Sjöunda ljóðaslamm Borgarbókasafns Reykjavíkur verður haldið á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar 2014. Að þessu sinni er þemað ‚af öllu hjarta‘. Sem fyrr er ljóðaslammið ætlað ungu fólki (frá aldrinum 15-25 ára) og er skilgreint á afar opinn hátt sem einskonar ljóðagjörningur og er áherslan ekki síður lögð á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms. Dagskrár síðustu fjögurra ára hafa einkennst af hugmyndauðgi, krafti og frumleika en fyrri þemu voru ‚spenna‘, ‚hrollur‘, ‚væmni‘, ‚sjálfstæði‘, ‚myrkur‘ og ‚bilun‘. Eina krafan hefur verið sú að flutt væri frumsamið ljóð eða stuttur prósi á íslensku og hafa þátttakendur sýnt dansverk, ör-leikþætti, rapp, fólk hefur sungið og leiklesið ljóð með myndefni svo eitthvað sé nefnt. Fimm manna dómnefnd velur þrjú bestu atriðin. Í henni sitja fyrir hönd Borgarbókasafns María Þórðardóttir leikkona og Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur. Aðrir eru Bragi Ólafsson rithöfundur, Ragnheiður Eiríksdóttir tónlistarkona og Andri Már Enoksson tónlistarmaður. Kynnir er Anna Svava Knútsdóttir. Upptökur af siguratriðunum þremur verða settar á ljodaslamm.is, sem er undirsíða borgarbokasafn.is og á YouTube síðu Borgarbókasafns. Sem fyrr segir er ljóðaslammið haldið á Safnanótt, 7. febrúar 2014, og fer dagskráin fram á aðalsafni Borgarbókasafns að Tryggvagötu 15 og hefst kl. 20:30. Skráningarfrestur er til mánudagsins 27. janúar. Skráningareyðublöð er að finna á öllum Borgarbókasöfnunum, auk þess sem hægt er að skrá sig með tölvupósti hjá Birni Unnari Valssyni, bjorn.unnar.valsson@reykjavik.is. Frekari upplýsingar má nálgast á ljodaslamm.is (sjá borgarbokasafn.is) og hjá Úlfhildi Dagsdóttur (ulfhildur.dagsdottir@reykjavik.is) og Birni Unnari. Facebook viðburður hér.