Æviágrip
Viktor Arnar Ingólfsson fæddist á Akureyri þann 12. apríl 1955. Hann lauk B. Sc. námi í byggingartæknifræði frá Tækniskóla Íslands 1983 og hefur auk þess sótt námskeið í handritsgerð á vegum Félags kvikmyndagerðarmanna og hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Árin 1990 og 1995 dvaldi Viktor Arnar um tíma við nám í almannatengslum, útgáfu, tölvugrafík o.fl. við George Washington University í Bandaríkjunum. Viktor Arnar hóf störf hjá Vegagerðinni 1969 og hefur verið þar í fullu starfi frá 1983. Frá 1985 hefur hann séð um útgáfumál stofnunarinnar.
Fyrsta skáldsaga Viktors Arnars, Dauðasök, kom út árið 1978. Síðan hefur hann sent frá sér fjórar aðrar spennusögur, nú síðast Aftureldingu 2005, en á henni byggðust spennuþættirnir Mannaveiðar, sem Ríkissjónvarpið sýndi vorið 2008. Einnig hafa smásögur eftir hann birst í blöðum og tímaritum. Skáldsaga hans, Engin spor, var tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, árið 2001. Hann var einnig tilnefndur af Íslands hálfu til Glerlykilsins 2004 fyrir Flateyjargátu. Viktor Arnar er félagi í Hinu íslenska glæpafélagi.
Viktor Arnar býr í Reykjavík. Hann er kvæntur og á eina dóttur og eina stjúpdóttur.
Forlag: Mál og menning.
Frá höfundi
Af hverju skrifa ég bækur, 5 ástæður
1. Fyrsta bókin mín var svo léleg að ég er að reyna moka yfir hana með skárri bókum
Sumarið 1978 var ég óþroskaður 23 ára gamall tækniskólanemi. Ég las á þessum tíma mikið af glæpasögum og vísindaskáldsögum og oft fannst mér höfundarnir sleppa hálf ódýrt frá plottinu. Ég ákvað að þá að skrifa glæpasögu og hamraði það fyrsta sem mér datt í hug á ritvél á nokkrum kvöldum og afraksturinn varð rúmlega smásaga. Röð tilviljana varð til þess að ritsmíðin var gefin út þetta haust. Textinn var ekki langur þannig að það varð að teygja þetta á alla kanta svo úr yrði bókarkorn. Það sem gerir þetta verk einhvers virði er að Jónas Guðmundsson stýrimaður, rithöfundur og listmálari var fenginn til að teikna myndir í söguna. Það skemmtilegasta við þessa reynslu var að sitja með Jónasi yfir kaffibolla og rabba einn morgun á Matstofu Austurbæjar. Næsta bók kom út 1982 og eftir það staldraði ég við í 16 ár á meðan ég var að kynna mér það aðeins betur hvað til þarf svo að bók verði lesendum boðleg. Þetta er reyndar nokkuð algengt heilkenni hjá listamönnum að þeir vilja lítið vita af sínum fyrstu verkum.
2. Það er svo dýrt að gera bíómyndir
Skemmtilegasti þáttur þess að semja sögu er að fá hugmyndir og búa til fléttuna. Að skrifa söguna í bókarformi er svo bara nauðsynleg miðlun. Ég hélt að ég gæti sloppið billega með því að skrifa kvikmyndahandrit og fór á þrjú námskeið til að læra það. Sagan Engin spor var í upphafi samin sem kvikmynd. En kvikmyndagerð er dýrt áhugamál og handritshöfundarnir fá sjaldan miklar þakkir. Ég er því orðinn sáttur við að þurfa að myndgera sögur mínar sjálfur í texta.
3. Ég hef ekkert annað að gera á milli klukkan 22 og 23 á kvöldin
Það eru forréttindi að geta skrifað bækur en þurfa ekki að lifa af því. Ég er svo heppinn að vera í vinnu sem mér líkar vel og gefur þokkalega afkomu. Þannig get ég lengi velt fyrir mér skrýtnum hugmyndum og hent þeim sem ekki ganga upp. Fjölskyldan þarf líka athygli og því er það orðinn vani að skrifa seint á kvöldin þegar börnin eru sofnuð. Þetta getur gengið ef maður gætir þess að hafa góða samfellu í vinnunni og hætta aldrei að kvöldi án þess að vita hvar verður byrjað næst.
4. Svo mér leiðist ekki
Þegar svo naumur tími er til ritstarfa notar maður hverja stund sem gefst. Ég hef því þróað vinnulag sem felst í að hugsa um söguþráðinn í hvert sinn sem ég þarf að bíða eftir einhverju yfir daginn. Þetta geta verið örfáar mínútur í senn en þær telja þegar maður kemst loksins í tölvuna. Þetta kann að virka ankannalega fyrir ókunnuga þegar maður legst í svona hugleiðslu á ótrúlegustu stöðum og svipurinn verður ansi fjarrænn. Röðin í mötuneytinu á mínum vinnustað hefur oft reynst mér drjúg og margar af mínum bestu hugmyndum hef ég fengið í sturtu. Þetta hefur orðið til þess að mér leiðist aldrei.
5. Það er svo gaman að kynnast nýju fólki
Til að saga nái fullum þroska þurfa persónurnar að vera áhugaverðar. Ef höfundur hefur ekki trú á sínu fólki tekst honum aldrei að glæða áhuga lesenda. Það er því gott að hugsa oft til sögupersónanna og kynnast þeim betur. Hlusta á þær. Það má gera hvar sem er, á göngu, á skokki eða í sundi. Þegar maður þekkir sitt fólk orðið vel er auðveldara að skrifa kaflana. Nú þegar þetta er skrifað í nóvember 2002 er Flateyjargáta nýlega komin út. Persónur hennar sitja ennþá dálítið fastar í mér en nú verð ég að ýta þeim út og búa til pláss fyrir nýjar.
Viktor Arnar Ingólfsson, 2002
Um höfund
Viktor-Arnar-Ingólfssonargátan: eða, það er gaman að glíma við gátur Viktors
Það er óhætt að segja að rithöfundarferill gátusagnahöfundarins Viktors Arnars Ingólfssonar sé nokkuð sérstakur og mætti jafnvel læra af honum dálitla lexíu um viðhorf Íslendinga til afþreyingarefnis og sögu glæpasögunnar á síðustu árum.
Rithöfundarferill Viktors skiptist í tvo hluta, því þrátt fyrir að hann sé nokkuð vel þekktur í dag fyrir sögu sína Engin spor frá árinu 1998 og Flateyjargátu (2002), sem hefur þegar vakið nokkra athygli, þá eru fáir sem vita að fyrir rúmum tveimur áratugum sendi hann frá sér tvær sögur, sem einnig sverja sig í ætt við afþreyingarefni. Þetta eru Dauðasök frá 1978 og Heitur snjór frá 1982. Líkt og ég hef áður lýst í umfjöllun um Arnald Indriðason voru þetta ár tilrauna með glæpasöguútgáfu, en Gunnar Gunnarsson og Ólafur Haukur Símonarson gáfu einmitt út lögreglusögur á þessum árum.
Þrátt fyrir að nýrri skáldsögur Viktors sverji sig í ætt við hefðbundnar löggusögur, líkt og sögur Gunnars og síðar Arnaldar, þá voru fyrri bækurnar tvær skyldari spennusögunni, þrátt fyrir að í báðum sögum komi fyrir rannsóknarlögreglumenn sem vinna að þeim málum sem sögurnar fjalla um. Í Dauðasök er hlutverk þessa rannsóknarlögreglumanns þó mjög lítið og það er ekki fyrr en í lok sögunnar sem lesandi kemst að því að hann hafði lagt útlínur atburðanna frá upphafi. Sagan er samtímasaga og tekur á þeirri tegund hryðjuverkaógnar sem þá ríkti, flugránum. Þjóðverjar voru sérlega framarlega í hryðjuverkum enda gerist sagan að hluta til í Þýskalandi. Þar vinnur þýskur lögreglumaður við að uppræta hryðjuverk og í rannsókn sinni kemst hann á slóð ungrar konu sem flýgur til Íslands. Inn í söguna blandast svo orðrómur um árás á þýska sendiráðið í Reykjavík og ung brúðhjón á leið í brúðkaupsferð. Þegar þýski lögreglumaðurinn kemur til Íslands er hann skilríkjalaus og því tekinn fastur. Honum tekst að sleppa úr haldi og ræðst gegn hryðjuverkamönnunum, en framganga hans er svo klaufaleg og hlaðin misskilningi um stöðu mála að ekki vill betur til en að hann er tekinn til fanga ásamt farþegum á leið með rútu til flugvallarins. Síðasti hluti bókarinnar lýsir svo gíslatökunni og afleiðingum hennar.
Sagan er örstutt og minnir meira á nóvellu en skáldsögu og þrátt fyrir að á henni sé mjög greinilegur byrjendabragur, þá er hún liðlega skrifuð og nokkuð athyglisverð. Ekki síst fyrir fremur vel heppnað samspil alþjóðlegrar hryðjuverkaógnar og stöðu Íslands. Það er heldur ekki úr vegi að rifja upp að hryðjuverk eru ekki ný af nálinni, þó aðferðirnar séu nú orðnar aðrar og viðhorfin til hryðjuverka sömuleiðis önnur og samstaða milli þjóða gegn slíku ofbeldi mun meiri.
Heitur snjór lýsir sömuleiðis íslensku sakleysi gagnvart hinum stóra heimi, en þar er sagt frá eiturlyfjum eins og nafnið gefur til kynna. Sagan byrjar í eyðimörk Norður-Afríku þaðan sem ópíumi er smyglað frá miðausturlöndum til Tyrklands og þaðan til Bandaríkjanna og Evrópu. Líkt og var áberandi í Dauðasök er öll rannsóknarvinna vel af hendi leyst og Viktor skapar trúverðugt andrúmsloft í kringum atburðarásina. Í næsta kafla erum við stödd í New York, en þar tekst lögreglumönnum loks að hafa hendur í hári eiturlyfjasala, sem verður þess valdandi að hringurinn slitnar. Þá lendir hinn íslenski smyglari og birgðamaður í vandræðum og flýr heim með nokkur kíló af hreinu heróíni. Eftir nokkra umhugsun ákveður hann að reyna að koma efninu í verð á Íslandi og lýsir sagan afleiðingum þessa. Inn í söguna af Arnþóri glaumgosa og smyglara blandast svo saga af fremur venjulegum hópi unglinga, sem verða eiturlyfjunum að bráð, með nákvæmlega sömu aðferðum og enn er verið að lýsa í dag: þeim er fyrst gefin ókeypis prufa.
Þrátt fyrir að vera um margt áhugaverð og framsýn er sagan ekki eins vel heppnuð og Dauðasök og kemur þar helst til að heimur unglinganna er óþarflega flatneskjulegur, og hegðun þeirra ekki alltaf nógu trúverðug – en viðmið trúverðugleikans er hefðbundið þegar kemur að því að meta sögur af þessu tagi!
Líkt og Dauðasök er sagan stutt og í síðari hlutanum kynnir höfundur til sögunnar ansi skemmtilegt lögregluteymi sem minnir dálítið á lögregluteymið í Engum sporum. Annars minna þessar fyrri sögur Viktors meira á sögur Birgittu Halldórsdóttur en þær glæpasögur sem mestum vinsældum hafa átt að fagna, bækur Arnaldar, Árna Þórarinssonar og Stellu Blómkvist og Engin spor Viktors sjálfs. Líkt og Birgitta gæðir Viktor fyrri sögur sínar ákveðnum glamúr og drama með því að sviðsetja þær að hluta til erlendis og tengja þær örlagaríkum heimsmálum, eins og hryðjuverkum og eiturlyfjum. Stíllinn er einnig svipaður, en sögurnar eru skrifaðar á hefðbundnu ritmáli hinnar íslensku dægurmenningarsögu. Þess má geta að fyrsta saga Birgittu kemur einmitt út árið 1983 og fylgir því beint í kjölfar þessara dægurmenningarhræringa í bókmenntalandslaginu. Það þarf því ekki að koma á óvart að bækur Viktors hafi ekki vakið mikla athygli, þegar Birgitta er enn þann dag í dag nánast óþekktur höfundur. Að auki eru þessar dramatísku spennusögur álitnar tilheyra kvennabókmenntum – þó er áhugavert að sjá að nýjasta saga Árna Þórarinssonar, Í upphafi var morðið sem hann skrifar í félagi við Pál Kristin Pálsson (2002) sver sig einnig í ætt við þá glæpasagnahefð sem Birgitta stundar, og því mætti ætla að slíkum sögum sé að vaxa fiskur um hrygg.
Tuttugu árum síðar...
... en ekki alveg þó, því árið 1986 birtist smásaga eftir Viktor Arnar í bók sem gefin var út í tilefni smásagnasamkeppni Listahátíðar Reykjavíkur. Sagan heitir „Slossmæjer“ og er einskonar stef við spennusögu. Kona kallar á lyklasmið til að opna dyr að húsi afa síns sem hún hefur ekki heyrt neitt frá lengi og sem svarar ekki símtölum né dyrabjöllu. Að öðru leyti er hljótt um Viktor Arnar í sextán ár, þar til Engin spor varð ein óvæntasta og ánægjulegasta uppgötvun ársins 1998.
Þó sagan af því hvernig fór með útgáfumál á Engum sporum sé ekki nema að litlu leyti opinber langar mig að leggja hér aðeins út af henni. Viktor Arnar hafði gengið með handrit sitt milli útgefenda og fengið ýmsar athugasemdir, sem margar hverjar komu að góðu gagni, en aldrei tókst honum að sannfæra neinn um að gefa söguna út, og gerði það því að lokum sjálfur. Þetta var árið 1998, og árið áður hafði Arnaldur sent frá sér sína fyrstu bók, Syni duftsins. Það ár kom einnig fyrsta bók Stellu Blómkvist, í kilju, og svo auðvitað hin árlega bók Birgittu. Þrátt fyrir að bækur Arnaldar og Stellu hefðu vakið nokkra athygli treystu bókaútgefendur ekki meira en svo á framgang formsins að þrátt fyrir að Arnaldur fengi aðra glæpasögu útgefna, Dauðarósir, þá fékk Engin spor engan hljómgrunn – en sló svo í gegn meðal lesenda, enda án vafa besta glæpasaga þessa árs. (Og reyndar næsta árs á eftir, það var ekki fyrr en með Mýrinni sem fram kom krimmi sem jafnaðist á við Engin spor.) Síðar á árinu var hún svo endurútgefin í kilju hjá Máli og menningu, einu þeirra útgáfufyrirtækja sem hafði hafnað bókinni á sínum tíma. Án þess að vilja gagnrýna forlagið á neinn hátt, þá sýnir þessi saga hversu stutt er síðan íslenskar glæpasögur þóttu ótraust útgáfa, og hversu litla trú útgefendur höfðu á því að íslenskir rithöfundar gætu haslað sér völl með þessu formi.
Í Engin spor söðlar Viktor Arnar um og fer þá leið að staðsetja sinn glæp í fortíðinni, nánar tiltekið á áttunda áratugnum. Flateyjargáta gerist einnig í fortíð, eða á sjöunda áratugnum og verður að segjast að þessi dálítið rólegi og búralegi fortíðarbragur fer Viktori Arnar mun betur en samtímaglamúrinn í fyrri bókunum.
Engin spor hefst á því að í stórhýsi við Birkihlíð finnst miðaldra maður látinn á miðju stofugólfi. Hann lést af skotsári og lögreglan rannsakar málið sem glæpamál. Fljótlega kemur í ljós að sviplegum dauðdaga Jacobs Kieler yngri svipar mikið til, og er eiginlega nákvæmlega eins og kringumstæðurnar við fráfall föður hans, en sá hafði einnig fundist látinn af skotsári á miðju stofugólfi í þessu sama húsi, einum þrjátíu árum áður. Það mál var einnig rannsakað sem sakamál og er enn óleyst því morðinginn fannst aldrei. Þessi tvö mál fléttast svo saman og rannsókn lögreglunnar felur meðal annars í sér lestur á dagbókum föðurins, sem var mikill áhugamaður um járnbrautir og dreymdi um að leggja eina slíka um Reykjavík.
Í þessu hliðarstefi sem lýsir annarsvegar ástandinu í Evrópu fyrir stríð og stríðsárum á Íslandi notfærir Viktor Arnar sér möguleika glæpasögunnar út í ystu æsar, en það er löng og góð hefð fyrir því að láta sakamálasögur segja meira en sögu af glæp. Sögusvið Engra spora er að hluta til hin síðbúna iðnbylting Íslendinga, dagbækurnar fá veigamikið hlutverk og gefa skáldsögunni sögulega breidd, jafnframt því að keyra frásöguna áfram og skapa lykilinn að lausninni. Þannig fléttast saga tækniþróunar á Íslandi inn í sakamálasöguna, enda er það á endanum verkfræðikunnátta sem er lykillinn að lausninni. Jafnframt er saga Viktors vel spunnin glæpasaga, sem kemur meðal annars fram í sköpun andrúmslofts og persóna, lögregluteymið er vel heppnað og sannfærandi, ekki síst aðalmaðurinn Jóhann, sem er sérmenntaður í „Forensic Science“ og hann kallar réttarvísindi. Þetta fag er næsta nýstárlegt á þessum tíma hjá íslenskri lögreglu.
Ekki má heldur gleyma útfærslunni á lausninni, sem ég hef tvisvar ýjað að, og nú bið ég lesendur velvirðingar á því að þurfa að eyðileggja ánægju þeirra sem ekki hafa lesið bókina (né Flateyjargátu). Fyrir þá væri kannski best að hætta lestrinum hér og skoppa niður um nokkrar línur, þartil ég kem að umfjöllun minni um Flateyjargátu.
Því lausn Viktors reynist á endanum langt frá því að vera hefðbundin, þrátt fyrir að hann hafi byggt upp þetta fullkomlega hefðbundna svið ásamt lögreglurannsókninni, þá velur hann þá leið að láta glæpinn alls ekki vera glæp – eða allavega ekki morð. Því Jacob eldri hafði fundið, með sinni nýtilegu verkfræðikunnáttu, hreint frábæra leið til að fremja sjálfsmorð sem liti ekki út fyrir að vera sjálfsmorð, heldur glæpur, og þannig fá út líftryggingu sem myndi tryggja að kona hans gæti áfram lifað því lífi sem hún var vön. Og Jacob yngri uppgötvar þetta og notfærir sér á sama hátt og með sama markmið í huga, að þurfa ekki að selja húsið, ættarsetrið.
Ekki virðast þeir þó hafa haft miklar áhyggjur af afleiðingum gjörða sinna, en þær voru nokkuð alvarlegar í báðum tilfellum. Til dæmis var verkamaður nokkur ákærður fyrir morðið á Jacobi eldra og hafði sú ákæra að vonum slæmar afleiðingar fyrir hann og fjölskyldu hans. Þannig fléttar Viktor Arnar stéttaskiptingu þessa tíma einnig inn í sögusvið sitt.
Árið 2000 ákvað Félag Íslenskra bókaútgefenda að sú bók sem gefin yrði viðskiptavinum bókabúða í viku bókarinnar yrði raðglæpasaga. Félagar í nýstofnuðu Glæpafélagi Íslands voru beðnir að taka verkefnið að sér, en meðal félagsmanna þess eru bæði rithöfundar og aðrir velunnarar glæpasögunnar. Það var við hæfi að Viktor Arnar, ritari félagsins, tók að sér að byrja söguna Leyndardómar Reykjavíkur, og skrifar hann fyrsta kaflann sem lýsir líkfundi þeim sem setur atburðarásina af stað. Sagan er skrifuð í anda harðsoðna krimmans og sýnir Viktor barasta ágæta takta í glímunni við það form.
Með tilliti til þess að Viktor kýs að leysa úr flóknum þráðum sagna sinna á næsta óvenjulegan hátt er ekki að furða að hann kjósi að tala um gátusögur, en það er heiti sem á mjög vel við hans eigin glæpasögur, eins og kemur fram í titlinum á fjórðu bók hans, Flateyjargáta. Þó ber hún undirtitilinn „glæpasaga“.
Á einni af fjölmörgum óbyggðum smáeyjum Breiðafjarðar finnst dauður maður, og eitthvað er bogið við það hvernig dauða hans bar að, því það er í hæsta máta óeðlilegt að maðurinn skuli hafa dagað þarna uppi. Engir skipsskaðar hafa orðið og einskis manns er saknað úr nágrenninu. Nýútskrifaður lögfræðingur sem stefnir á að verða möppudýr er sendur til Flateyjar til að kanna málið og skrifa um það skýrslu, en honum er þessi umsýsla með lík og eftirgrennslanir mjög á móti skapi. Þó verður hann að rækja skyldur sínar í félagi við hreppstjóra eyjarinnar og kemst fljótlega í kynni við hrifningu eyjarbúa af Flateyjarbók, einu stærsta handriti Íslendinga, sem er einskonar safnverk og geymir Konungasögur, Íslendingaþætti, Grænlendingasögur og fleiri skrif. Flateyjargátan sjálf er svo getraun sem sett hefur verið saman um bókina, og fléttast glíman við hana og lausn hennar inn í málið, en hinn dauði er danskur prófessor sem heimsótti Flatey til að kynna sér umhverfi þessarar miklu bókar og reyna að ráða gátuna. Hann var einn þeirra dönsku fræðimanna sem reyndu að koma í veg fyrir að handritin yrðu afhent Íslendingum til umsjónar og geymslu, en sagan gerist árið 1960 þegar umræður um þetta mál standa hátt, og þannig er bæði handritunum sjálfum og handritamálinu blandað í söguna.
Líkt og í Engum sporum er sagan því tvíþætt, þarsem skiptast á samtímasögusviðið og valdir kaflar út Flateyjarbók, sem fela í sér lykilinn að gátunni. Þeir kaflar eru þannig framsettir að lesandinn veit að tvær persónur sögunnar eru að glíma við gátuna, en hann veit ekki fyrr en undir lokin hvaða persónur það eru. Á stundum kallast aburðir þeir sem lýst er í tilvitnununum við atburði sem eiga sér stað í köflunum.
Eins og í Engum sporum er öll sviðsetning með afbrigðum vel heppnuð, og Viktor teiknar hið örsmáa Flateyjarsamfélag svo listilega upp að lesandanum finnst hann bókstaflega vera mættur á staðinn. Persónur, hús og hið hversdagslega líf staðarins, allt hefur á sér skemmtilegan og áreynslulausan fortíðarblæ, sem ber aldrei í sér þá fortíðarhyggju sem svo oft einkennir sögulegan skáldskap, eða baklit í tíma.
Núnú, svo náttúrlega verða allskonar dularfullir atburðir, annar maður finnst dauður, að þessu sinni í kirkjugarðinum og hefur honum verið ristur blóðörn, en slík athöfn kemur einmitt fyrir í Flateyjarbók. Þannig er skemmtilega gefið í skyn að morðin séu snjallar en dálítið sjúklegar eftirmyndir ýmissa dauðdaga úr sögum bókarinnar. Í ljós kemur að á eyjunni býr fólk sem hefur tengsl við danska prófessorinn, og reyndar er ólíklegasta fólk sem kemur að málinu tengt á óvæntan hátt. Í stuttu máli er allt eins og á að vera í góðri glæpasögu. Fortíð málsaðilja blandast í málið, sem er að lokum leyst eins og vera ber – og er lausnin í anda þeirrar útgáfu glæpasagnalausna sem birtist í Engum sporum.
Það er ljóst að á þeim tuttugu árum sem líða á milli fyrstu tveggja skáldsagna Viktors Arnars og næstu tveggja (en það eru nákvæmlega tuttugu ár á milli þeirrar fyrstu og þeirrar þriðju, 1978/1998 og milli annarar og fjórðu, 1982/2002) hafa orðið vatnaskil í tökum hans bæði á formi og stíl. Við hljótum þó að vona að hann láti ekki líða önnur tuttugu ár áður en hann gefur út næstu tvennu.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Um einstök verk
Afturelding
Ingvi Þór Kormáksson: „Afturelding“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Flateyjargáta
Aðalbjörg Bragadóttir: „Blóðörn í Flatey: um Flateyjargátu eftir Viktor Arnar Ingólfsson“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69tbl. s. 5-16.
Verðlaun
Tilnefningar
2004 - Skandinaviska Kriminalselskabet - Glerlykillinn: Flateyjargáta
2001 - Skandinaviska Kriminalselskabet - Glerlykillinn: Engin Spor
Sun on Fire
Lesa meiraDaybreak
Lesa meiraFlatøgåden
Lesa meiraL’énigme de Flatey
Lesa meiraThe Flatey Enigma
Lesa meiraL´enigma di Flatey
Lesa meiraHouse of Evidence
Lesa meiraHouse of Evidence (hljóðbók)
Lesa meiraSmásaga í Kalkül & Leidenschaft
Lesa meira