Æviágrip
Eyvindur P. Eiríksson fæddist 13. desember 1935 í Hnífsdal, N-Ísafirði. Hann er ættaður úr Árneshreppi en ólst upp til 8 ára aldurs á Hornströndum, síðan á Ísafirði og í nágrenni. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1955 tók við B.A. nám í dönsku og ensku við Háskóla Íslands sem hann lauk 1964. Hann settist aftur á skólabekk rúmum tíu árum síðar og lauk Cand. mag. prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla 1977. Eyvindur hefur í gegnum tíðina fengist við kennslu á flestum skólastigum, hefur kennt við Gagnfræðakólann á Ísafirði, Ármúlaskóla, Menntaskólann í Kópavogi, Tækniskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Hann kenndi almenna hljóðfræði og dönsku sumarlangt á kennaranámskeiðum á vegum Menntamálaráðuneytisins 1971 og gegndi lektorsstöðu við Háskólann í Helsingfors í Finnlandi veturinn 1979 - 1980. Að þeim vetri loknum tók hann við lektorsstöðu í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla sem hann gegndi um nokkura ára skeið með aðsetur í Árnasafni. Hann hefur einnig kennt erlendum stúdentum íslensku á sumarnámskeiðum á vegum Norræna hússins. Jafnframt hefur hann starfað við leiðsögu, þýðingar og textalestur og verið á togara svo fátt eitt sé nefnt.
Auk ritstarfa og kennslu hefur Eyvindur unnið að dagskrárgerð bæði í útvarpi og sjónvarpi, hafði umsjón með þættinum Daglegt mál á árunum 1978-1979 og tók þátt í gerð fyrstu tveggja íslenskuþátta sjónvarpsins árið 1979, en starfaði sem fréttaritari Ríkisútvarpsins í Finnlandi veturinn sem hann kenndi við Háskólann í Helsingfors. Árið 1964 var Eyvindur fulltrúi Æskulýðsráðs á ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins í Strassbourg og átti sæti í íslenskri málanefnd í nokkur ár sem fulltrúi Rithöfundasambands Íslands. Hann hefur tekið þátt í ýmsum bókmenntauppákomum erlendis, meðal annars unnið með öðrum listamönnum í Québec og Genúu. Hann er einn af goðum heiðinna manna.
Eftir Eyvind liggja ljóð, skáldsögur, þýðingar og greinar í fagtímaritum. Fyrsta ljóðabók hans, Hvenær?, kom út 1974 og fyrsta skáldsagan, Múkkinn, 1988. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsögu sína Landið handan fjarskans árið 1997 og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Lauslegt um viðhorf mín til lífs og ljóðs og annarra bókmennta
Höfundurinn, þessi ég, er fæddur og alinn upp í mikilli náttúru Hornstranda og Djúps, vandist við sjó og sjósókn sem barn og ungur maður. Slíkt hefur sett mark sitt á mig og viðhorf mín. Ég veit ekki hvort ég er „náttúruunnandi“ á þann hátt sem nú er í tísku. Hitt veit ég, að ég er hluti náttúrunnar. Mér vekur ógeð það viðhorf kristinnar trúar að setja manninn herra yfir náttúrunni, sem hann skuli gera sér undirgefna. Slík trúarbrögð eru enda bæði frumstæð og augljóslega úrelt í nútímasamfélagi. „Barátta gegn náttúruöflunum“ er í raun skelfilegt orðalag og sá kristni hugsunarháttur, sem þar býr að baki, lífshættulegur manninum og öllu lífi til lengdar, með þá miklu tækni, sem við höfum nú til umráða. Við þurfum, hvað sem hver segir, aðra grunnhugsun, helst þá gömlu góðu, svo við lærum að nota þessa tækni eingöngu í fullri sátt við umhverfi okkar og náttúru og þar með um leið við okkur sjálf, því við erum sjálf þessi náttúra. Stríð gegn náttúrunni er því stríð við okkur sjálf, eyðing náttúrunnar er eyðing okkar sjálfra. Þetta þarf enga sérstaka speki til að sjá, aðeins opin augu fyrir hættunni við varasamar forsendur varasamra lífsviðhorfa. Við eigum ekki að óttast náttúruna, en við hljótum að virða hana, og okkur sjálf og allt líf. Þetta er mitt lífsviðhorf, og það kemur fram í því, sem ég skrifa.
Ég er ekki í stuði til að sveifla mér með tískunni né bera mig á borð eins og hverja aðra auglýsta pissu-pitsu. Sá höfundur, sem það gerir, glutrar bæði sjálfsvirðingu og frumleika. Margir slíkir halda svo sem, að þeir séu sérstaklega frumlegir, víst af því að þeir séu svo flinkir að ganga í troðin spor. Vitanlega geta næmir höfundar beint hingað nýjum bylgjum utan af heimshafinu, þarf reyndar færa höfunda til svo frumlegt verði. Fræðingunum blessuðum hættir hins vegar til að vilja troða öllu í kassa eftir „straumum og stefnum“, sem þeir finna bara upp, hafi höfundar ekki gert það sjálfir. Í fínutaugafötuna þeirra fara síðan þeir, sem ekki passa í ferkantaðar skúffurnar. Ég reyni að skoða land og líf ofan frá, fá sem mesta yfirsýn, er ekki enn nógu sjálfhverfur til að semja seríur um sjálfan mig að alast upp í Vesturbænum eða Vogunum, eða á Ströndum, þar sem ég ólst reyndar upp, ellegar um Lalla frænda, sem var geðveikur eða fór til Ameríku. Sumir segja af hámenntuðum útlendingum, sem fylgja draumi sínum yfir höf að skoða fiskþefjandi frumbyggja í ullarflóka og torfhraukum á grjóthólma norðan við öll stríð menningarþjóðanna, komast að því sér til gleði, að þessir kurfar eru þrátt fyrir allt manneskjur og hafa jafnvel uppi tilburði menntamanna.
Já og já. Ég kann ekki að skrifa um stórmenni og pótentáta, né kynhreinar íslenskar hetjur að vinna sér frægð og frama á slóðum enn lægra metinna frumbyggja. Nei, ég skrifa t.d. um venjulegan alþýðudreng, sem hrökklast hingað, ekki héðan, undan styrjöld og villimennsku, leitandi að friði og ró í eigin sál, finnur hvorki villimenn né hetjur af konungakyni, aðeins venjulegt fólk eins og hann er sjálfur, í sama basli og sömu leit. Ágætur fræðingur hjá forlaginu, sem ég sýndi þetta handrit, hann vildi fá meira af gestsauganu í söguna. Minn maður gengur inn í þetta samfélag, tekur fólkinu þar sem sínu fólki, reynir að læra á daglegt mál og daglegt líf og þegar það tekst ekki nógu vel, gefst hann annað hvort upp eða hann heldur áfram að leita þess, sem hann veit ekki hvað er né hvar. Hann hefur ekki efni á að hafa gestsauga. Hafi hann uppi rembing gestsaugans fína, verður hann ekki annað en utanveltu útlendingur, með nöldur og gagnrýni og ætti bara að hunskast aftur heim til sín, fyrst allt sé svona asnalegt hér.
Ég hef líklega orðið fyrir einna sterkustum áhrifum frá natúralistum fyrr og síðar. Einn mesti uppáhaldshöfundur minn er I. P. Jacobsen, danskur höfundur á 19. öld, óvenjulega fær og næmur og dó auðvitað úr berklum. Nú og realistarnir yfirleitt, ekki síst Tolstoj, realisti með meiru. Oscar Wilde er líka minn maður, sama hvar menn fræðileikans vilja hola honum í skúffu.Fornbókmenntirnar, náttúrlega, og þá ekki síst málfræðiritgerðir þeirra kappa, fremst allra auðvitað sú „fyrsta“, frá um 1140. Margar sögur af spámönnum, galdramönnum og köppum í fornaldar- og þjóðsagnasafni Gyðinga eru áhugaverðar og gætu verið býsna góðar, ef höfundar þeirra væru ekki svona andlega bæklaðir af þessum skelfilegu trúarbrögðum, eða stíllinn þvílíkt stagl.
Hvað er það sem mótar mann og hvað mótar ekki mann? Drap ég mann eða drap ég ekki mann? Allt mótar. Fyrsta bókin sem ég las sjálfur var Karlinn í Hringaríki og kerlingarnar þrjár. Það er norsk saga og áhrifin á fimm ára snáða því vafalítið vond. Sú næsta var Dýr Tarsans eftir þann engilsaxneskfasíska imperíalista E. R. Burroughs. Ég bý að henni þann dag í dag. Vissulega kemst ég samt ekki hjá að hrífast af höfundum eins og Svövu Jakobs og Vigdísi Gríms, þeim snjöllustu, enda eru þeir lærðu í hálfgerðum vandræðum með þær, svoleiðis höfundar hafa tilhneigingu til að gera sögu og texta flókið mál og margrætt, ætti eiginlega að banna mönnum að skrifa bókmenntir, sem við í bókmenntakerfisstofnuninni skiljum bara ekki og höfum engan tíma til að setja okkur inn í, verðum þó að þykjast þeir einu sem skilja. Eða hvað? Bjarni Bjarnason og Ragna Sigurðardóttir eru býsna klúrin og lúðarnir hans Hallgríms Helga standa furðu brattir, þótt þeim standi kannski ekki allt of vel innan um lesbíur og lýð. Reyndar merkilegt að Hallgrímur skuli vera orðinn svona viðurkenndur, bráðungur maðurinn á fimmtugsaldri. En það er hugsanlega frekar fyrir kjaftinn á sér. Einhver tenging? Tær einlægni og orðsnilld Þórbergs, Jóhannesar, Jakobínu, Jóns Óskars og Péturs Pálssonar, stílpæling Steinars Sigurjónssonar, og þau eru fleiri, lystilegur málgrautur Megasar, rappþulur sona minna og sumra annarra í þeim bransa. Hallgrímur og Atli Heimir kunna hins vegar illa að rappa. Þetta mótar og mótar fram á grafarbakkann. Þó fyrst og fremst allir sögumennirnir, af báðum kynjum, með endalausar sögur sínar, sagðar alls staðar þar sem kátar kellingar og hressir kallar koma saman og spjalla á því lifandi máli, sem verður ekki komið á bók og fræðingarnir sýnast hafa gleymt að sé til eða það sé horfið, straujað út í allsherjar flatneskju „húmorsins“ og póstmódernismans, leifa sé þó víst að finna í einhverjum bókum.
Já, sorry! Póstmódernisma kann ég ekki og hef ekki fengið nein vitræn svör, hafi ég spurt, a.m.k. ekki skilið bofs. Og hvað á svo að skíra næstu skúffu? Fyrir mér er hann lítið annað en bastarður á flótta, líkt og fáránlegt nafnið sjálft. Lítum örsnöggvast á uppþembda tískublöðru eins og frelsisflóttamanninn Kundera, sem „fullorðnir“ þegnar keisarans meðfram götunni keppast við að hrósa fyrir skartsaumuð klæði og fagran limaburð. Þeim er vorkunn. Þeir sjá í raun og veru ekki berrassinn. Og þeir, þær, þau eru sko ekkert að þykjast. Nei, fáum þá heldur svolitla sæmilega rómantík, segjum natúralíska, evrópska, síður amríska tilfinningaslepjugrautinn.
Mín skynjun er heild. Í heildinni er samræmi. Í lifandi samræmi býr einnig misræmi og rökleysa, annars væri það dautt og ekkert samræmi. Þar sem lifandi samræmi riðlast, þar er slæmt. Ef við erum heilbrigðar manneskjur, og ekki síst listamenn, meinum við eitthvað með tilveru okkar annað en meiri aura og betri fjárfestingu. Það er sjálfkvæmt. Og við hljótum að taka afstöðu. Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér, en þar með hlýtur hann jafnframt að bera ábyrgð á heildinni. Á einhvern hátt tekur hann afstöðu til eigin tilveru, sinna nánustu og nánasta umhverfis og til heildarinnar. M.a.s. dauður er hann hluti af heildinni, þó svo hann ráði því lítt sjálfur hvert ruslið úr honum fer. Og heimsheildin hefur það ekki vel gott í dag. Hér er heildin, samfélagið, í uppnámi einnig, þó á annan hátt sé. Byggðir raskast, byggðafólk hrekst að heiman, ekki flytja allir fúsir til Reykjavíkur, þó Reykjavík sé í sjálfu sér prýðileg. Allt þetta kemur öllum við og ekki síst listamönnum, skáldum og rithöfundum. En þeir hafa límt aftur annað augað, kíkinum stinga þeir í rassboruna á sér, smásjárauga listamannsins, sem finnur til í stormum sinna tíða, eru þeir löngu búnir að selja fyrir skildinga, sumir fáa. Við skáld og rithöfundar höfum nú lengi beinlínis forðast að taka fyrir í verkum nokkuð það sem varðar samfélagið. Not to be or to be not, virðist vera eina valið, sem við höfum. Eða hvað?
Sumir segja að þetta sé hræðsla. Kannski það. Við séum samfélag skíthræddra einstaklinga í stöðugu kapphlaupi að tryggja sér sjálfum stöðu í þessari heild, á kostnað annarra einstaklinga, en um leið gröfum við undan þeirri heild, sem þó er við sjálf. Orð mín snúa auðvitað ekki að því, að hver maður setjist niður og skrifi eitthvað pólitískt vegna þess að nú eigi að skrifa svo. Það væri jafnvitlaust og hitt. En með því að forðast slík átök í svo ærandi þögn erum við að forðast veruleikann, lífið sjálft. Það gerir alla sköpun okkar lítils virði. Auðvitað eru ungir listamenn uppteknir við að komast inn á markaðinn, auglýsa sig, yrkja Bónusljóð. Þeir gömlu róttæku, þeir eru þreyttir, hafa það gott, þetta er orðinn þeim besti heimur allra heima. Þarf nýjan Voltaire, skrifa nýjan Candide? Eða er kannski bara kominn tími til að menn lesi aftur skrif þeirra Þórbergs og Halldórs, ekki síst Bréf til Láru og Alþýðubókina? Nú virðist enginn okkar rithöfunda hafa burði, ellegar kjark, til að skrifa neitt þvílíkt. En sagan endurtekur sig, segja menn, að vísu yfirleitt í breyttri mynd. Látum þá þetta koma. Látum þetta bara koma.
Eyvindur P. Eiríksson, mars 2001.
Um höfund
Maður og náttúra: Um skáldverk Eyvindar P. Eiríkssonar
I
Fyrsta útgefna rit Eyvindar P. Eiríkssonar er ljóðabókin Hvenær? sem kom út árið 1974. Bókin geymir veglegt safn ljóða sem ort eru á yngri árum höfundar og ber kröftugur boðskapur ljóðanna þess glögg merki. Eyvindi er mikið niðri fyrir og bæði gagnrýnir og gerir óspart grín að því umhverfi og veruleika sem vestræn heimssýn einkennist af og þeim doða sem honum finnst að slíkur veruleiki fangi þegna sína í. Hann deilir á kapítalíska heimsmynd og afrakstur hennar sem hann sér m.a. í bandarískri sjoppumenningu, Víetnamstríðinu, Keflavíkurflugvelli, Hallgrímskirkju og peningagráðugum lux-þvegnum þverslaufungum. Ljóðin eru laus við óþarft prjál og felst styrkur þeirra í sterkum boðskap sem blandaður er svörtum og blóðíronískum húmor. Þótt andi sósíalískra hugsjóna svífi yfir mörgum ljóðanna, þá kafna þau ekki í einhliða áróðri því sterkustu gagnrýninni er ekki beint gegn ráðandi lífsvenjum sem slíkum, heldur fremur gegn manninum sjálfum sem skapaði þessa kapítalísku neysluveröld og er því ábyrgur fyrir afleiðingum hennar.
Í ljóðinu „Stakreynd“ setur höfundur fram myrka framtíðarsýn sem allt eins gæti orðið að staðreynd vitkist maðurinn ekki og beini sjónum í auknum mæli að sönnum verðmætum lífsins.
Nú er það komið í ljós,
sem okkur frændur hefur lengi grunað:
Það er engin framtíð í manninum.
Hann er óþroskaður, ófullkominn og heimskur,
og borin von, að hann batni.Náttúrunni er löngu ljóst,
að maðurinn er algjörlega misheppnað pródúkt,
því miður.En sem betur fer
hefur hún verið svo forsjál
að búa manninn
sjálfseyðileggingarþörf.Síðan er bara að bíða,
okkur liggur ekkert á.
Maðurinn verður innan stundar
búinn að eyða sjálfum sér
og jörðina.
Maðurinn er á rangri braut, týndur í veröld sem hann skapaði sjálfur, fjarri náttúrunni og þeim rótum sem hún hefur að geyma. Andstætt firrtum nútímaheimi standa gildi nálægðar, virðingar, tryggðar, gæsku og tillitssemi. Þessum gildum hefur maðurinn misst sjónar á, ekki bara í samskiptum hans í milli, heldur líka í samskiptum hans við önnur dýr og ekki síst náttúruna. Hann fótum treður allt sem á vegi hans verður og æðir óðamála áfram án þess að hafa nokkuð til málanna að leggja. Eyvindi finnst maðurinn fara illa með það vit sem honum var gefið og sólunda í merkingarsnauða síbylju. „Orðið“ tjáir þessa hugsun höfundar einkar vel:
Hið talaða orð
barst manninum
og maðurinn varð glaður við
held ég
og hann byrjaði að tala
og hann talaði
hann talaði
talaði
talaði og talaði og talaði
talaði
og hann hélt áfram að tala
tala og tala
talaSagð ann nokkuð?
Þótt mörg ljóða Eyvindar fjalli um glópsku mannsins og myrka framtíðarsýn, þá leynist lúmskur húmor undir niðri og á hann auðvelt með að koma auga á spaugilegar hliðar þessarar viðþolslausu leitar mannsins að normunum sem hann miðar hamingju sína við. Í Hvenær? glittir einnig í sterk tök Eyvindar á tungumálinu, hann er óhræddur við að prófa virkni þess, leikur sér að orðum, gerir skemmtilegar hljóðritunartilraunir auk þess sem hann sækir í sjóð rúnatákna.
Í næstu ljóðabók sinni, Hvaðan – Þaðan, sem kom út árið 1978 heldur Eyvindur áfram á kunnulegum slóðum. Nú er penninn hins vegar þyngri og þroskaðri, gildin skýrari, myndmál hnitmiðaðra og leikni með ólík form ljóðsins meiri. Bókin skiptist í þrjá hluta; Heiman, heim og heima, sem hver um sig stendur fyrir ákveðin þemu sem eru Eyvindi hugleikin og koma endurtekið fyrir í síðari skáldverkum hans. Í fyrsta hluta heldur hann áfram að gera tilbúnu gerviumhverfi mannsins skil. Honum finnst samfélagið einsleitt og saknar þeirra sem hafa þor og vilja til að berjast gegn ráðandi tískustraumum. Í ljóðinu „1.1.6.“ kallar hann kynslóð sína brjóstumkennanlega og fyrirverður sig fyrir heiminn sem hún færir í hendur barna sinna:
Þú kynslóð mín brjóstumkennanlegÓskaðu þér eilífs dauða og glötunar
biddu á hverju kvöldi þess
að mega rotna í friði í moldinni
án minnstu vonar um uppreisn og annað lífBiddu þess
því sonarsynir okkar bölva okkur
og dótturdætur okkar formæla okkurSumum fyrir óhóf
öðrum fyrir fátækt
hinum fyrir hugleysiHeillum horfna kynslóð
biddu þess að mega fúna í friði
því barnabörnin okkar fyrirgefa okkur ekki.
Í fyrsta kaflanum er einnig meinfyndinn bálkur um skaðsemi Morgunblaðsins sem höfundur finnur flest til foráttu. Eyvindur kemur hér fram sem harður andstæðingur kapítalískra viðhorfa sem honum finnst deyfa hugsunarmátt mannsins og færa allt sem á vegi þeirra verður í sama ófrjóa farið. Í öðrum kafla er tónninn allt annar og mýkri. Hér tekur höfundur manninn úr samfélagslegu samhengi og spyr sig tilvistarlegra spurninga um eðli hans, hvernig hugsun hans virkar og hvaða hluti hugsunar hans getur mögulega borið frjóan ávöxt. Sum ljóðanna búa yfir skýrum náttúrumyndum sem ljóðmælandi grefur upp úr minningum bernskunnar. Dæmi um slíkt ljóð er „2.2.1.“:
Þú sem fórst norður í sumar!
Standa enn þá veggirnir?
Er enn blágresið í gilinu?
Eða verpir krían enn á sjóargrundinni?
Er skemmurústin að fullu horfin í sinu og hvönn?Hitt skiptir þó meiru:
Skín ekki sama sólin og í bernsku minni?
Er ekki tjörnin enn þá slétt og góð litlum bátum?
Stafar ekki ávallt lognölduna á víkinni?
Og fjaran vinur sem fyrr?Ég
á ekki afturkvæmt.
Það ber meira á náttúruvænum bernskublikum í síðasta kafla bókarinnar en þar tjáir höfundur ákveðna eftirsjá til liðinna tíma. Þessi eftirsjá einkennist ekki af einfaldri tvískiptingu spillts nútíma eða altumfaðmandi sveitasælu fortíðarinnar, heldur harmar höfundur að fólk nú til dags hafi misst sjónar á ákveðnum manngildum sem honum finnst hafa orðið utanveltu í nútíma samfélagi.
Í ljóðabókunum Viltu (1989) og Vertu (1998) hamrar Eyvindur enn á þýðingu vináttu, ástar, fjölskyldutengsla og virðingar í þessum tæknitryllta heimi. Hann sækir í auknu mæli til arfs þjóðsagna og fornkvæða og áhrif Hávamála og Völuspár leyna sér ekki. Eyvindur leikur sér að fjölmörgum formum ljóðsins og blæs nýjum og ferskum anda í forna bragarhætti. Hann yrkir ádeiluljóð sem aldrei fyrr þar sem gagnrýni hans á kerfið kemur berlega í ljós og sú skoðun hans að rætur hins tæknivædda skógar séu líklegri til að trosna heldur en rætur sem búið hafa í sambýli við raunverulega náttúru. Eyvindur minnir okkur á að við erum enn sömu mennirnir og við höfum alltaf verið, þrátt fyrir ótal tilraunir okkur til að gera meira úr eigin gáfum, og að sanna hamingju sé enn hægt að leita í hinu einfalda og hráa.
Í nýjustu ljóðabók Eyvindar, Óreiðum augum: heiðin ljóð (2001), stillir hann náttúrunni og andanum sem í henni ríkir upp gegn hnignun nútímans og firrtum viðmiðum hans. Hann málar náttúruna sterkum litum og gerir mikið úr þeim stórkostlegu andstæðum og krafti sem hann sér búa í iðrum hennar. Náttúran er hættulega falleg og hana ber að umgangast af virðingu og ákveðinni undirgefni. Hann deilir á nútímaegóið sem á sífellt erfiðara með að höndla sanna ró og fegurð þess sem náttúran hefur upp á að bjóða sökum allra tækjanna sem það notar til að komast í návígi við hana. Nútímamaðurinn skilgreinir sjálfan sig í andstöðu við náttúruna og beitir öllum brögðum til að brjóta hana undir sig. Við erum því komin langt frá uppruna okkar, týnd í endalausum heimi gervitákna sem villa okkur sýn fyrir hinu hreina og sanna. Maðurinn byggir lífssýn sína í auknu mæli á brotum sem aldrei munu ná neinni heilstæðri mynd í stað þess að huga að heilbrigði hringrás lífsins og sætta sig við þann stað sem honum er ætlaður innan hennar.
Óreiðum augum fylgir geisladiskur með upplestri Eyvindar á ljóðunum undir kynngimagnaðri tónlist Hilmars Arnars Hilmarssonar. Þessi samvinna þeirra tekst vel upp og tónar tónlistin vel við þá sköpun, rof og loks jafnvægi sem Eyvindur myndar með ljóðum bókarinnar. Ljóðagerð Eyvindar er fjölbreytt í sniðum og þótt hann hafi vel ígrundaðan boðskap fram að færa, fellur hann samt aldrei í gryfju þeirra sem allt þykjast vita. Hann kann nefnilega þá list að taka sjálfan sig ekki allt of alvarlega og fyrir vikið gætir ákveðinnar hlýju og nálægðar í ljóðum hans sem lesandinn á auðvelt með að gangast við. Þessi nálægð endurspeglast vel í barna- og unglingabókum Eyvindar og ekki síst í hinum stórskemmtilegu párbókum sem eru uppfullar af áhugaverðum tilraunum með samspil teikninga og ólíkra textaforma.
II
Verk Eyvindar P. Eiríkssonar eru aðgengileg og laus við óþarft skraut sem skaðað gæti nálægð lesenda við þann heim sem höfundur býður þeim upp á. Hann er óhræddur við að teygja á textaforminu og notar oft teikningar sem annað hvort stinga í stúf við umhverfi sitt eða veita viðtakendum lykil að ákveðnum skilningi á því sem hann hefur til umræðu hverju sinni. P-Árbækurnar tvær (1988 og 1996) eru skemmtileg dæmi um óhefðbundin verk en þær eru báðar handboraðar af höfundi sjálfum. Fyrri er einsgatsbók en seinni tveggjagatabók og veitir Eyvindur ágætis leiðbeiningar um hvernig sé best að hengja þær upp. Með þessu leggur höfundur áherslu á að bækur séu til að virða fyrir sér, skoða, handfjatla og lesa en ekki rykfalla í læstum bókaskáp eins og hvert annað stofustáss. Innihald P-Árbókanna endurspeglar ytra form vel því þær eru uppfullar af stuttum textabrotum og spaugilegum teikningum sem tekur stutta stund að blaða í gegnum og virða fyrir sér. Eyvindur afbakar gömul ævintýri, kastar fram tækifærisvísum með beinum skírskotunum í samtímann, speglar manninn í ýmsum formum, klæmist, gerist heimspekilegur, segir lífsglefsur sem eru ýmist fyndnar, fáránlegar, sorglegar, ljóðrænar eða leiðinlegar. Hann gerir grín að uppstríluðum skáldskap og bókmenntaelítunni sem hrærist í honum og sem andsvar við slíkum kreddum, gerir hann lesandann að virkum þátttakanda í verkinu með því að skilja eftir autt pláss fyrir hann að hripa í.
Eyvindur á auðvelt með að skoða hversdagslega hluti út frá spennandi og skemmtilegum sjónarhornum og nýtist þessi eiginleiki hans vel í barna- og unglingabókunum Á háskaslóð (1993) og Meðan skútan skríður (1995). Bækurnar fjalla um sérlundaðan kennara og tvo syni hans sem eyða sumarfríinu á seglskútu á Eyrarsundi. Eyvindur gerir fjölskyldubönd og umhverfisvitund að umtalsefni í bókunum en tekst samt að hylja hollan boðskapinn með spennandi atburðarás, töluverðum ærslagangi og hjartahlýrri þroskasögu feðganna í samskiptum þeirra við fallvalta menn og óútreiknanleg náttúruöfl. Eyvindur talar ekki niður til lesendahóps síns og veitir honum engar auðveldar lausnir með skiptingu persóna sinna í annað hvort heilög góðmenni eða rakin illmenni. Þeir sem reyndust skúrkar í Á háskaslóð fá uppreisn æru í Meðan skútan skríður og eins reynist sýnilegt góðmenni búa yfir dekkri persónueinkennum en feðgarnir héldu í fyrstu.
Strákarnir lenda í ýmsum ævintýrum með pabba sínum á skútunni og heldur Eyvindur lesendum sínum við efnið með lifandi lýsingum þótt alvarlegur boðskapur liggi undir niðri eins og eftirfarandi dæmi úr Á háskaslóð ber með sér:
Þarna flaut heilmikið af dauðum fiski með magann upp í loft, það voru líka dauðir fuglar í þessu. Við gleymdum okkur svo að okkur hafði nærri rekið inn í þetta ógeð. Við tókum til áranna, en þá sáum við hreyfingu á lágum steinum utar. Það voru selir, þrír, nei fjórir. Tveir þeirra hreyfðu sig en virtust ansi slappir, tveir lágu alveg kyrrir, líklega dauðir. Við þóttumst sjá einn selskrokk enn hreyfast fram og aftur í þörungasúpunni við klappirnar. (68)
Með slíkum lýsingum á afleiðingum nútíma lifnaðarhátta, höfðar Eyvindur til réttlætiskenndar lesenda sinna en bendir þeim einnig á að úrræða sé ekki að vænta í bráð. Ýmis öfl hafa ólíkra hagsmuna að gæta og þegar horft er til umhverfismála er skjótfenginn gróði oft látinn ráða á kostnað náttúruverndar. Þótt boðskapur bókanna dragi tvímælalaust taum náttúruvænna viðhorfa þá málar Eyvindur söguheim sinn engan veginn svarthvítan heldur endurspeglar fjölbreytileika lífsins með öllum þeim flækjum sem þar er að finna.
Á háskaslóð og Meðan skútan skríður segja einnig þroskasögu tveggja ört vaxandi stráka og ekki síður pabbans sem stendur á ákveðnum tímamótum. Einfalt lífið á skútunni gerir honum kleift að horfa á amstur hversdagsins úr fjarlægð og huga að sambandi sínu við strákana. Feðgarnir kynnast nýjum hliðum hver á öðrum og mynda sérstök tengsl sem einkennast af gagnkvæmri vináttu, þótt nábýlið geti orðið brösótt á köflum. Bækurnar eru stútfullar af skemmtilegum fróðleik, spennandi atburðarás og ekki síst þörfum boðskap um umburðarlyndi manna í garð náttúru, dýra og ekki síst náungans. Eyvindur gerir ekki lítið úr gáfum barna og telur þau allt eins fær og fullorðna fólkið til að líta skynsömum augum á lífið og reyna að fá einhvern botn í tilveruna. Hann lætur söguhetjur sínar einnig takast á við erfið vandamál sem æ fleiri fjölskyldur standa frammi fyrir og víst er að margir geta samsamað sig hugsunum Gagga í Meðan skútan skríður þegar hann fær ráðrúm til að velta samskiptum foreldra sinna fyrir sér eftir að feðgarnir höfðu komist í hann krappann í illviðri og vondum sjó:
En líklega myndu þau skilja í haust eða vetur. Annað hvort þeirra yrði þá að flytja, hann vissi ekki hvort það yrði. Það gæti farið eftir því hjá hvoru við bræðurnir vildum heldur vera. Ég sagði ekkert. Ég vissi ekki lengur hjá hvoru ég vildi vera. Í vor hefði ég hiklaust valið mömmu. En það var margt að breytast. Pabbi var líka góður gæi. En auðvitað gætum við verið hjá þeim til skiptis. Það færi samt eftir skólum og svona. Ég vildi óska að þau héldu áfram að búa saman. Þau máttu alveg rífast stundum, ef þau bara kysstust á milli. Og hættu þessari þögn sem setti allt í frysti í marga daga. (112)
III
Í skáldsögunum Múkkinn (1988), Landið handan fjarskans (1997) og Þar sem blómið vex og vatnið fellur (1999) skoðar Eyvindur samneyti manns og náttúru út frá ólíkum sjónarhornum. Hann gerir áhugaverðar tilraunir með skáldsagnaformið og er gjarn á nýbreytni, bæði hvað varðar efnistök og beitingu tungumálsins. Sögurnar eru berorðari, erótískari og gróteskari en önnur verk hans og höfða kröftugar lýsingar hans frá lífinu á togaradalli, leit ungs manns að lífsfyllingu mitt í geggjun tilgangslauss stríðsreksturs og kraftmikil greining á lifnaðarháttum forfeðra okkar, sérstaklega sterkt til skynfæra lesenda. Eyvindur setur persónur sínar gjarnan í öfgakenndar aðstæður við jaðar siðmenningarinnar og afhjúpar þann dýrsleika sem er manninum eðlislægur. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst lífið um að komast af og hrökkva þá tilbúnir „kurteisiskóðar“ vestræns samfélags skammt. Undir slíkum kringumstæðum gegnir náttúran bæði hlutverki lífgjafa og tortímanda. Í höndum hennar minnkar maðurinn og leggur Eyvindur áherslu á að heillavænlegast sé fyrir manninn að meðhöndla krafta náttúrunnar af virðingu en ekki hræðslu sem gjarnan brýst út í tilraunum til að drottna yfir henni.
Í Múkkanum segir Eyvindur frá daglegu lífi um borð í íslenskum togara og því hráa karlasamfélagi sem þar þrífst undir aðstæðum sem oft virðast á mörkum hins mannlega. Sagan á ekkert skylt við ævintýralegar endurminningar gamalla hetja hafsins því það er nákvæmlega ekkert rómantískt við lífsbaráttu sögupersóna Eyvindar. Á Suðureynni draga menn ekki „silfur hafsins“ úr lygnum sæ heldur útblásna karfa einhvers staðar lengst úr djúpinu:
Þeir koma úr djúpu kafinu og geta ekki aðlagast, úttútnir af þrýstingnum, sem kemur að innan og ekkert heldur á móti í þessum framandi heimi og augun eru blöðrur á stilkum og maginn kemur öfugur og tæmdur út í gegnum kjaftinn og stendur eins og þaninn smokkur fram á milli skoltanna. Það er eins og hann geti snúið uppblásnum augunum í allar áttir en hann sér ekkert og nær ekki andanum. (61)
Múkkinn ber glögg merki hópsögunnar þar sem ekki er um eiginlega aðalpersónu að ræða heldur fremur hóp manna sem lifir í svipuðum veruleika og deilir álíka lífskjörum. Áhafnarmeðlimir sveipa sig ákveðnum hjúpi þar sem hver leikur sitt týpuhlutverk og gera sitt besta til að gefa ekki færi á sér. Þeir taka skýra afstöðu gegn landkröbbunum sem ekkert vita og mynda sérkennilegt samfélag sem einkennist af ákveðnum reglum sem ekki má brjóta. Eyvindur byggir bókina að miklu leyti upp á samtölum sem eru kraftmikil og klámfengin. Oft er erfitt að greina hver á þá rödd sem talar hverju sinni en það skiptir ekki máli því allar halda þær sig innan þess ramma sem þeim er ætlaður og tjá viðhorf sem eru samþykkt af samfélagi Suðureyjarinnar. Það er einna helst í brúnni sem upp dúkka hugðarefni þar sem varnirnar eru látnar falla tímabundið og tjá áhafnameðlimir sig þá, í fárra manna hljóði, um konuna, fjölskylduna og framtíðina. Undir niðri örlar því á viðkvæmni en menn eru á varðbergi og eru fljótir að falla í ryþma þess heims sem skipið setur þeim og þess ruddafengna orðbragðs sem hann einkennir. Togarinn er veröld þeirra á meðan á túrnum stendur og þeir eiga engrar undankomu auðið. Menn eru fastir í viðjum vanans, eru óhamingjusamir en vildu samt í raun hvergi annars staðar vera. Eyvindur lýsir daglegu amstri um borð á raunsannan hátt með sérstæðu orðalagi sem er svo sannarlega ekki fyrir alla að skilja til hlítar:
Og túrinn hélt áfram og það var ræs og það var glas og það var étið og það var kastað og það var híft og það var kúttað og það var slitið innan úr og þar var ísað og það var kaffi og það var híft og það var kastað og það var goggað og það var bætt og það var skipt yfir og það var blóðgað og það var skolað og það var ísað og það var gert að og það var híft og þar var kastað og það var glas og það var étið og það var skitið og þar var kjaftað og það var drukkið kaffi og það var reykt og það var skriðið í koju og það var ræs og það var étið og það var kastað og það var híft og það var ísað og þegar veröldin var ekki orðin annað en köst og hífingar og bætningar og aðgerð og ís og fiskur og sígarettur og kaffi og át og skit og meiri bætningar og skipt yfir, þá var trollið tekið inn án þess að skipt væri yfir og það var bundið upp og lestin skálkuð og settar stímvaktir og nefi snúið heim. Heim? Já, eða þangað. (63)
Þegar „heim“ er komið reynist áhafnarmeðlimum erfitt að finna fast land undir fótum og oftar en ekki lenda þeir upp á kant við heimamenn og gerast sumir hverjir sekir um voðaverk, mitt í taumlausri brennivínssturlun. Þeir skilgreina sig í andstöðu við allt sem er í landi en eru samt haldnir blendnum tilfinningum þegar þeir ranka úr rotinu á leið á miðin eina ferðina enn.
Eyvindur brýtur kraftmikinn orðaflaum sjóaranna upp með ljóðrænum innskotsköflum sem veita nýja sýn á baráttu mannsins mitt í víðáttu hafsins. Dauðinn vofir einnig yfir verkinu og sú persóna sem höfundur vinnur hvað mest með, hlýtur það hlutskipti að lenda utanborðs og drukkna. Þessi ógn er hluti tilverunnar sem áhöfnin hefur vanist og er sú rödd sem finnur sjórekið líkið í fjörunni dæmigerð fyrir þá líkamlegu og grótesku orðræðu sem einkennir Múkkann: „Hann er svona ráétinn, hausinn, og eiginlega lítið eftir á kúpunni og ofan að peysukraganum. Mér sýnist eins og það sé umtalsvert kjöt á honum eftir það, og dálítið blásinn upp þegar að dregur niður, eins og stundum vill nú verða“ (50).
Sögusvið skáldsagna Eyvindar eru um margt óvenjuleg og í höndum hans verða kunnulegar kringumstæður framandi. Múkkinn gerist á togara í nánu sambýli við harðger náttúruöfl og þótt flestir Íslendingar þykist vita einhver deili á slíkum veruleika, þá eru færri sem hafa raunverulega upplifað álíka kringumstæður og Eyvindur lýsir. Í Landinu handan fjarskans flakkar aðalpersónan um stríðshrjáð Norðurlönd og Rússland í kringum 1800 og í Þar sem blómið vex og vatnið fellur er hún komin til Íslands, þar sem óvenulegt samband myndast milli manns og undarlegra afla sem í duttlungafullri náttúru búa.
Landið handan fjarskans og Þar sem blómið vex og vatnið fellur lýsa langvarandi leit Óla Ólasonar að sjálfum sér og samastað sem hann getur kallað sinn. Verkið hefst á því að honum er ungum hrint út í hræðilegt stríð þar sem hann berst fyrir æru konungs síns. Í fyrstu er hann upp með sér af slíkri manndómsraun en fyrr en varir verður takmarkslaus grimmd mannsins og tilgangsleysi stríðsins til þess að hann gerist fráhverfur slíkum stríðshetjuhugsunum:
Allt var öfugt. Búðirnar, óþrifaleg tjöldin, tal mannanna, upphrópanir og blótsyrði, hlátrasköll, reykurinn sem þyrlaðist um, meira að segja snarkið í eldinum. Skítug stígvélin, heimskulegir skúfarnir upp úr húfunum, húfurnar sjálfar verstar. Þung lyktin sem farið var að leggja yfir af dritholunum og innyflum sláturdýranna. (63-64)
Stríðslýsingar Eyvindar eru gríðarlega myndrænar og vel til þess fallnar að gegnumlýsa heimsku mannsins og hversu langt hann er kominn frá rótum sínum með slíku framferði. Í geggjun stríðsins tekur náttúran á sig aðra mynd og verður fjandsamleg, eins og henni blöskri hegðun mannsins og gengdarlaus vanvirðing hans við lifandi verur.
Landið handan fjarskans er mikil ádeila á stríðsrekstur og þær eigindir mannlegrar hugsunar sem etja fólki upp á móti hvert öðru en bókin er einnig þroskasaga ungs manns sem flýr ógnir stríðs og gerir sitt besta til að líma saman sundurskotið sálartetur. Út af aðstæðum sínum skiptir Óli margs sinnis um nafn og sveiflast persónuvitund hans frá unga piltinum Óla, í hermanninn Jannis, í liðhlaupann Eineinn, í sjóarann Sonna, í Danann Jens og loks Íslendinginn Jans. Hann er lítil sál á víðfeðmu landssvæði sem þráir það eitt að finna frið í sálinni og sætta sig við eigin gjörðir. Á vegi hans verða skrautlegar persónur sem Eyvindi tekst að ljá sín sérstæðu persónueinkenni með framandi orðum, sérkennilegum stíl og auðugu málfari. Líkt og í Múkkanum eru lýsingar hans ótrúlega gróteskar og sína manninn oft og tíðum í sinni nöprustu mynd. Þegar sögupersónu Landsins handan fjarskans er allri lokið berst henni hjálp úr óvæntri átt þegar hún heyrir frásögn af fyrirmyndaríki þar sem „[f]ólk dvelur í húsum sínum. Segir sögur sínar og sögur og syngur langa dapra söngva sem eru gleðisöngvar og óður til sólar og lífs og ástar. Enginn skilur tungu þessa fólks, nema það sjálft og svartir hrafnar sem fljúga stöðugt þar. Þeir, sem ekki skilja mál þess, halda það allt sorgarsöngva. En þetta gleðiháttur fólks“ (281-282). Loks kemur Jens til Danmerkur og hittir þar fyrir Íslendinginn Gullaug sem fjasar um ágæti eigin lands í ölvímu og ákveður Jens í kjölfarið að leita þessa stórbrotna lands sem búsett er friðelskandi fólki og reyna að finna þar langþráða sálarró á stað þar sem blómið vex og vatnið fellur.
Þegar Jens kemur til Íslands fær hann stöðu beykis í vestfirsku kauptúni. Í framburði innfæddra breytist Jens í Jans og er þessi nafnbreyting merki um enn eina endurfæðinguna sem persónuleiki hans gengur í gegnum og undirstrikar rótleysi hans. Jans verður fyrir töluverðum vonbrigðum með þessa friðelskandi þjóð í norðri og þótt hann gegni virðingarstöðu í samfélaginu, giftist og stofni fjölskyldu, þá lúrir rödd Gullaugs alltaf bak við og lýsing hans á unaðsstaðnum sem Jans gerir að sínum.
Eyvindur lýsir umhverfinu og þjóðfélagsaðstæðum á Vestfjörðum á fyrri hluta 19. aldar á einkar lifandi máta. Hann notar útlendinginn Jans til að varpa ljósi á ýmislegt fáránlegt, gróteskt og spaugilegt í fari forfeðra okkar. Hann dregur ekkert undan og eins og í Múkkanum, höfða lýsingar hans sterkt til skynfæra og á lesandinn auðvelt með að gangast við þessari lýsingu Eyvindar á liðnum tíma. Jans sogast sjálfur inn í þennan heim og fyrr en varir er hann farinn að misnota áfengi, slást og sænga hjá annarra manna konum. Þótt samfélagið verði subbulegt í höndum höfundar, þá hefur stórbrotin náttúra einnig mótað mikla menn og miklar konur sem standa andspænis gírugu yfirvaldi og gjörspilltri prestastétt. Að lokum fær Jans ógeð á sjálfum sér og þeirri ódyggðugu veröld sem umlukti hann og leggur upp í mikið ferðalag í leit að staðnum sem Gullaugur lýsti. Á þessu ferðarlagi gengur Jans inn í töfrandi heim náttúru, huldufólks, landnámsdrauga og annarra ómennskra vera sem hreinsa hann smám saman af þeim myrku kenndum sem líf hans var farið að stjórnast af. Eyvindur leikur sér með efnivið úr þjóðsögunum og hlutur kveðskapar verður meiri. Hann notar töframátt þulunnar til að draga fram dulúðina sem býr í náttúru og fólki og gefur persónum sínum sérstætt og auðugt tungumál sem verður hluti af þessari draumkenndu veröld.
Eyvindur gerir mikið úr mikilvægi virðingar og skilnings á margbreytileika lífsins og leggur áherslu á að ólík viðhorf, ólík trúarbrögð, ólíkir kynþættir og lífsskoðanir eigi rétt á sér og sé heiminum nauðsynleg. Jans leitar að hinni sönnu lífsþulu sem færa muni honum þá hamingju og sálarró sem hann hefur lengi leitað en lítill móri bendir honum á að hann sé að leita hamingjunnar á röngum forsendum og færir honum lykil að ákveðnum lífsskilningi sem reynist Jansi vel:
Engin rétt þula til! En þessi má vel vera sú, sem þú átt einn, sú sem er hverjum manni nauðsyn, ef hann vill ekki vera manntætlur einar. Gerir hann að manneskju. Og hver sá sem þröngvar sinni þulu um eyra annars, hann skemmir þar við bæði heyrn og hlust. Og hver sá sem reynir að læra annars manns þulu, hann ruglast á lífi og geði. Og hverjum er hollast að lifa sína þulu, manni, gengli, ármanni og vætti, safna henni í sarpinn sinn, svo sem rjúpa laufi sínu. Sá sem hefur lært hana til loka, fái hann frið til þess, hann getur dáið hverjum þeim drottni eða draug sem honum sýnist, Guði, Gaspod, Jehóva, Júmala, Deusi, Þeosi, Þór eða Alexíusi afa, sýnist honum svo. Svo nú skalt þú bara hlýða á þinn hollæk og hlusta eftir rödd bróður þíns dauða í bárunni og golunni í sinugresinu. (352-353)
Náttúran, og öflin sem í henni búa, kenna Jansi auðmýkt, virðingu og skilning. Með hjálp hennar sættist Jans við eigin syndir og finnur hamingjuna að lokum. Í skáldskap sínum leggur Eyvindur áherslu á að engin rétt lífsþula sé til og menn verði að fá frið til að feta sinn stíg og leyta lífshamingjunnar á eigin forsendum. Þótt mynd Eyvindar af manninum sé oft myrk, þá glittir í von og trú á mannlega skynsemi, fái hann ráðrúm til að hugsa og gangast við þætti náttúrunnar í þessu þankaferli. Þegar maðurinn hundsar slík gildi heilbrigðs hringferlis manns og náttúru, þá villist hann í heimi gervitákna sem byrgja honum sýn fyrir sönnu verðmætamati. Undir slíkum kringumstæðum verður veröld hans bjöguð af lífsviðhorfum sem Eyvindur dregur stórlega í efa að verði manni og náttúru nokkru sinni til bóta.
© Bjarki Valtýsson, 2002
Greinar
Um einstök verk
Hvenær?
Dagný Kristjánsdóttir: „Hvenær?“
Mímir, 14. árg., 1. tbl. 1975, s. 76-7
Múkkinn
Rúnar Helgi Vignisson: „Sjóarinn sem er ekki til: róið á mið íslenskra sjómannasagna“
Skírnir, 169. árg., (haust). 1995, s. 489-506
Verðlaun
2005 – Smásagnaverðlaun Hafnarpóstsins, PP forlags og Icelandair: „Hvað líður sumrinu ...?“
1998 – Skáldaviðurkenning Kópavogsbæjar
1997 – Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness: Landið handan fjarskans
Tilnefningar
1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Landið handan fjarskans
Fugl: VI – Hvað líður sumrinu ...? – smásögur 2
Lesa meiraSjálfgotinn fugl: V – Þoka og önnur verk – leikverk 2
Lesa meiraSjálfgetinn fugl: III – Kvað hver? – kveður og kvæði
Lesa meiraSjálfgetinn fugl: IV – Ronni – skáldsaga af sönnu fólki
Lesa meiraSjálfgefinn fugl I, leikverk
Lesa meiraSjálfgefinn fugl: II – Níu hvít spor – Smá sögur
Lesa meiraLillilalli og vatnið góða
Lesa meiraVarstu?
Lesa meiraGlass : Saga af glæpum og glöpum
Lesa meira
Svo mælir Svarti-Elgur
Lesa meiraÁrin sýna enga miskunn
Lesa meiraHæðargerði á uppleið
Lesa meiraÁfram Hæðargerði
Lesa meira