Anna Heiða Pálsdóttir fékk Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir bókina Mitt eigið Harmagedón sem Salka gaf út. Guðni Kolbeinsson fékk verðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Stiklað á stóru um býsna margt eftir Bill Bryson sem JPV útgáfa gaf út. Guðni hefur tvisvar áður fengið þessi verðlaun fyrir afbragðs þýðingu og einu sinni fyrir bestu frumsömdu bókina.Verðlaunin voru afhent í 41. sinn við hátíðlega athöfn í Höfða í dag, mánudaginn 22. apríl 2013. Í umsögn valnefndar um verðlaunabókina Mitt eigið Harmagedón segir m.a.: Höfundur fangar af þekkingu og með virðingu heim sextán ára stúlku í Breiðholtinu, Dagbjartar Elísabetar, sem alist hefur upp innan sértrúarsöfnuðar. Þetta er þroskasaga sem vekur upp grundvallarspurningar um lífið og tilveruna, gildi þess að hafa sjálfstæðan vilja og geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt, fórnirnar sem maður þarf að færa til að halda í sína eigin sannfæringu, hvers virði það er að vera maður sjálfur og kannski síðast en ekki síst: hvenær er maður,maður sjálfur? Í umsögn um þýðingu barnabókarinnar Stiklað á stóru um býsna margt segir m.a. : Þýðing Guðna Kolbeinssonar á þessari vísindabók fyrir börn og unglinga er einstaklega vönduð. Bókin er á skýru og lipru máli sem auðveldar ungum lesendum að tileinka sér innihaldið. Einkar skemmtileg lesning fyrir alla! Jón Gnarr borgarstjóri og Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, afhentu barnabókaverðlaunin síðdegis í Höfða að viðstöddum fjölmörgum gestum. Meðal þeirra voru ungir sigurvegarar í Stóru upplestrarkeppninni sem lásu upp úr verðlaunabókunum. Í ávarpi sínu sagði Oddný Sturludóttir m.a.; Hlutur vandaðra barnabókmennta er ótvíræður og viðurkenningar eins og þær sem við veitum hér í dag er þakkargjörð skólayfirvalda í Reykjavík til höfunda sem leggja sig fram um að seðja hungur barna í góðar bókmenntir. Við lítum svo á að höfundar og þýðendur barnabóka séu bandamenn okkar við að efla læsi og opna nýja heima – læsis sem er lykill að velferð barna á lífsleiðinni. Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Þau eru ein elstu barnabókaverðlaun landsins og eru jafnan afhent fyrir sumarkomu ár hvert. Valnefnd var að þessu sinni skipuð Margréti Kristínu Blöndal formanni, Mörtu Guðjónsdóttur og Guðrúnu Höllu Sveinsdóttur.
Anna Heiða Pálsdóttir og Guðni Kolbeinsson hlutu Barnabókaverðlaun
