Beint í efni

Alice Munro hlýtur Nóbelinn

Í dag, fimmtudaginn 10. október tilkynnti sænska Nóbelsnefndin að kanadíski rithöfundurinn Alice Munro hljóti Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár. Í tilkynningu frá Nóbelsnefndinni segir að Munro sé „meistari samtímasmásögunnar”. Alice Munro fæddist í Ontario í Kanada árið 1931. Fyrsta bók hennar var smásagnasafnið Dance of the Happy Shades sem kom út árið 1968. Munro er aðallega þekkt sem smásagnahöfundur og hefur hún sent frá sér fjölda sagnasafna. Meðal verka hennar má nefna Who Do You Think You Are? (1978), The Moons of Jupiter (1982), Runaway (2004), The View from Castle Rock (2006) og Too Much Happiness (2009). Kvikmynd Söruh Polley, Away from Her frá 2006 er byggð á bók Munro, Hateship, Friendship, Courtship, Loveship, Marriage (2001). Nýjasta smásagnasafn hennar er Dear Life, sem kom út í fyrra. Í frétt á síðu Nóbelsverðlaunanna segir að Munro sé þekkt fyrir hárfína sagnamennsku, sem einkennist af skírleika og sálfræðilegu raunsæi. Hún hefur stundum verið kölluð Chekhov Kanada í heimalandinu. Sögur hennar gerast oft í smábæjum þar sem baráttan fyrir viðurkenningu samfélagsins leiðir til siðferðilegrar flækju og vandamála í samskiptum fólks. Alice Munro býr nú í Clinton í Ontario. Sjá nánar um Alice Munro og verk hennar á vef Nóbelsverðlaunanna