Þann 13. nóvember 2013 eru 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur minnst þessara tímamóta með ýmsum hætti á árinu en hátíðahöldin ná hámarki á sjálfan afmælisdaginn. Margrét Þórhildur Danadrottning heiðrar Íslendinga og stofnunina með því að vera viðstödd þá viðburði sem efnt er til þennan dag í minningu Árna og hans ómetanlega söfnunarstarfs.
Handritasafn Árna er varðveitt sameiginlega af Íslendingum og Dönum og er ríflega helmingur þess í umsjá Árnastofnunar í Reykjavík.
Dagskrá:
Afmælisfyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands
Kl. 13.30 heldur dr. Annette Lassen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, Afmælisfyrirlestur Árna Magnússonar í hátíðasal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber heitið
Sagaer i samtiden: Árni Magnússons storslåede arv en þess má geta að Annette Lassen er ritstjóri nýrrar danskrar þýðingar allra Íslendingasagna sem kemur út á nýju ári.
Ný sýnisbók handrita
Í tilefni dagsins gefa Árnastofnanirnar í Reykjavík og Kaupmannahöfn og Bókaútgáfan Opna út veglega sýnisbók handrita sem ber heitið
66 handrit úr fórum Árna Magnússonar. Bókin er ríkulega myndskreytt og í hana skrifa 35 fræðimenn skemmtilega pistla um þær gersemar sem finna má í fjölbreyttu handritasafni Árna.
Hin fágæta Teiknibók — sýning og bók
Síðdegis verður opnuð í Gerðarsafni, Kópavogi, nýstárleg sýning á handritum, þar sem hið dýrmæta handrit
Teiknibókin verður í forgrunni. Teiknibókin inniheldur safn fyrirmynda sem listamenn fyrri alda nýttu sér, t.d. er þeir
lýstu handrit eða máluðu
altarismyndir. Bókin er sú eina sinnar tegundar sem varðveist hefur á Norðurlöndum og fáar henni líka hafa varðveist annars staðar í Evrópu. Sýningarstjóri er Guðbjörg Kristjánsdóttir. Í tengslum við sýninguna gefur forlagið Crymogea út glæsilega bók Guðbjargar um handritið með vönduðum myndum og ítarlegri umfjöllun um þá fjóra listamenn sem lögðu hönd að Teiknibókinni.
Hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu
Kl. 19.30 um kvöldið hefst hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu með þátttöku íslenskra rithöfunda og listamanna. Stjórnandi dagskrárinnar er Bergur Þór Ingólfsson. Hún verður tekin upp og sjónvarpað síðar á RÚV.
Handritasýning í Þjóðmenningarhúsinu
Að lokum skal þess getið að í tilefni afmælisins hefur handritasýning stofnunarinnar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík verið opnuð að nýju tímabundið. Hún verður opin frá og með föstudeginum 8. nóvember, fram yfir afmælisdaginn, frá kl. 11 til 17 alla daga, nema miðvikudaginn 13. nóvember frá kl. 12 til 17. Á sýningunni eru níu merk handrit, þar á meðal hin einstæða Konungsbók eddukvæða sem talin er rituð um 1270. Aðgangur er ókeypis.