Beint í efni

Fásinna

Fásinna
Höfundur
Horacio Castellanos Moya
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Davíð Kjartan Gestsson

„Ekki nokkur maður með réttu ráði hefði áhuga á að skrifa eða birta eða lesa enn eina skáldsöguna um myrta frumbyggja,“ segir ónefndur sögumaður Fásinnu, nóvellu salvadorska rithöfundarins Horacio Castellanos Moya sem hverfist um – jú – myrta frumbyggja. Umræddur sögumaður hefur hlotið það verkefni að prófarkalesa 1100 blaðsíðna skýrslu um kerfisbundið þjóðarmorð herstjórnar á Maya-indíánum í ótilgreindu ríki í Mið-Ameríku. Vinnuveitandinn er kaþólska kirkjan, sem ljóst er að sögumaðurinn ber takmarkað traust til, og óttast hann afleiðingar þess að taka að sér verk af þessu tagi því mennirnir sem bera ábyrgð á þjóðarmorðinu eru enn í valdastöðum í þjóðfélaginu. Sama hversu mikið hann reynir að fjarlægja sig skýrslunni, með drykkju og kynórum, þá leitar vitnisburður eftirlifenda stöðugt á hann, og hann sér launsátursmenn í hverju horni. Landið sem um ræðir er aldrei nefnt í verkinu, en ýmsar vísbendingar benda til þess að það er Gvatemala, þar sem borgarastyrjöld ríkti frá 1960-1996. Á þessum árum stóð herstjórn landsins fyrir skipulagðri útrýmingu á innfæddum íbúum landsins, þar sem yfir 200.000 indíanar voru myrtir eða pyntaðir á hrottafenginn hátt. Um þjóðarmorðið var unnin skýrsla af kaþólsku kirkjunni, líkt og í Fásinnu, og eiga brot úr henni að hafa ratað inn í verkið.

Sögumaðurinn verður gagntekinn af vitnisburðum frumbyggjanna, en bjagað tungumál þeirra skekur þá þegar veikar undirstöður geiðheilsu hans. Viðtölin fara fram á spænsku, máli sem er ekki tamt frumbyggjunum, eða eru þýdd af vanmætti úr tungumáli indíánanna yfir á spænsku. Þessi mikla áorkun tungumálsins undirstrikar togstreituna milli tungumála kúgaðs og kúgara. Í hrottafengnum lýsingum á pyntingum, nauðgunum og morðum, greinir prófarkalesarinn ákveðna ljóðrænu – hann sér fegurð í þjáningunni – og verður heltekinn af minningum fórnarlambanna. Sálarlíf og tungumál hans smitast af framandlegri setningabyggingu vitnisburðanna. Hann ryður stöðugt út úr sér tilvitnunum í skýrsluna og mörkin milli hugarástands hans og fórnarlambanna þurrkast út: „Fyrir mig að rifja upp, þá líður mér eins og ég sé að upplifa aftur, setningarbyggingin bar þess vott að eitthvað hefði brostið í sálarlífi eftirlifandans sem þessi orð mælti, orð sem í einu og öllu áttu við um sálarástand mitt ...“

Sögumaður Fásinnu er grátlega hlægileg persóna. Smásálarlegur, sjálfhverfur drykkjusjúklingur og kynósa hrakfallabálkur. Þetta er vissulega gráglettið verk, og úr því samspili – milli gálgahúmors og hinna raunverulegu voðaverka sem tekin eru til skoðunar – verður til ónotalegur núningur, milli háðs og hroða, sem skerpir á biti bókarinnar. Söguhetjan, ef kalla má, verður ekki að skinhelgum málsvara hinna kúguðu. Hann getur ekki horfst í augu við voðaverkin til langs tíma, hrekkur frá prófarkarvinnu sinni og dembir sér í drykkju, kynóra og paranoju. Þegar hann kemst að því að falleg og dularfull kona, sem hann hefur haft augastað á, sé fórnarlamb þeirra skipulögðu nauðgana sem herinn beitti í markvissri útrýmingu sinni á frumbyggjunum getur hann ekki fengið sig til að mæta ásýnd hennar. Hann hafði gert sér í hugarlund að hún væri „vafin sárabindum og þakin marblettum og blóðugum fleiðrum, ásýnd stúlku sem hafði verið lamin vægðarlaust af kvölurum sínum til að hún játaði ... stúlku sem var steypt niður í víti sjálft í viku með óbótabarsmíðum og nauðgunum sem rifu í sundur sköp hennar og endaþarm ...“ Ofbeldið er á köflum yfirgengilegt og sannreynir það, innan verksins og utan, að ekki þarf að greina það með augum eða finna fyrir því á eigin skinni til að það hafi áhrif. Þetta er verk sem er ofið úr valdbeitingu, örvæntingu og reiði – grundvallað á ofbeldi og geðveilu.

Á baksíðu bókarinnar segir að Moya sé á meðal helstu rithöfunda rómönsku Ameríku um þessar mundir. Af Fásinnu að dæma er lítil ástæða til að efast um það. Hún er stutt í blaðsíðum talið – sirka einn tíundi skýrslunnar umræddu – og það má vel lesa hana til enda í einni setu. En þetta er afar áleitið verk og situr í manni nokkru eftir að lestri er lokið þökk sé áhrifaríkri samverkun stíls og efnis. Iðulega er bent á þann samhljóm sem skáldverk Moya hafa með bókum Thomas Bernhard, austurrísks rithöfundar sem skrifaði gjarnan samfelldan, punktasnauðan texta án málsgreinaskiptinga. Fásinna er vissulega skrifuð í þeim anda og það er auðvelt að gleyma sér í orðaflaumnum – setningum sem ná yfir tvær ef ekki þrjár blaðsíður – en þetta er texti sem krefst fullrar einbeitingar og íhugunar. Ég leyfi mér að segja að þýðingin sé vel unnin, án þess þó að geta borið hana saman við frumtextann, en íslenskan rennur greitt og á þýðandinn, Hermann Stefánsson, skilið klapp á bakið fyrir vel unnið verk.

Síleski rithöfundurinn goðmagnaði, Roberto Bolaño, vinur og bókmenntalegur ættingi Moya, hafði þetta að segja um verk hans: „Þjóðernissinnar þola þau ekki. Beitt skopskyn þeirra, ekki ólíkt kvikmynd með Buster Keaton eða handsprengju, ógnar viðkvæmum stöðugleika fábjána sem fá óstjórnlega löngun til að hengja rithöfundinn á þorpstorginu eftir að hafa lesið þau. Ég get ekki hugsað mér meiri heiður fyrir rithöfund.“ Þetta er skörp lýsing og meðmælin gerast líklega ekki mikið betri. Fásinna er ónotaleg, en hún er þarft og mikilvægt bókmenntaverk um raunveruleg voðaverk úr samtíma okkar, sem furðu lítið hefur farið fyrir.

Davíð Kjartan Gestsson, október 2011