Um bókina
Skáldsagan Tuck Everlasting eftir bandaríska höfundinn Natalie Babbitt í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíassonar.
Úr Fólkinu sem gat ekki dáið
Forspjall
Fyrsta vikan í ágúst hangir efst á sumrinu, efst á öllu árinu, líkt of hæsta sætið í Parísarhjóli þegar það gerir hlé á hringferð sinni. Vikurnar sem koma á undan eru aðeins stighækkandi sæti upp frá ilmandi vorinu, og þær sem á eftir fylgja eru fall niður í svala haustsins; en fyrsta vikan í ágúst er kyrrstæð, og heit. Hún er líka undarlega hljóðlát, þar sem skiptast á móðukennd hvít dögun, glampandi síðdegi og sólsetur með ofgnótt lita. Að nóttu til eru oft eldingar, en þær leiftra aleinar. Það er engin þruma, ekkert regn sem leysir allt úr læðingi. Þetta eru undarlegir og spennandi dagar, hundadagar, þegar fólk leiðist út í að gera hluti sem það sér eftir síðar meir.
Dag einn um þetta leyti, fyrir ekki svo mjög löngu, gerðist þrennt sem í fyrstu virtist ekki tengjast með nokkrum hætti.
Í dagrenningu lagði Mae Tuck af stað á hesti sínum áleiðis til skógarins utan við þorpið Treegap. Einsog hún gerði á tíu ára fresti, var hún að fara þangað til að hitta syni sína tvo, Miles og Jesse.
Um hádegisbilið missti Winnie Foster þolinmæðina að lokum og ákvað að flýja að heiman. Það var fjölskylda hennar sem átti þetta skóglendi utan við Treegap.
Og við sólsetur birtist ókunnugur maður við hliðið hjá Fosterfjölskyldunni. Hann var að leita að einhverjum, en sagði ekki hver það væri.
Engin tengsl, mundi maður ætla. En hlutirnir geta spunnist saman á undarlegan máta. Skógurinn var í miðju, sjálf hjólnöfin. Öll hjól verða að hafa nöf. Þannig er með Parísarhjólið, og á sama hátt er sólin hjólnöf árstíðanna. Þetta eru föst viðmið, og best er að hrófla ekki við þeim, því án þeirra gliðnar allt í sundur. En stundum kemst fólk að þessu of seint.
(5-6)