HHhH
Lesa meira
HHhH
Titill bókarinnar stendur víst fyrir „Heili Himmlers heitir Heydrich“. Þessi bók greip mann heljartökum undir eins og fór víst líka rakleiðis á metsölulista Eymundssonar eftir að gagnrýnendur lýstu yfir hrifningu sinni í Kiljunni. Það er ekki að spyrja að áhrifamætti þess sjónvarpsþáttar. Þungamiðja bókarinnar er fræg tilraun tékkóslóvakískra andspyrnumanna til að ráða Reinhard Heydrich af dögum í Prag árið 1942, sem hafði í för með sér voðalegar hefndaraðgerðir þýska hernámsliðsins. Meðal annars var þorpið Lidice máð af landakortinu og öllum íbúum þess komið fyrir. Sú grimmilega hefndaraðgerð kom Þjóðverjum raunar illa á alþjóðavettvangi enda var þorpið valið eftir duttlungum ráðamanna þegar í óefni var komið með eftirgrennslan og leit að tilræðismönnunum. Upphaflega hafði höfundurinn ráðgert að bókin yrði nefnd „Anthropoid“ en það var heitið á aðgerðinni sem var eiginlega, eða átti að vera, sjálfsmorðsárás.