Þitt eigið ævintýri
Lesa meira
Þitt eigið ævintýri
Þitt eigið ævintýri er fjórða Þín eigin-bók Ævars Þórs Benediktssonar (sem einnig er þekktur sem Ævar vísindamaður) þar sem lesandinn er sjálfur aðalpersónan og fær að ráða því hvaða stefnu sagan tekur, eða svona að mestu leyti. Sögurnar fylgja allar sömu grunnhugmynd og eru byggðar upp á svipaðan hátt; aðalpersónan er lesandinn sjálfur og sagan er sögð í annarri persónu, sem er óvenjulegt og kannski svolítið truflandi í fyrstu en venst furðuvel. Sagan fylgir hefð þeirrar sögutegundar sem hún tekur fyrir, svo sem þjóðsögu eða hrollvekju, og lesandinn fær í lok hvers kafla oftast tvo eða þrjá valkosti um hvernig hann vilji að sagan haldi áfram. Söguþræðirnir geta því orðið fjölmargir og eru mislangir. Stundum endar sagan allt í einu, yfirleitt á hræðilegan hátt, en stundum er hægt að þræða sig áfram í gegnum lengri sögur og jafnvel fá hana til að enda vel. Í Þínu eigin ævintýri eru það, eins og titillinn ber með sér, ævintýri sem eru grunnur sögunnar og eftir stutta kynningu á því hvernig þau virka almennt hefst sagan.