Beint í efni

Alþjóðleg móðurmálsvika

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum efna til nokkurra viðburða í vikunni 21.-28. febrúar í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins. Leitað hefur verið eftir samstarfi við fjölmarga aðila, m.a. Móðurmál – Félag tvítyngdra barna, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og fleiri aðila, sem hafa látið sig þennan málaflokk varða.

Í tilefni þessa dags í ár verður vakin athygli á starfi fjölmargra aðila sem tengjast ólíkum móðurmálum, hvatt til umræðu í skólum um hvernig sé hægt að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku og myndböndum um efnið komið á framfæri. Efnt verður til samvinnu við skóla um allt land sem felur í sér skráningu einstakra bekkja á tungumálaforða sínum, og haldinn verður sérstakur fyrirlestur um ólík móðurmál í skólakerfinu. Móðurmálsvikunni lýkur með málþingi í Norræna húsinu, föstudaginn 28. febrúar, kl. 15–17.

Dagskrá í Borgarbókasafni

Borgarbókasafn Reykjavíkur verður einnig með dagskrá í tilefni móðurmálsvikunnar. Föstudagur 21. febrúar kl. 13-15, Gerðubergssafn Hvernig hljómar sagan „Gráðuga Lirfan“ á hinum ýmsu tungumálum? Sögustund fyrir börn á 10 tungumálum (pólsku, spænsku, portúgölsku, litháísku, lettnesku, víetnömsku, íslensku, ensku, tékknesku, frönsku) í samstarfi við Samtökin Móðurmál. Sögubíllinn Æringi og  Björk bókavera verða á staðnum. Laugardagur 22. febrúar kl. 14, Gerðubergssafn Albönsk tunga og menning í Café Lingua Mirela Protopapa og Vatra, félag albana á Ísland, mun gefa innsýn í albanska tungu og menningu. Gestum gefst tækifæri til að kynnast albanskri sögu, náttúru, matarvenjum, búningum, hlusta á tónlist og læra nokkur orð á albönsku. Dagskráin er á vegum Café Lingua, í samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg. Dagskráin fer fram í Menningarmiðstöðinni, Gerðubergi 3-5. Allir eru velkomnir og þátttaka ókeypis. Kaffi og te á könnunni. Börnin eru velkomin með í Café Lingua og geta dundað sér við lestur bóka og teiknað og litað. Sjá nánar um Café Lingua á heimasíðu Borgarbókasafns.

Um Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Eitt af meginverkefnum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur er að stuðla að fjöltyngi og menningarlegum fjölbreytileika. Árið 2013 voru staðfest sérstök tengsl hennar við UNESCO með tilkomu alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar, þar sem rétturinn til móðurmálsins verður í brennidepli. Þá má geta þess að á fyrstu ráðstefnu UNESCO í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins var Vigdís sérstakur málsvari móðurmálsins (sjá hér). Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.vigdis.hi.is