Beint í efni

Aldrei fleiri þýðingar á erlend mál

Mikil aukning á þýðingum íslenskra verka á erlend mál

„Samstillt átak opinberra aðila og íslenskra bókaútgefenda á síðustu árum við kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis hefur skilað sér í mikilli aukningu á þýðingum íslenskra verka,“ segir í fréttatilkynningu sem Miðstöð íslenskra bókmennta hefur sent frá sér. Tvö ár eru liðin frá því að Ísland var heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt, einu stærsta markaðstorgi bókmennta í heiminum. Íslenskar bókmenntir nutu mikillar athygli á meðan heiðursárinu stóð, í þýskum fjölmiðlum og víðar. Áhrifa heiðursessins gætir enn og nú er svo komið að aldrei fyrr hafa íslenskar bækur verið fáanlegar á jafn mörgum tungumálum.

Fjöldi umsókna tvöfaldast

Fjöldi umsókna um styrki til þýðinga á íslenskum skáldverkum yfir á erlend tungumál hefur tvöfaldast frá árinu  2008. Í tilkynningu Miðstöðvar íslenskra bókmennta kemur fram að í ár hafi hún veitt 75 styrki til þýðinga á 26 tungumál. Þýska hefur löngum verið eitt helsta tungumálið sem íslenskar bókmenntir eru þýddar á en athygli vekur að mikil aukning hefur orðið á þýðingum utan þýska málsvæðisins, einkum yfir á frönsku og ensku. Yfirlit yfir nýlegar þýðingar á frönsku má finna hér. Samantekt íslenskra bóka sem komið hafa út á ensku að undanförnu má finna hér. Á heimasíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta – islit.is – er hægt að nálgast frekari upplýsingar um útgáfu íslenskra bókmennta á erlendri grundu.