Úr Blóðbergi:
Jorge var kalt. Kalt á fótunum, kalt á höndunum, kalt á höfðinu og í andlitinu. Honum var kalt á öxlum og kálfum, lærum, bringu og rassi. Ekki á tám og fingrum, hann var löngu hættur að finna fyrir þeim, en allstaðar annarstaðar, meiraðsegja í maganum og á pungnum. Það hafði hann aldrei upplifað fyrren á fyrstu vaktinni hér í helvíti fyrir tveimur mánuðum síðan. Því þetta var helvíti, á því lék ekki minnsti vafi.
Frá blautu barnsbeini hafði honum reyndar verið innrætt sú trú að það væri heitt í helvíti. Presturinn, kennarinn, foreldrar hans, systkini og félagar kunnu ófáar sögurnar um það sem beið þeirra í neðra sem ekki fetuðu þrönga og þyrnum stráða drottins vegi og dyggðarinnar hérnamegin. Hann kunni margar slíkar sjálfur ef útí það var farið. Ólýsanlegar kvalir hins fordæmda í óslökkvandi skaðræðiseldum helvítis gengu einsog rauður þráður í gegnum þær allar, þótt þær bæru ímyndunarafli samviskubitinna kynslóðanna að öðru leyti fagurt vitni.
Það hafði ekki verið erfitt að trúa þessum sögum undir brennandi hádegissólinni heima í Terena. Þeir höfðu meiraðsegja gert tilraun félagarnir, hann og Joaquim, legið flatir á sundskýlum einum fata á klettanibbu undir suðurvegg kastalans frá tíu að morgni frameftir heiðskírum, skraufþurrum og sjóðheitum ágústdegi, vatnslausir. Móðir hans hótaði hýðingu þegar hann loksins dröslaðist heim en hafði ekki brjóst í sér til að standa við það þegar hún sá gapandi, svíðandi fleiðrin um allan líkamann. Við vorum að prófa helvíti, náði hann víst að stynja upp áður en hann leið útaf. Þá var hann sjö ára. En nú stóð hann hér, þrjátíu árum síðar, og vissi betur. Það var kalt í helvíti. Nístingskalt. Og dimmt, alltaf dimmt, eða í besta falli grátt.
________________________________________________
Slysið á Kárahnjúkum var aðalfréttin á forsíðu beggja blaðanna en í þeim var ekkert umfram það sem þegar hafði komið fram í útvarps- og sjónvarpsfréttum kvöldið áður. Stefán las þær engu að síður báðar af eins mikilli athygli og ullarsokkurinn sem einhver virtist hafa dregið yfir höfuð hans leyfði.
“Eitthvað nýtt af slysinu?” spurði Ragnhildur.
“Nei,” umlaði Stefán. “Ekkert nýtt. Tildrög slyssins óljós ogsvoframvegis.”
“Þetta er ekkert sem lendir hjá ykkur, er það?” Stefán hætti loks að hræra og saup á dísætu kaffinu.
“Það held ég varla. Vinnueftirlitið fer í þetta og svo okkar menn fyrir austan auðvitað. Þeir eru sjálfsagt mættir þarna uppeftir allir saman.” Hann saup aftur á kaffinu. “Kannski tæknideildin, en varla við. Ekki ef þetta er slys.” Ragnhildur lyfti brúnum.
“Hvað meinarðu, ef þetta er slys?” Stefán hristi hausinn og sá eftir því.
“Ekkert. Það er bara...”
“Bara hvað?”
“Æ, ég veit það ekki. Ég er bara eitthvað að bulla.” Ragnhildur horfði lengi á hann áður en hún bar fram næstu spurningu.
“Meira kaffi?”
“Já takk,” sagði Stefán, kláraði úr fantinum og rétti henni. “Ekki veitir af.”
“Ég helli uppá,” sagði Ragnhildur.
“Fínt. Minntu mig á að halda mig við rauðvínið næst.”
“Svona einsog ég gerði þegar þú þáðir viskíið í gærkvöldi, meinarðu?”
“Já. Svona umþaðbil þannig.” Ragnhildur brosti. “Ég geri það. Parkódín?” Stefán ætlaði að hrista hausinn aftur en sá að sér.
“Nei takk. Þetta líður hjá.”