Úr Einhvers konar ég
Þegar minnst er á fjörefni sé ég ævinlega hvítklæddar hjúkkur koma marsérandi, hnakkakertar og stórstígar.
Þær halda á bakka með lýsiskönnum sem glansa eins og fallbyssur og snjóhvítum munnþurrkum sem blakta eins og gunnfánar.
Þær koma brunandi taktföstum skrefum eftir ganginum og ljúka upp dyrum að kennslustofunni.
Börnin spretta á fætur og standa við borðin sín í réttstöðu þar til kennarinn gefur þeim merki um að setjast og hjúkkurnar ganga á milli borðanna, börnin glenna upp ginið og sperra aftur hnakkann og lýsisspýjan þeysist úr könnunni ofan í kok á ungviðinu og þaðan ofan í maga og úr maganum streyma fjörefnin út í æðarnar og grútarbragðið af lýsinu stígur aftur upp í vélindað og brýst fram í klígjukenndum ropa.
Ef maður var seinn til að opna munninn létu þær það ekki tefja sig heldur helltu lýsinu upp í nasirnar á manni og það rann niður kinnarnar og ofan í hálsmálið á ullarpeysunni og maður angaði af lýsispest bæði seint og snemma.
Lýsiskönnurnar voru geymdar í gluggakistunni í hjúkrunarherberginu og þegar morgunsólin náði að skína inn um gluggann áður en stofugangur hófst var lýsið glóðvolgt og framkallaði ólýsanlega velgjutilfinningu sem helst væri hægt að líkja við langvarandi sjóveiki.
Það var sama hvernig ég kúgaðist og ældi í frímínútum til að ná upp úr mér lýsinu, óbragðið og velgjutilfinningin sat eftir.
Sumir í bekknum voru undanþegnir því að láta hella í sig lýsi í skólanum. Þess var krafist að þessi börn kæmu með vottorð frá foreldrum sínum sem staðfestu að börnunum væri gefið lýsi heima fyrir.
Einu sinni þegar ég var að kúgast kom Engillinn að mér og ráðlagði mér að útvega mér svona vottorð.
Það er miklu betra að taka lýsi heima, þá er það ískalt úr ísskápnum og maður finnur ekki svo mikið bragð af því, sagði hún.
Ég var ekki klár á því hvað ísskápur væri og þar að auki harðneitaði pabbi mér um vottorð því að í fyrsta lagi væri ósatt að segja að ég tæki lýsi heima því það gerði ég ekki og í öðru lagi hafði hann tröllatrú á lækningarmætti þessarar ógeðslegu olíu og keypti sér iðulega lýsi til eigin afnota ef hann var að ná úr sér kvefi eða einhverri pest.
Þau fjörefni sem ríkisstjórninni í góðsemi tókst ekki að koma niður um kokið á fátækum börnum voru brennd inn í húðina.
Hver einast bekkur í skólanum var látinn fara í ljós og vigtun.
Í ljósunum var maður látinn berhátta. Verst þótti mér að þurfa að taka af mér gleraugun til að geta sett upp sérstök kringlótt ljósagleraugu með svörtum glerjum.
Svo var sprautað á mann útfjólubláu ljósi og ef maður tók ofan gleraugun varð maður samstundis blindur að eilífu og til var saga af strák sem lét sér ekki segjast við að verða blindur heldur fór aftur í ljós án hlífðargleraugna og þá brunnu úr honum bæði augun og eftir sátu holar augnatóttirnar.
Hann var sagður vera í 12 ára bekk og fá sérkennslu á nóttunni.
Sandra og Alma höfðu séð honum bregða fyrir á göngum skólans eftir að búið var að slökkva á kvöldin.
Úr ljósunum kom maður rauður eins og karfi og klæjaði um allan skrokkinn og á andlitinu voru hvít gleraugu. Það var soldið flott að sjá þetta í spegli en alvörugleraugun mín gerðu það að verkum að þetta var ekki eins áberandi í mínu andliti og annarra.
Svo var maður vigtaður. Ég var langléttastur í bekknum og allir skellihlógu þegar vigtarvörðurinn las upp tölurnar mínar fyrir skrifarann.
Þú ert ekkert nema skinnið og beinin, sagði vigtarvörðurinn. Þú ert greinilega ekki nógu duglegur að borða.
Hann er ekkert nema gleraugun og kanínutennurnar, sagði einhver. Og það var sennilega alveg rétt.
(s. 86-87)