Jump to content
íslenska

Tímakistan (The Casket of Time)

Tímakistan (The Casket of Time)
Author
Andri Snær Magnason
Publisher
Mál og menning
Place
Reykjavík
Year
2013
Category
Children‘s books


Um bókina:
Í nýjustu bók Andra Snæs Magnasonar má lesa um stúlku sem vaknar í draugaborg þar sem mosavaxnir bílar líkjast broddgöltum. Hér er óður konungur sem vill sigra tímann, Exel aðstoðarmaður hans sem breytir lofti í gull, nashyrningar, dádýr, kóngulær, Prinsessan af Pangeu og margt fleira.


Úr Tímakistunni:
Ríkið var í blóma. Í austri var konungshöllin kölluð Krabaduso rundi – eða höfuð kolkrabbans, það var engu líkara en höllin væri með griparma sem teygðu sig um gjörvalla veröldina. Í vestri var hún kölluð svelgurinn vegna þess að þaðan kom allt valdið og þangað rann allur auður eins og ofan í risavaxið niðurfall. Konungshöllin glampaði í heitri sólinni, hún óx eins og kuðungur uppi á hæðinni fyrir ofan Pangeuborg og í henni miðri sat prinsessan fagra, hún Hrafntinna. Nú sat hún úti í glugga og horfði á handverksmenn skreyta gyllta veggi með svörtum og hvítum perlum. Hún hafði fylgst með turnum rísa og turnum bætast ofan á þá og koll af kolli, þar til hæstu spírur virtust snerta ský og skrapa stjörnur.
   Hrafntinna átti allt í heiminum en hún var búin að bíða svo lengi eftir konungi að hún var alveg að springa. Hún horfði á stóra hringleikahúsið og heyrði óm af fagnaðarlátum og skarkala. Hverju ætli fólkið sé að fagna? Hún horfði á turnana sjö sem gnæfðu yfir fjallstindunum í austri. Hún þráði að komast þangað. Hún horfði niður kastalaveggina og kannaði hvort hægt væri að fikra sig niður. Hrafntinna velti fyrir sér hvort hún myndi meiða sig ef hún félli niður. Hún hafði aldrei meitt sig. Þegar Dímon konungur frétti út á vígstöðvarnar að hún væri farin að ganga gaf hann út fyrirskipun:
   – Hér með eru öll hvöss horn bönnuð í gjörvallri Pangeu.
   Dímon lét fóðra höllina með teppum og silkipúðum. Varðmenn stóðu tilbúnir að grípa Hranftinnu þar sem hún gæti mögulega dottið. Fyrstu árin þótti henni fátt skemmtilegra en að hlaupa fram á stigabrún og láta grípa sig. Hún fékk fiðring í magann þegar hún stefndi niður á hart steingólfið og hó þegar varðmenn gripu hana í silkiteppi. Þeir önduðu léttar og struku sveitt ennið, enda vissu þeir að það var ekki aðeins líf hennar sem var í húfi, heldur þeirra líka. Hrafntinnu var svo vel gætt að hún hafði ekki einu sinni hruflað hnéð og komist að því hvað það er gaman að plokka hrúðrið af sárinu.
   Hrafntinna skimaði út á sjóndeildarhringinn í von um að sjá sendikráku með skilaboð frá föður hennar. Þær höfðu ekki sést í nokkrar vikur. Hún átti orðið stóran bunka af bréfum sem hún hafði lesið aftur og aftur.
   Kæra dóttir mín góð. Eftir síðustu orrustu áttu nýjan demantakastala í borg sem heitir núna eftir þér, Hrafntinnuborg. Við skulum heimsækja hana saman þegar sigurinn er í höfn …
   Í bréfunum voru lýsingar á hrikalegum fjöllum, dimmum skógum og gylltum borgum. Hann skrifaði um undarlegar þjóðir, villidýr, villimenn og skóga fulla af mannætum. Hann sagði frá skrítnum skepnum, furðulegum fiskum og miklum orrustum. Hrafntinna lygndi aftur augunum og reyndi að muna eftir föður sínum. Hún reyndi að muna eftir augunum, nefinu og röddinni. Það eina sem hún átti voru bréfin frá honum. Faðir hennar var eiginlega orðinn samsafn af orðum:
   Kæra dóttir mín. Nú höfum við farið um heiminn í tíu ár og hann er stærri en mig óraði fyrir. Þegar ég kem heim mun ég sýna þér lundinn þar sem móðir þín hvílir undir grátvíði. Enginn nema ég veit hvar hann er. Þar er skógur og falleg tjörn full af spriklandi silungi.

Með saknaðarkveðju – pabbi

(34-6)

 

More from this author

Traumland: Was bleibt, wenn alles verkauft ist?

Read more

A kékbolygó története

Read more

AOI WAKUSEI NON HANASHI

Read more

Lovestar

Read more

Short stories in Flügelrauschen

Read more

A história do planeta azul

Read more

LoveStar (excerpts)

Read more

Poems in Komkommer & Kwel

Read more

Sagan af bláa hnettinum (The Story of the Blue Planet)

Read more