úr bókinni
Ætar kökuskreytingar
Tónskrattar veislunnar
skella á hlustunum
fullnýta steðja
ístað, hamar og sigð
snyrtilegur mannskapurinn
rífur í sig ætar kökuskreytingar
gylltar og meitlaðar af bestu lyst
uppáklædd fagna þau
græðgi sinni og losta
borða með höndunum, gleyma að kyngja
sit stjörf
korselettið þröngt
kræsingarnar yfirþyrmandi
varaliturinn hefur dreift sér
um tannhold og munnvik
varalitur á glösum
varalitur á munnþurrkum
á fíngerðu handarbaki mínu
hvað er verið að segja?
ég heyri raddir
en engin orð
raddirnar eru ekki sessunauta minna
sem hreyfa þó varirnar
eins og gullfiskatorfa í fæðuleit
raddirnar eru mínar eigin
allar mínar raddir:
forðaðu þér
yfirgef veisluna
torfuna
ný þagnarinnar
næ andanum