Beint í efni

Samúel

Samúel
Höfundur
Mikael Torfason
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Skáldsögur
Á heimasíðu [Mikaels] má lesa dóma sem birst hafa um Samúel í Morgunblaðinu, DV og á Kistunni.

Úr Samúel:

1
Litli prinsinn

Loftið fyrir ofan mig er eins og risastór sjónvarpsskjár. Á milli mynda af sundurtættu fólki og grátandi börnum birtast beiskar kellingar með slæðu og öskra eitthvað á arabísku. Ég skil ekki baun í því sem þær segja en get svosem sagt mér að þær séu að blóta heiminum mínum og auðvitað hafa þær rétt fyrir sér. Þær eru sannleikurinn en ég er lygin. Ég veit það núna. Áttaði mig ekki alls fyrir löngu og er hættur að berjast á móti. Veruleiki minn er uppspuni og um tíma datt mér í hug að ég þyrfti að drepa mig til að lifa restina af eilífðinni í sannleika en ég sé núna að það gengur ekki. Í dauðanum felst enginn sannleikur. Að drepa sig væri bara að viðhalda lyginni. Fólk myndi mæta í jarðarförina mína og syrgja og lygin héldi áfram. Jafn mörg börn myndu deyja úr hungri þann dag og jafn margir karlmenn myndu sprengja sjálfa sig og ímyndaða óvini sína upp í loft um leið og ég sigi niður í jörðina. Ef eitthvert vit væri í kollinum á mér þá myndi ég frekar sviðsetja eigið sjálfsmorð til að sýna fólki að dauðinn getur verið alveg jafn mikil lygi og lífið sjálft. Það hefði líka miklu meiri áhrif en sjálfsmorð. Fólk myndi hata mig meira ef ég þættist drepa mig í pólitískum tilgangi en ef ég lakkaði neglurnar svartar og hlustaði á þungarokk og tæki inn alltof stóran skammt af svefntöflum. Höfuðsyndin er að hreyfa við sjálfslyginni, sjálfsblekkingunni. Þú mátt deyða en þú mátt ekki þykjast deyða. Ha? Þér er í sjálfsvald sett hvort þú haldir framhjá, girnist konu náunga þíns, stelir eða ljúgir. Þú mátt bara ekki feika það.
 Veruleikinn er eins og Guð. Einu sinni var hann lifandi en síðan dæmdur til dauða. Það þótti skárra en að láta sem hann væri ekki dauður og ljúga því síðan að sjálfum sér og öðrum að hann væri lifandi eins og fólk í sértrúarsöfnuðum gerir. En nú er komið að næsta dauða og það er dauði raunveruleikans. Og ég ætla að taka þátt í morðinu. Ég ætla að þykjast trúa á allt þetta kjaftæði. Láta sem líf mitt sé einhvers virði. Ljúga því að öllum að þetta sé mitt líf. Að ég sé minn eigin Guð og að það sem mér er sagt að sé gott, rétt og æskilegt sé sannleikurinn. Og þegar fólk kemst að því að ég laug þessu öllu saman mun það ábyggilega bregðast verr við en ef ég segði þeim bara að þetta væri allt saman lygi.
 Ef þú hugsar út í það sérðu að þetta er laukrétt. Veruleikinn er lygi. Ég er meira að segja hálfnaður með bók um þetta. Bók sem mun breyta heiminum og umbylta. Ég er að spá í að láta hana heita Stríðsmenn eyðimerkurinnar eða Handbók hryðjuverkamanns með vísun í Marx minnar kynslóðar, Baudrillard. Ég er þá eins og Lenín og mér er alveg sama þótt fólk telji þá kumpána hafa haft rangt fyrir sér. Þeir reyndu í það minnsta hið ómögulega: Að beisla veruleikann. En ég ætla að ganga af honum dauðum. Eða hjálpa honum að deyja. Hann er auðvitað jafn dauður og Guð en það þarf að ýta við fólki og ég tek það að mér vegna þess að ég er einn af örfáum sem hef þurft að drepa Guð fyrir sjálfum mér. Einu sinni var hann minn sannleikur en ég drap hann.
 Ég fer eins að með veruleikann sem ég kyrki samviskulaus. Ég veit þó að hann lifir góðu lífi í loftinu fyrir ofan mig. Hjá fólkinu úti í heimi. Þessum Aröbum sem hvíti maðurinn vill hreinsa samfélag sitt af. Það fólk skynjar veruleikann eins og hann er; sem óraunveruleika. Það lýsir honum allavega þannig ef það er spurt í einhverjum tímaritsgreinum hvernig því líður. Það segir að þetta geti ekki verið raunverulegt og það trúir í rauninni ekki þjáningunni sem það hefur orðið fyrir. Það er eins og Armenarnir sem Tyrkir útrýmdu og allir gleymdu eða gyðingar Hitlers sem allir ákváðu að muna eftir. Fólk trúði því ekki og trúir því ekki ennþá. Þannig er líf Arabans. Múslímum er útrýmt og þótt þeir minni á sig með því að sprengja byggingar úti í heimi finnst sjónarvottum það ekki raunverulegt. Jafnvel það fólk sem missti sína nánustu í þessum turnum í Ameríku á bágt með að trúa því að þessar hörmungar hafi átt sér stað.Það er eins með mig. Ég vakna ekki einu sinni á morgnana lengur. Hef ekkert sofið en sest samt upp í sófanum og finn að litli guttinn hoppar og skoppar í kringum mig. Ég sé hann ekki og vil helst ekki líta á hann. Gríp bara fjarstýringuna og lækka svo konan mín vakni ekki. Þessi Kunta sem var mamma mín þar til danski heimilislæknirinn skrifaði upp á pillur sem fengu mig til að horfast í augu við hver ég er í raun og veru. Nú sé ég í gegnum allt þetta kjaftæði og leita ekki lengur að Sannleikanum vegna þess að ég veit að hann er meiri lygi en lygin sjálf.

(s. 13-15)

Fleira eftir sama höfund

Falskur fugl

Lesa meira

Falskur fugl

Lesa meira

Verdens værste far

Lesa meira

Maailman tyhmin isä

Lesa meira

Bróðir minn og bróðir hans

Lesa meira

Vormenn Íslands

Lesa meira

Týnd í Paradís

Lesa meira

Syndafallið

Lesa meira