, nærumhverfið og normið  

Um höfundarverk Evu Rúnar Snorradóttur


Mamma, af hverju ertu með glimmer í andlitinu?

Heyrði ég sagt í svefnrofunum eftir draumlausa nótt. Glimmer? Hvar var ég aftur í gær. Já, alveg rétt. Ég hafði hitt Júlíu vinkonu mína í fyrsta skipti í langan tíma og boðið henni með mér á þáttökuleikritið Góða ferð inn í gömul sár eftir skáldið og leikhússmanneskjuna Evu Rún Snorradóttur. Nokkrum dögum áður höfðum við fengið leiðbeiningar sendar í tölvupósti: klæðist svörtum sparifötum og verið tilbúin með heyrnatól og full hlaðna síma stundvíslega klukkan 18:30, til að hlusta á fyrri hluta verksins sem er á hljóðformi. Ég dreif plokkfisk ofan í liðið heima við mismikinn fögnuð og brunaði af stað vestur í bæ. Við vinkonurnar féllumst í faðma: vináttutengingin hefur ekki rofnað þrátt fyrir að hafa búið í sitthvoru landinu á farsóttartímum og það var svo dásamlegt að hittast loks, knúsast og blaðra. Báðar klæddar í svarta kjóla og fullar eftirvæntingar, því þrátt fyrir að vera tvær cis konur, önnur vel pökkuð inn í normið með eiginmann og tvö börn, höfum við báðar sterkar tengingar við hinsegin heiminn, höfum lært mikið af honum, um okkur sjálfar og samfélagið, og hrifist af honum.

Klukkan 18:30 settum við heyrnatólin á okkur, komum okkur fyrir á tungusófa og lögðum við hlustir. Við hlustuðum á aðstandendur og hjúkrunarfræðing segja okkur sögur af HIV faraldrinum á Íslandi; systir sem segir frá bróður sínum sem smitast, veikist, eingangrast og tekst á við sjúkdóminn í felum. Hjúkrunarfræðingur sem starfaði á Landsspítalanum og tók á móti þeim sem veiktust, hjúkraði þeim en tengdist þeim einnig vináttuböndum. Eiginmaður sem hjúkraði manninum sínum í fimm ár á heimili þeirra í London. Fylgdist með honum tærast upp og deyja í fanginu á sér eftir langan tíma í felum og einangrun. Hér er vert að minnast á það að útgáfutími verksins skiptir miklu máli, því eftir farsóttartíma kóvidsins hefur almenningur miklu betri skilning, nú en fyrir nokkrum árum, á lífi með farsótt, hvað það er að lifa í einangrun, fara í sóttkví og þekkir hugtök á borð við smitótti og smitskömm. Parið í London tók til dæmis göngutúrana á kvöldin eða á nóttunni þegar enginn mætti þeim og þeir áttu ekki hættu á því að verða fyrir aðkasti og smitsmánun. Allir vinir þeirra dóu. Og hann sem eftir situr segist hafa reynt síðustu 25 ár að gleyma. Þá heyrum við einnig raddir ungra samkynhneigðra manna sem segja okkur frá senunni og aðstæðunum á þessum tíma og eftir að ég kvaddi þá langaði mig til að heyra meira. Nú velti ég fyrir mér hvort það eru til fleiri heimildir um þennan tíma. Ljósmyndir? Skjöl í Borgarskjalasafni? Hvernig var að vera ungur samkynhneigður maður í Reykjavík í eightís?

Fyrr um daginn hafði ég hitt nemendur í námskeiði um tráma við Háskóla Íslands og spjallað við þau um gagnminni (e. counter memory) sem líkja má við ákveðið hreyfiafl sem hreyfir við og stundum kollvarpar opinberu minni og hugmyndum um fortíð sem virka fastmótaðar og of ríkjandi á sameiginlega sviðinu. Opinbert minni endurspeglar oft upplifun valdhafa af fortíð eða hóps sem er ríkjandi eða drottnandi í samfélaginu. Ein af greinunum sem nemendur áttu að lesa fyrir tímann og við ræddum svo um, er eftir Michel Foucault, manninn sem skapaði einmitt hugtakið contre-mémoire eins og svo mörg önnur hugtök sem unnið er með í hugvísindum í dag og hefur verið gert síðustu fimmtíu ár. Miðjan í skrifum Foucault er líkaminn og greiningar hans á því hvernig valdbeiting samfélags fer fram í líkamanum hefur haft gríðarleg áhrif á fræðiskrif. Áhersla Foucault á líkamann á fræðasviðinu tengist ef til vill því að hann var sjálfur samkynhneigður og skrifaði til dæmis rit sem ber titilinn Saga kynhneigðarinnar. Hann var mikilsvirtur í Frakklandi og kenndi þar við Collége de France en dvaldi einnig í Bandaríkjunum, í San Francisco þar sem hann kenndi við virta háskóla eins og Suny og Berkeley. Hann og maki hans tóku einnig mjög virkan þátt í BDSM senunni þar í borg. Af hverju þessi langa runa um Foucault? Því hann er einmitt einn af þeim samkynhneigðu mönnum sem létust úr HIV á tímum faraldursins og hélt veikindunum leyndum alveg fram í rauðan dauðann. Það segir dálítið mikið, þykir mér, að eins sterk rödd og hans, sem þar að auki var opinberlega samkynhneigður og skrifaði langar fræðilegar ritgerðir um kynhneigðir, hafi ekki séð sér fært að nefna sjúkdóminn sem dróg hann í gröfina, upphátt opinberlega. Lengi vel var þagað um dánarorsök hans og það er engin tilviljun að hér koma saman kenningar um minni og tráma, þöggun, gleymska og HIV. 

Verkið Góða ferð inn í gömul sár er gríðarlega þarft innlegg í hinsegin minnisfræði á Íslandi. Almenn minnisfræði (e. cultural memory studies) verða til upp úr trámafræðum þar sem Helförin er miðlægur atburður og til verður minnissprenging í vestrænum heimi eftir Síðari heimsstyrjöld. Það lýsir sér til dæmis í þeim fjöldamörgu minnisvörðum sem finna má vítt og breitt í Evrópu og vestanhafs, til dæmis um óbreytta hermanninn, en einnig í minnisskrifum; helfararfrásögnum og æviskrifum, sem og í skáldskap, kvikmyndum og heimildamyndagerð sem takast á við atburðina. HIV faraldurinn er annar miðlægur atburður í trámafræðum en fræðimaðurinn Roger Luckhurst skrifar um hvernig alnæmis-dagbókin (e. aids diary) hefur gríðarlega mikil áhrif á trámatísk æviskrif almennt; þar sem fram fer skrásetning á veikindum og því að standa andspænis dauðanum, að eiga von á honum og þurfa um leið að lifa á jaðrinum, í felum, verða fyrir aðkasti og skammast sín fyrir tilveru sína. Hér talar Luckhurst um queer melancholy eða hinsegin melankólíu og skrifar hvernig alnæmis-dagbókin breytti hugmyndinni um trámatísk æviskrif og um leið trámafræðum eins og þau leggja sig.

Og nú í þáttökuverkinu Góða ferð inn í gömul sár er þetta tímabil í íslenskri sögu rifjað upp. Þegar við komum í Borgarleikhúsið tók á móti okkur fiðlutónlist, leikin af Mars Proppé, freyðivín og okkur boðið að setja upp einkennismerki alnæmissamtakana, rauða borðann. Eva Rún ávarpaði gesti og bauð þá velkomna. Þá hélt aðstandandi, kona sem hafði misst bróður sinn úr alnæmi, tölu; sagði frá bróður sínum sem hafði smitast aðeins ári eftir að hann kom út úr skápnum þá 16 ára og látist aðeins 22 ára að aldri.

Rétt eins og hljóðverkið sem við hlustuðum á heima í stofunni hennar Júlíu var ræða systurinnar áhrifamikil og vakti miklar tilfinningar. Ég vil kannski ekki líkja því beint við hreinsun, kaþarsis, sem á auðvitað vel við um leikhúsupplifun, en mér leið eins og að hafa farið á djúpstætt trúnó sem hafði hreyft við einhverju innra með mér, komið kvikunni af stað, skapað harm en um leið frelsun og létti.

Og þá tók fögnuðurinn við. Dragdrottningar í fullum skrúða kölluðu á áhorfendur inn í sal. Við fengum glimmer í andlitið, regnbogablómsveiga um hálsinn, hatta og jakka í björtum skærum litum, og gengum svo í gegnum regnbogagöng inn í svartan sal þar sem var partý, tónlist og drykkir. Fólk gat dansað eða flætt um rýmið en svo voru tekin nokkur hlé og áhorfendur færðir til nútímans með frásögnum af hinseginleika dagsins í dag. Mars Proppé sem leikið hafði svo fallega á fiðluna sagði okkur frá því að vera kvár, fæðast sem stelpa, vilja verða strákur, en uppgötva svo að kynverundin og sjálfsmyndin er þarna á mörkunum. Embla Guðrúnar-Ágústdóttir rúllaði inn glæsilega klædd með tignarlegt gimsteinahálsmen og minnti á Josephine Baker í hjólastól. Hún sagði okkur frá líkama sínum, frá spekingunum sem mæla hana út, en einnig frá holdlegri þrá og að upplifa það að vera þráð. Hápunkturinn var trúlega gender reveal partý transmannsins Gabríels sem er óléttur, kominn 35 vikur á leið og veltir fyrir sér kyni barnsins sem hann ber undir belti. Tilbúinn með hálfgerða piñata sem reyndist vera full af regnbogakonfetti. Fögnuðurinn lauk svo með hópsöng á einkennislagi Gleðigöngunnar; Ég er eins og ég er...

Á þessum tímapunkti vorum við vinkonurnar dálítið búnar á því, héldum heim á leið með viðkomu í pulsu og kók á næstu bensínstöð. Fórum yfir kvöldið og héldum áfram að blaðra. Hversu dásamlegt kvöld. Af hverju eru ekki öll leikrit þáttökuleikrit? Og taka mann í ferðalag um gömul sár með þeim hætti að maður gleymir fullkomlega stað og stund og stendur berstrípaður með sögupersónum, söguhetjunum sem deila svo örlátlega af reynslu sinni, gefa okkur innsýn inní reynsluheim þeirra og sjónarhorn. Við vorum sammála um að tilfinningin væri eins og eftir gott djamm; þreyta, tómleiki en líka gleði og upplifun sem stundum þarf að melta næstu daga og vikur.

Þáttökuleikrit sem tekst á við hinsegin minni og endar á fagnaðarstund er mjög rökrétt skref í höfundarverki Evu Rúnar Snorradóttur en í útgefnum verkum hennar sem telja þrjár ljóðabækur Heimsendir fylgir þér alla ævi (2013), Tappi á himninum (2016), Fræ sem frjóvga myrkrið (2018) og einn sagnasveig Óskilamunir (2021) er eðlileikinn nánast alltaf miðlægt viðfangsefni. Og þrátt fyrir að ég nefni hér þessi verk sem „ljóðabækur“ og „sagnasveig“ eru þau hvert og eitt verk sem best væri að staðsetja á mörkum ólíkra bókmenntaforma. Heimsendir er ef til vill hefðbundnasta ljóðabókin með styttri ljóðum sem mynda eina heild og segja frá barnæsku ljóðmælanda í neðra Breiðholti. Þegar ég las Tappi á himninum fannst mér ég vera að lesa stutta skáldsögu, kannski nóvellu sem skiptist í stutta kafla og segir frá unglingsárum sem einnig eiga sér stað í neðra Breiðholti. Fræ sem Frjóvga myrkrið er tvískipt verk og hefst á ljóðabálki sem minnir á samtöl í leikhúsi eða leihúsverki. Seinni hlutinn birtir ýmist ljóð í formi örsagna eða ljóðaleg ljóð en Óskilamunir er safn smásagna en samt eiginlega bara eitt heildstætt verk, skáldsaga sem skiptist í stutta kafla, stundum örsögur og stundum mjög ljóðaleg ljóð. Í viðtali við Guðrúnu Steinþórsdóttur á skald.is segist skáldið kunna vel við sig á „óskilgreinda svæðinu“ og líka við hugtakið innsæisbókmenntir sem hún segir að séu „drifnar áfram af innsæi sem leyfir sér að fara út fyrir, á milli, upp úr og fram úr.“ En fyrst og fremst vill hún að lesandinn skilgreini verkið og form þess. Ljóð og sögur Evu eru yfirleitt stutt og knöpp, stíllinn blátt áfram og hreinskilinn, ekki einlægur endilega en ekkert skrúð þó að höfundur leiki sér vissulega að táknum og myndlíkingum þegar það á við.

Eva Rún er sviðslistakona, útskrifuð af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands og hefur um árabil verið meðlimur í tveimur sviðslistahópum; annarsvegar 16 elskendum og hinsvegar Kviss Búmm Bang. Fyrri hópurinn samanstendur af leikurum, sviðsmyndahönnuði, dansara, tónskáldi, leikstjóra og gerir óhefðbundið leikhús. Nýjasta verk hópsins, Leitin að tilgangi lífsins, fór til dæmis fram á gömlu læknavaktinni á Smáratorgi haustið 2019. Kviss Búmm Bang telur aftur á móti þrjár konur sem allar eru útskrifaðar úr Fræði og framkvæmd náminu við Listaháskóla Íslands, og vinnur leikrit og leikhúsverk sem nálgast það að vera þáttöku og gjörningalist sem þekkist úr myndlistarheiminum. Upphafverk hópsins ber titilinn The Norm Olympics sem leggur dálítið línurnar fyrir viðfangsefni hópsins og segir okkur á hvaða sviði hann vinnur. Annað dæmi um verk hópsins er þáttökuleikritið Djöfulgangur frá árinu 2014 þar sem þáttakendur keyptu sig inná sex tíma óvissuferð um Reykjanesið. Á heimsíðu hópsins segjast þær vera flokkur þriggja kvenna sem framleiða framandverk, þar sem eru engir leikarar, engir áhorfendur, bara þáttakendur sem ganga inn í tilbúinn heim, en sú lýsing nær vel utan um verkið sem ég tók þátt í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi.

Blokkin og sjoppan, stelpan og konan

Úlfhildur Dagsdóttir skilgreinir ljóðin í fyrstu ljóðabók Evu Rúnar, Heimsendir fylgir þér alla ævi, og útgefin er af Bjarti árið 2013, sem úthverfaljóð eða blokkarljóð. Blokkarljóðin eru römmuð inn með mynd af kunnulegri blokk framan á bókarkápu sem gefur verkinu ákveðinn ramma. Hér er hverdagsleikinn undir og ljóðmælandi rifjar upp æskuna í úthverfi Reykjavíkur á níunda áratug síðustu aldar. Hún býr í blokk og fjallar um íbúana sem þar búa en nágrannasjoppan er einnig mikilvægt sögusvið. Þá er henni kynhlutverk sitt hugleikið, það að vera stelpa og vera á mörkum stelpuleika og kvenleika eins og ljóðið „Kona leikur eina krónu“ tjáir vel:

Það er bjart yfir krakkahópnum.
Eitthvað bærist þó innra með átta ára stúlku
með stórt sjafnarbindi í nærbuxunum

Hún hafði orðið logandi hrædd fyrr um daginn,
þegar hún stökk upp að pissa
og sá að það blæddi úr pissudúllunni.

Hún mátti ekki vera að því að skilja
allt sem kom í kjölfarið.
Var í eina krónu og hafði ekki tíma til að verða kona.

Þessi þráður er svo tekinn upp að nýju í næstu ljóðabók á eftir, Tappi á himninum, sem kom út hjá Bjarti árið 2016 og fjallar einnig um æskuár í Neðra Breiðholti. Hér eru það unglingsárin sem eru í forgrunni en frásögnin spannar nokkuð stutt línulegt tímabil í lífi ljóðmælanda eða sögumanns öllu heldur því þrátt fyrir að vera kynnt sem ljóðabók í kynningatexta aftan á verkinu, minnir það frekar á stutta skáldsögu, nóvellu með stuttum köflum, unglingabók því hún fjallar um veruleik unglinga og reynsluheim ungrar stúlku sem er mögulega lesbísk en ekki búin að gangast við því ennþá. Hér heyrum við af unglingaheiminum í hverfinu, lífinu í blokkunum, af unglingahangsi við sjoppuna, vinkonum og vinum, klíkunum og gengjunum. Internetið verður til og ljóðmælandi lýsir hræðslu unglingsstúlkna við mátunarklefa og að fara með móður sinni í Kringluna. Við heyrum af opnun Kringlunnar,  hvolpaástum og saklausu fyllerí þar sem vinkonurnar deila kippu sem eldri bróðir kaupir í ríkinu. Vinirnir fara reglulega í andaglas en draugarnir eru eitthvað tregir við að láta sjá sig eða í sér heyra. Aftur á móti kemur þar fram andi konunnar í næsta húsi sem ræðir hversdagslega þjáningu sína og þær kröfur sem fylgir því að vera móðir ungra barna og eiga óþolandi eiginmann. Hversdagslegur og kómískur útúrsnúningur á dramatík andaglassins fellur vel að höfundareinkennum skáldsins sem yrkir fyrst og fremst um hversdagslegar athafnir og augnablik, greinir þau, flettir ofan af þeim eða sýnir í húmorísku ljósi.  

Eðlileikinn

Tappi á himninum segir einnig frá saklausum dagdraumum ungrar lesbískrar unglingstelpu sem óttast það að aðrir uppgötvi leyndarmálið og ákveður því að pakka öllum RUSSELL peysunum sínum niður í kjallara. Hún segist fela sig á bakvið skjöld prúðu stúlkunnar, bestu uppöldu stúlkunnar í Breiðholtinu svo að enginn uppgötvi neitt óvenjulegt í fari hennar. Þetta skapar ákveðinn feluleik sem verður að viðvarandi ástandi. Engu að síður tekur kynverundin að vakna og söguhetjan sem er mjög náin vinkonum sínum segir: „konan í mér er líklega frábrugðin konunum í vinkonum mínum en það furðulegasta er að ég get ekki rætt það við þær“ (40) Hún speglar sig að einhverju leyti í pabba einnar stúlkunnar í vinkonuhópnum, sem stundar rannsóknir á kvenleikanum, en síðar í verkinu kemur í ljós að hann er í miðju kynleiðréttingarferli. Pabbinn heldur innblásna ræðu við útskrift krakkana úr grunnskóla, sem söguhetjan tekur til sín:

Fyrir fullum sal talaði hann um kerfi sem brjóta niður alla sköpun og fara óvarlega með það hnoss sem hver manneskja er. Talaði um nýja möguleika sem kvikna úr dauðanum. Það er sköpunarmáttur í eyðileggingunni. Eyðileggið! Kveðjið ykkur og finnið ykkur aftur. Þið deyið þegar þið gangið hér út! Það var klappað fyrir honum eins og rokkstjörnu. (59)

Ræða pabbans verður mögulega til þess að við sögulok kveður söguhetjan prúðu stelpuna, skilur hana eftir í garði við eyðilegt hús í Hvassaleitinu, á einum af rúntunum sem vinkonurnar halda í þegar þær hafa fengið bílpróf. Hér hugsaði ég til þess hvað það hefði verið hressandi fyrir sjálfa mig að lesa ljóðbók Evu Rúnar þegar ég var unglingur og þráði að lesa eitthvað hugvíkkandi sem gæfi nýja sýn á mitt eigið nærumhverfi og normið, sem verður oft og tíðum svo hamlandi og yfirþyrmandi á þessum árum; þegar man grunar að það búi svo margt spennandi og mögulegt í henni veröld en man veit bara ekki enn af því. Og ég var ekki lesbískur unglingur heldur gagnkynhneigð unglingstelpa komin með upp í kok af stöðluðum hugmyndum um kynin; að þar sem að ég væri stelpa ætti ég að haga mér á ákveðinn hátt t.d. að flissa, hringsóla augunum og láta yfir mig ganga allskonar vitleysu og kjánalæti í strákunum sem voru með mér í bekk. Að því leyti tel ég að Tappi á himninum eigi ekki bara erindi við mína kynslóð heldur við unglinga og ungt fólk í dag sem eru leitandi og þrá að kíkja undir yfirborðið.

Pabbinn sem gengst undir kynleiðréttingu er ekki eina transmanneskjan sem Eva Rún skrifar um, en í Fræ sem frjóvga myrkrið sem kom út hjá bókaútgáfunni Benedikt árið 2018, fjallar ljóðið „píkan á þorrablótinu“ um konu sem býr í smábæ og hefur gengist undir kynleiðréttingu. Hún finnur fyrir fordómum, pískri og umtali samferðafólks síns og annarra íbúa bæjarins og lýsir þeim nærgöngulegu spurningum sem íbúar bæjarins þykjast hafa rétt á að spyrja hana, og snúa að kynfærum hennar og kynlífi.  Á þorrablótinu ákveður hún því að ávarpa samkomuna, svala forvitni íbúana, svara spurningum þeirra og girða niðrum sig:

Það leið yfir tvær konur þegar þær sáu minn loðna þríhyrning. Tilfinningin sem kom yfir mig þarna á sviðinu með nærbuxurnar niðri, píkuna starandi framan í allt bæjarfélagið, var ólýsanleg. Ég fann áþreifanlega fyrir þriðja auganu í píkunni, titraði af mætti og sælu. Stækkaði, varð stærri en allar mótbárur og afmarkanir sem hafa alltaf skert líf mitt, en eru nú fáfengilegt áreiti, líkt og tölur af gamalli yfirhöfn, geymdar í glerkrukku sem hringlar í þegar þú gengur fram hjá. (60)

Ein af hinsegin persónunum sem við fáum að kynnast í seinni hluta þáttökuleikverksins Góða ferð inn í gömul sár er Skaði Þórðardóttir, tónlistarkona sem er trans og treður upp og performar lag fyrir áhorfendur. Mér fannst eitthvað sérlega heillandi við Skaða, hugrekkið og ‚fokk it attitjúdið‘, og var hugsað til hennar daginn eftir sýninguna þar sem ég stóð og vaskaði upp og lét hugann reika um allt það sem sýningin hafði skilið eftir í huganum. Hver er mynd transfólks í íslenskum bókmenntum? Má finna frásagnir og ljóð um transfólk í öðrum bókum en bókum Evu Rúnar? Er einhver að skrifa doktorsverkefni um transfólk í íslenskum bókmenntum? Eða bara grein, mastersverkefni? Er það ekki löngu tímabært? Þessi eyða í bókmenntarannsóknum bendir til þess að þær séu enn of heterónormatívar en eins og Eva Rún bendir sjálf á, í fyrrnefndu viðtali, má einmitt beita bókmenntunum til þess að víkka sjóndeildarhring lesenda og gefa innsýn í reynsluheim annarra:

Bókmenntir eru leið til að gefa innsýn í veröld, hugarheim, hið persónulega annars aðila sem er að mínu mati alltaf pólitískt, við gleymum því bara þegar það er miðaldra gagnkynhneigður kall því það er miðjan [...] Ég fagna því þegar fólk nýtir bókmenntir til að fjalla um sinn veruleika, sitt prívatlíf, sinn reynsluheim. Ég les bókmenntir að hluta til til þess að stækka mína veröld, les þá bæði bækur frá öðrum heimsálfum en líka bara sjálfsævisögu útrásarvíkings, og vona að þeir lesi hinseginbókmenntir líka.

Það er öllum hollt að skoða eigið nærumhverfi og rýna í normið og eðlileikann sem skáldið lýsir á eftirfarandi hátt í viðtalinu:„Ég er mjög upptekin af miðjunni sem við sköpum í okkar lífi, og hvað það er gegndarlaust mikilvægt að við séum meðvituð um það að miðjan okkar (hvað okkur finnst eðlilegt, gott og flott) eru mótaðar af reynslu okkar og aðstæðum en ekki sannleikur allra.“

Í Óskilamunum poppar miðjan ítrekað upp kollinum. Verkið segir frá konu sem á í ástarsambandi við aðra konu en í upphafi sögunnar hefur hún gengist undir frjósemisaðgerð og er að reyna að eignast barn. Í kjölfarið rifjar söguhetjan upp æsku sína og á köflum eltingarleik við eðlileikann sem kemur til dæmis skýrt fram í frásögn af interrailferðalagi sem hún heldur í eftir stúdentspróf og lýsir sem hátíðlegum ramma eða innvígslu inní heim fullorðinna:

Þessi innvígsla reyndist hjómið eitt. Ferðalög á staði sem okkur hafði lengi dreymt um en urðu svo frekar dauf, föl ævintýri, eins og ævintýri einhvers annars, þessi stöðuga tilfinning um að þetta væri ekki það sem við vildum gera, ekki okkar forsendur en engin verkfæri til að nálgast þessar forsendur. Okkar. Og stöðugur ótti, efi um að þær væru yfirhöfuð til. Þetta væri það sem maður verði að láta sér lynda. Það sem öðrum þykir áhugavert. (48)

Frásögnin um innihaldsrýra interrailferðlagið minnir á hugmyndina um bucket-listann; þar sem fólk fylgir ákveðnum lista þegar það skipuleggur ferðalög, ferðast til að sjá áfangastaði, sem dæmdir hafa verið athyglisverðir af óskilgreindu almenningsáliti, og strika þá svo út á listanum. Effelturninn og Machu Picchu? Það er á bucket listanum mínum. Þegar söguhetjan viðrar sinn persónulega bucket-lista við kærustuna sína, í einhverjum óskilgreindum paraleik, verður kærasta hennar reið og líkir hugmyndinni við arðrán í anda heimsveldisstefnu og gegndarlausa þrá eftir yfirráðum: „Já, fyrir mér er þetta hluti af ófyrirgefanlegri arfleifð okkar hvíta fólksins. Fyrirlitlegt og hættulegt atriði í menningu hvítu millistéttarinnar. Við æðum um alla veröld með Bucket-listana okkar. Sópum fólki frá heimilum sínum, svona farðu nú frá, þessi landskiki er á Bucket-listanum mínum“ (63). Þetta á sér stað snemma í sambandinu en reiði kærustunnar og fyrirlesturinn sem fylgir fer illa í söguhetjuna. Þegar hún lítur yfir farinn veg sér hún rifrildið sem upphafið á endalokunum, að þarna hafi hún uppgötvað hverskonar manneskju hún hafði að geyma. Hvað sem því líður má lesandinn alveg taka til sín gagnrýnina um bucket-ferðamennskuna, því það er margt til í því sem kærastan bendir á hvað varðar yfirráð eins hóps á kostnað annarra hópa. 

Frásögnin af fyrstu kynlífsreynslunni í Óskilamunum er í senn marglaga, flókin og erfið saga. Söguhetjan elst uppí litlum bæ og sem unglingur og ung manneskja upplifir hún sig dálítið utanveltu eða á jaðrinum. Hún eignast vin í eldri gagnkynhneigðum manni að nafni Hilmar, sem nýlega hefur misst eiginkonu sína. Einmanaleikinn tengir þau saman og þau sitja stundum saman og hlusta á plötur. Eitt skiptið spilar söguhetjan smáskífu með uppáhalds hljómsveitinni sinni Tussa tussa og trúir Hilmari fyrir því að hún er ástfangin af trommuleikara bandsins. Við það byrjar Hilmar að varpa sínum gagnkynhneigðu og karlægu órum á ungu lesbíuna og gerist óvirkur þátttkandi í fyrstu kynlífsreynslu hennar þegar hann hvetur hana til að senda trommuleikaranum ástarbréf sem hann virðist semja fyrir hana: „Hann skrifaði svo fyrir mig, eftir mér, en í raun kom textinn mest frá honum. Ég átti að vera hjúkrunarfræðinemi, ástfangin af henni, en til í kynlíf án skuldbindinga. Nafnið sem ég hlaut var nafnið á konunni hans og svarbréfið barst heim til hans“ (45). Þær ákveða að hittast og eiga hálfgerðan misheppnaðan ástarfund sem Hilmar vill fá að heyra af í smáatriðum. Það er margt við þessa sögu sem væri hægt að skoða og greina nánar, ekki síst hvernig karlæga sjónahornið tekur yfir hinsegin reynsluna og gerir ungu lesbíuna að leiksoppi sínum. En um leið má einnig velta fyrir sér af hverju söguhetjan gengst við þessum leik, eins og til að máta sig við gagnkynhneigða viðmiðið og karlægt sjónarhorn Hilmars.

Það kemur reyndar ítrekað fyrir að hinsegin söguhetjan máti sig við gagnkynhneigð viðmið sem birtist ekki síst í dínamíkinni á milli hennar og vinkonuhópsins, en í flestum verkum Evu Rúnar er sagt frá vinkonum aðalsöguhetjunnar, sem þar að auki hafa oft mikið vægi í frásögninni. Vinkonuhópurinn minnir oft og tíðum á grískan harmleikjakór sem samræmist vel leikhúsbakgrunni skáldsins. Í grísku leikjunum er hlutverk kórsins að leggja mat á atburðarásina sem ein sameiginleg rödd og endurspegla andlitslausan fjölda eða almenningsálit. Í verkum Evu Rúnar er vinkonuhópurinn ýmist grátkór eða bergmálshellir, en stundum ákveðin andstæðumynd sem söguhetja mátar sig við til að uppgötva eða ítreka að hún er á skjön. Vinkonurnar deila ýmsu og eru nánar en aðalsöguhetjan sem er hinsegin hefur annað sjónarhorn og annan reynsluheim sem hinar hafa ekki aðgang að eða innsýn inn í.

Í Fræ sem frjóvga myrkrið fær vinkonuhópurinn allmikið pláss, en fyrri hluti verksins sem ber titilinn „Far til að sýna öllum heima“, minnir á leikrit og er skrifað sem samtal á milli ólíkra sögupersóna sem eru einkenndar með A, B og C. Í upphafi kemur fram að raddirnar eru „Fullorðnar konur í partíi sem er löngu liðið“ (9) en þær rifja upp sólarlandaferð sem þær fóru í saman sem ungar konur, sannkallaða djammferð sem einkennst hefur af fylleríi og markaleysi sem á tíðum jaðrar við að vera kynferðisáreitni eða ofbeldi: „Stelpur á hlýrabolum, hrúgur af dansandi líkömum, ókunnugt fólk í sleik, vanlýstar myndir af drykkjudauðu fólki, kakkalakkar á hótelherbergjum“ (11). Það er óþægilegt að lesa lýsingarnar af ferðinni, stundum óbærilegt, því það kveikir á óþægilegum minningum tengdum tíðarandanum sem þær lýsa; djammferðir ungs fólks um aldamótin síðustu þar sem unga fólkið eru ekki unglingar lengur en heldur ekki alveg fullorðið, getur lagalega gert það sem það vill en hefur ekki alveg þroska til þess ennþá, áttar sig ekki á afleiðingunum sem partýstand og markaleysi getur haft á sálarlífið (ég er ekki viss um að orð eins og „markaleysi“ hafi heyrst mikið um aldamótin 2000). Þegar vinkonurnar rifja ferðina upp löngu seinna gefur fjarlægðin þeim dálítið annað sjónarhorn sem er allt í senn óþægilegt og ankannalegt ein líka banalt, kunnuglegt og hægt að afskrifa sem „barn síns tíma.“

Minningar, Tráma og sársuki

Umræðan um óþægilegar minningar tengist einnig áberandi þræði í verkum Evu Rúnar um minni, trámu og sársauka. Söguhetjan í Tappi á himninum lýsir því til dæmis þegar eldri bróðir hennar týnist yfir nótt og á meðan fer líf fjölskyldunnar á hliðina. Foreldrarnir eru lamaðir af hræðslu og söguhetjan upplifir mikinn ótta. Þegar bróðirinn skilar sér svo aftur, er eins og ekkert hafi gerst og allir halda lífiinu áfram. En söguhetjan lifir áfram með sársukann innra með sér, óttann og óöryggið, því eins og fram kemur í Óskilamunum stækkar hið ósagða í huganum: „Það sem ekki er orðað, það vex, sækir í sig veðrið, þrengir að“ (48). Hún áttar sig á því hvernig það ósagða myndar eins og haf innra með hverju og einu:

Mannssálin er úthaf. Við sjáum bara öldurnar sem nema við strönd, það sem er falið er svo gríðarlegt flæmi að orð okkar ná ekki yfir það. Okkar innra haf er að mestu leyti ókannað svæði, marandi á botni þess sokknar upplifanir. Á hafsbotni hverrar manneskju er því mýgrútur af eldfjöllum. Við minnsta áreiti brýst fram stríður öldugangur á heiðskírum degi; gígarnir gjósa yfir alla nærstadda sem í sakleysi sínu eru bara að reyna að fóta sig í tilverunni. Helsta ógn hverrar manneskju er þessi ómstríða innri víðáttu sem hún mun aldrei ná að kynnast til fulls. (36-7, skáletrun í frumtexta)

Sársukinn fylgir söguhetjunni inn á fullorðinsár og í Óskilamunum gerir hún tilraun til að staðsetja hann eins og til að nálgast rót vandans svo hún geti unnið bug á honum. Hún ákveður að heimsækja æskuheimili sitt sem endurspeglar þá hugmynd að óhlutbundnar minningar geti skotið rótum í rými og það að koma inn á ákveðinn stað hjálpi til við að rifja upp löngu liðinn tíma. Heimsóknin á æskuheimilið er undir lok sögunnar en framarlega í frásögninni lýsir hún því hvernig þær, hún og kærastan, festa kaup á íbúð sem reynist „illa með farið dánarbú“ og geyma melankólíu sem endurspeglast í óþrifnaði, vanrækslu og vodkaflöskum sem fyrrverandi eigandi hefur falið á bak við vegg í risinu: „Hér hafði eitthvað lasið grasserað. Þetta var eins og gröftur í sárum“ (25). Heimsóknin á æskuheimilið er liður í sjálfsleit eða það sem hún kallar innri vettvangsferð: „Ég hef undanfarið verið að rannsaka sjálfa mig, skoða hvaðan þessi skjálfti innra með mér sem fylgir mér hvert sem ég fer kemur.“ Að heimsækja æskuheimilið er því eins og að „heimsækja hugsanleg upptök skjálftans“ (141). Hún ber vissar væntingar til heimsóknarinnar, eins og að þar muni öll kurl koma til grafar: „Ég gekk út frá því að þessi ferð yrði á sama tíma ferð á kunnuglegan stað, stað sem á djúpsævinu verður alltaf heimili mitt, en einnig leiðangur inn í óhreyfð síki; beint inní minningar, drauma, vonir sem hafa brugðist, óra, martraðir. Ég myndi finna þarna hluta af sjálfri mér út um allt eins og drasl eftir langt partý, og líkt og í tiltekt taka þá saman“ (142). Og heimsóknin virðist þjóna tilgangi sínum og veita söguhetjunni þá heilun sem hún sækist eftir: „Það hafði orðið röskun. Tærleiki staðar sem aldrei hafði verið vitjað var mengaður. [...] Mögulega í þessu tilfelli yrði mengunin góð og uppbyggjandi. Eins og þegar sagt er móttekið í talstöð. Glerbrotum sópað saman í ljósbláa fægiskóflu.“ Skáldið lokar svo bókinni á þessum orðum: „Allt mengast með tímanum hvort eð er“ (144).

Hinsegin melankólíu er víða að finna í höfundarverki Evu Rúnar Snorradóttur en einnig fögnuð og kímni, sem og sjónarhorn á hversdagsleikann og nærumhverfið, normið, sem er allt í senn greinandi, kómískt, afhjúpandi. Það er hressandi að lesa sig í gegnum öll verk hennar í einum samfelldum lestri og sjá að hér er ekki aðeins kærkomin og mikilvæg hinsegin rödd í íslensku bókmenntalífi, heldur einnig dásamlegt skáld og höfundur, sannkallaður ferskur andblær í íslenskum bókmenntum.
 

Vera Knútsdóttir, mars 2023