Úr Af manna völdum:
Fyrr á árum héldu til Parísar margar ungar stúlkur sem voru haldnar óljósri ævintýraþrá og vildu skoða sig um í heiminum. Árið sem ég dvaldi í París var gott ár. Kannski lærði ég ekki mikið á bóklega vísu, eins og ég hafði ætlað mér. En ég eignaðist vinkonu. Og sú vinátta er mér mikils virði.
Við tókum okkur saman þrjár erlendar stúlkur í París og leigðum okkur íbúð. Við áttum það sameiginlegt að vera orðnar leiðar á óvistlegum herbergiskytrum. En okkur reið á að fá fjórðu stúlkuna til að deila leigunni með okkur. Ein þessara stúlkna átti vinnufélaga sem kom til greina. Vinnufélaginn var þýsk og hét Elfriede.
Ég fitjaði upp á nefið. Að vísu var langt síðan stríðinu lauk, það tilheyrði fortíðinni, bernskunni. Og þó . . . Mér var ekki um Þjóðverja gefið.
En vinkonur mínar sóttu þetta fast og fullyrtu að Elfriede væri mesta ágætisstúlka. Hún var líka tekin í hópinn.
Svo stóð hún einn daginn í forstofunni og var að bisa við aðra ferðatöskuna sína. Ég átti leið hjá rétt í því, en lét mér nægja að kinka kolli til hennar áður en ég fór inn til mín.
Næst hitti ég hana í eldhúsinu. Hún var þar sömu erinda og ég: að smyrja sér brauð. Elfriede kynnti sig brosandi. Ég brosti á móti, en sagði ekki neitt. Ég hafði engan áhuga á þessari stúlku. Ekki fyrr en . . .
(s. 17-18)