Beint í efni

Feimnismál

Feimnismál
Höfundur
Sigrún Davíðsdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Þorgerður E. Sigurðardóttir

Það er ekki á hverjum degi sem fjallað er um samband eldri konu og yngri manns í íslenskum bókmenntum en það er mikilvægur þáttur í nýrri skáldsögu Sigrúnar Davíðsdóttur og er eitt af feimnismálunum í bókinni sem titillinn vísar til. Hér segir frá Eddu sem hefur búið erlendis frá unga aldri, fyrst í París og svo í New York með reglulegri viðkomu á Ítalíu. Þegar hér er komið sögu hefur hún verið ekkja um nokkurt skeið en hún var lengi gift töluvert eldri manni sem var ljósmyndari og nú stendur til að halda yfirlitssýningu á verkum hans. Að því tilefni velur Edda ungan íslenskan ljósmyndara búsettan í New York til að taka myndir af sér í sýningarskrá og heillast ljósmyndarinn af Eddu. Sagan skiptist í þrjá hluta, í fyrsta hlutanum skiptast á kaflar þar sem fjallað eru um fyrstu kynni Eddu og ljósmyndarans Jóns og hinsvegar uppvaxtar- og ævisaga Eddu fram að andláti eiginmannsins. Í öðrum hluta eru Edda og Jón stödd í Napolí og Edda kynnir borgina fyrir Jóni en í þriðja hluta eru þau komin til Íslands en þar vinna þau saman að ljósmyndaseríu. Þannig eru kynni þeirra mikið til í forgrunni, sérstaklega þegar líða tekur á.

Það áhugaverðasta við þessa bók eru tvímælalaust hugmyndirnar um þjóðernið og tungumálið. Edda hefur ekki búið á Íslandi í áratugi og að mestu leyti misst áþreifanleg tengsl sín við landið þó það búi á einhvern hátt í henni. Hún virðist nánast aldrei hitta Íslendinga fyrr en hún hittir Jón og þá tala þau saman á ensku, hún hefur mótað tilveru sína á frönsku, ensku og ítölsku og hvert tungumál hefur ákveðið hlutverk í lífi hennar og hentar ákveðnum aðstæðum. Íslenskan blundar þó í henni og hún talar hana lýtalaust, en móðurmálið hefur hreinlega ekki verið nauðsynlegt fyrir það líf sem hún hefur fram að þessu valið sér. Þar verður breyting á í þessari sögu þar sem íslenskan fær hlutverk. Í raun er þetta nokkuð róttæk hugmynd, við erum vön því að Íslendingar sæki í samlanda sína í útlöndum, fari á þorrablótin og sautjánda júní fagnaðina og noti hvert tækifæri til að tengjast samlöndum sínum og taka þannig þátt einhverri sameignlegri hugsun og menningu sem tengir landana saman. En kannski er þjóðernið bara blekking, kannski eigum við hvergi heima eða öllu heldur allsstaðar, kannski hefur tungumálið eitthvað allt annað og persónulegra hlutverk en að árétta hlutverk okkar sem Íslendinga? Pælingarnar kringum þessa hluti eru spennandi, íslenskan er feimnismál og Edda veit ekki alveg hvernig hún á að nálgast uppruna sinn. Hlutverk tungumálsins er gríðarlega huglægt og persónulegt hérna og vekur upp ýmsar spurningar hjá lesandanum.

Jafnframt finnst mér sagan um fortíð Eddu nokkuð áhugaverð, en hún er ævintýri líkust. Hún flytur til Parísar nýskriðin úr menntaskóla á tímum stúdentabyltingarinnar 1968 og verður fyrir áhrifum af þeirri baráttu allri. Lífshlaup hennar er spennandi, hún giftist miklum listamanni og flytur með honum milli landa og tekur þátt í lífi hans. Þessi saga er jú kunnugleg, sagan af konunni sem gengst listamannsferli mannsins síns á hönd og gefur þar með eigin frama upp á bátinn, sér um hans mál og verður hluti af starfi hans á illskilgreinanlegan hátt. En það er fróðlegt að fylgjast með því hvernig svona líf verður til, hvernig líf hennar verður svona en ekki einhvern veginn öðru vísi en það er þó athyglisvert að sjaldan virðist sú spurning koma upp í huga hennar hvort hún hefði kannski átt að fara í frekara nám, vinna við eitthvað utan heimilisins og svo framvegis. Edda er að mörgu leyti heillandi persóna en á einhvern furðulega innhverfan hátt. Það kemur fram að hún hefur meðfædda skyggnigáfu og því næmi fyrir umhverfinu og hún hefur hæfileika til þess að segja sögur. En samt nýtir hún þennan áhuga ekki beint, að minnsta kosti ekki framan af, af hverju er hún ekki rithöfundur? En þar kemur kannski til þessi feimni við tungumálið og í staðinn býr hún sitt eigið líf til, það virðast ekki vera til neinar sögur handan hennar þess. Það er eins og hún sé alltaf að fínpússa eigið líf, setja eigin upplifanir í samhengi og velta þeim fyrir sér.

Þetta gerir persónuna spennandi en stundum verður þetta líka nokkuð tilgerðarlegt. Allt í útliti hennar og umhverfi er úthugsað, hún nálgast allt og alla á sama íhugula háttinn, hver stund er fagurfræðileg upplifun. Það verður að segjast eins og er að þetta virkar stundum heillandi, hvern dreymir ekki stundum um að búa á smekklega innréttuðu listamannalofti í forframaðri borg og borða bara ferskan og fallega fram borinn mat með tilheyrandi nautnatilfinningum? Þetta er svona líf sem flest okkar upplifa í hönnunar- og matreiðslublöðum. Lýsingar á umhverfi og atlotum eru stundum nautnalegar og fallegar en það er of mikið um endurtekningar og stundum verða þær upphafnar og klisjukenndar, það er einhvern veginn erfitt að trúa á þennan heim.

Jón er hinsvegar ekki sagnamaður og veltir sínu eigin lífi ekkert sérlega mikið fyrir sér. Hann sér lífið í myndum og þessi munur á Eddu og Jóni kemur fram í fyrsta hlutanum þar sem kaflar úr ævisögu hennar kallast ævintýri en kaflarnir í nútímanum þar sem sjónarhorn Jóns er ríkjandi kallast myndir. Hann fær mikinn áhuga á þessari konu sem er mikil andstæða fyrirsætukærustunnar Lisu sem er nokkuð eftir bókinni, falleg og framagjörn. Eins og fyrr segir hefst bókin á því að Jón hefur fengið það verkefni að taka myndir af Eddu sem hann hefur aldrei hitt og fyrst kynnist lesandinn henni bókstaflega í gegnum linsu ljósmyndarans. Þetta er spennandi sjónarhorn og kemur vel út í byrjun. Þegar á líður vantar töluvert upp á það að sambandið virki nægilega sannfærandi, ástarjátningar Jóns eru yfirdrifnar miðað við persónugerðina sem lagt er upp með. Þegar líða tók á lesturinn fannst mér of mikið um endurtekningar, þessi innhverfa öll er tjáð í of mörgum orðum en þó er iðulega verið að segja það sama aftur og aftur. Þarna hefði hreinlega mátt stytta og skerpa.

Það var þannig stundum erfitt að halda sig við þennan glansheim sem er bæði heillandi í stærð sinni og þreytandi í smæð sinni. En það eru vissulega áhugaverðar hugmyndir um tungumál og þjóðerni hérna og það hefði mátt skerpa á þessum hugmyndum með því að hafa textann styttri og hnitmiðaðri. Svo er auðvitað líka hressandi að lesa um ungan mann sem heillast af miðaldra konu, jafnvel þó miðaldra konan í þessu tilviki sé sérlega ungleg og gjarnan lýst sem stelpulegri. Edda er enginn boldangskvenmaður með stíflakkað hár og hvatarklút reyrðan um hálsinn sem tónar við dragtina, öðru nær. Boðskapurinn er þannig býsna tvíeggja, andlegur og vitsmunalegur þroski samfara unglegu útliti er víst málið, líklegast er það hluti af draumnum, en áréttar að þessi saga er bara ævintýri um fegurðina.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, desember 2006