Beint í efni

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022

Linda Ólafsdóttir, Sverrir Norland og Kristín Helga Gunnarsdóttir hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 fyrir bækurnar Reykjavík barnanna; Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu; og Ótemjur.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 20. apríl. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn og Chadman Naimi, 12 ára nemandi við Tónskóla Sigursveins, flutti einleiksverk á píanó.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

Fjölbreytt barnabókaflóra

Í ár fékk dómnefndin yfir 100 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Linda Ólafsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga fyrir bókina Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

Sverrir Norland hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga fyrir þýðingu sína á bókinni Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Pénélope Bagieu. AM forlag gefur út.

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna bóka fyrir bókina Ótemjur. Bjartur gefur út.

Umsagnir dómnefndar:

linda ólafsdóttir: Reykjavík barnanna  

Í Reykjavík barnanna er farið yfir sögu borgarinnar frá upphafi, hvernig Reykjavík þróaðist frá landnámi til þeirrar borgar sem við þekkjum í dag. Bókin er myndlýst sagnfræðirit og hver opna í raun sjálfstæður kafli þar sem fjallað er um afmarkaðan þátt í sögu borgarinnar. Reykjavík birtist lesanda á stórum opnumyndum sem víkingaþorp, sveit, þorp, kaupstaður og að lokum borgin sem við þekkjum í dag. Bókin er skrifuð á aðgengilegu máli fyrir börn og textinn er upplýsandi og áhugaverður. Þetta er önnur bókin sem þær Margrét Tryggvadóttir (höfundur texta) og Linda Ólafsdóttir vinna saman með góðum árangri en áður hefur komið út eftir þær Íslandsbók barnanna, og hlaut Linda þessi sömu verðlaun fyrir myndlýsingar í henni.

Myndlýsingar Lindu hafa mjög klassískt yfirbragð, feta vel einstigið á milli raunsæis og stíliseringar og dempaðir litirnir gefa heildarverkinu fallegan tón. Það er ljóst að til grundvallar liggur mikil heimildavinna; til að endurspegla sem best anda hvers tímabils þarf að huga að öllum smáatriðum, hvort sem það er í byggingum eða klæðnaði fólks. Linda hefur unnið fagurlega úr efnivið sínum, mjólkurflöskur úr gleri í nestistíma, kennari að skenkja börnum lýsi úr lýsiskönnu og panell á veggjum skólastofu fanga vel tíðarandann og segja merkilega sögu samhliða þeirri sem kemur fram í textanum. Reykjavík barnanna er metnaðarfullt sagnfræðirit með grípandi og fræðandi myndum sem höfðar til barna á öllum aldri.

SverriR Norland: Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Pénélope Bagieu

Franska verðlaunabókin Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu er byggð á teiknimyndasögum sem teiknarinn og rithöfundurinn, Pénélope Bagieu, gerði upphaflega fyrir franska dagblaðið Le Monde. Bókin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál en sögurnar hafa þar að auki komið út sem stuttar teiknimyndir og eru íslenskum börnum kunnar úr barnatíma sjónvarpsins. Á myndasöguformi eru sagðar þrjátíu sögur af konum sem settu, hver með sínum hætti, mark sitt á mannkynssöguna.

Teikningar Bagieu og efnistök gera bókina að einstöku verki. Myndirnar eru andríkar og gæða söguhetjurnar lífi og tónninn í myndasögutextanum persónulegur og hlýlegur. Konurnar sem Bagieu kýs að fjalla um eru æði ólíkar og Eldhugar er ekki dæmigerð afrekskvennabók í þeim skilningi, því hin misheppnaða stúlknasveit The Shaggs, leikkonan ógurlega Margaret Hamilton og dægurstjarnan Christine Jorgensen sköruðu alls ekki fram úr á sínu sviði. En sögur þeirra eru samt sem áður einstakar, þær fjalla um mannlega reisn og eru sagðar frá hispurslausu sjónarhorni kvenna og saman mynda konurnar þrjátíu í Eldhugum fjölskrúðugan hóp af kvenhetjum frá ólíkum tímabilum í mannkynssögunni, af ólíkum stéttum og frá öllum heimshornum.

Þýðing Sverris Norland er vandlega unnin. Tónninn er bæði hlýlegur og lestrarhvetjandi og fallegur, handskrifaður textinn eykur þau áhrif. Stíllinn er hnitmiðaður, málfarið fágað og gagnsætt og þýðingin fellur í alla staði vel að myndasöguforminu. Hér er á ferðinni sígilt og vandað verk sem mun gleðja unga lesendur um ókomin ár.

Kristín HelgA Gunnarsdóttir: Ótemjur

Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur er spennandi saga þar sem fjallað er um aðkallandi samfélagsmál. Í forgrunni eru félagsleg réttindi barna og þörfin fyrir öryggi, ástúð og umhyggju. Söguhetjan, hin þrettán ára gamla Lukka, hefur alist upp við óreglu og bág kjör en í þessum ólgusjó hefur amma hennar verið akkerið. Þegar hún fellur frá stendur Lukka ein eftir og þarf að heyja baráttu við kerfi sem er henni andsnúið. Leiðin liggur norður í Skagafjörð en þar bíður áreiðanleg fósturfjölskylda sem amma Lukku hafði sérvalið fyrir andlát sitt í von um að þannig mætti forða dótturdótturinni frá því að lenda á þvælingi milli vonlausra úrræða.

Þrátt fyrir alvarlegt umfjöllunarefni er frásögnin bæði hröð og leikandi og Kristín Helga tekst í bók sinni á við efnið af næmni og frásagnargleði. Myndin sem teiknuð er upp er langt frá því að vera svarthvít, persónurnar eru hvorki algóðar né alvondar – ekki einu sinni þær sem ítrekað bregðast skyldum sínum. Um leið er afstaða höfundar skýr: Öll börn eiga að njóta bæði verndar og frelsis. Í bókinni eru þessi brýnu málefni sett í víðara samhengi, því réttindi barna snúa ekki síst að rétti þeirra til að tengjast ósnortinni náttúrunni og söguna má einum þræði lesa sem áminningu um að standa jafnframt vörð um hana.

Ótemjur er vel skrifuð og spennandi saga um þjóðfélagshóp sem brýnt er að fjalla um.

Aðrar tilnefndar bækur

Eftirtaldar bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022, auk verðlaunabókanna:

Myndlýsingar

Áslaug Jónsdóttir: Skrímslaleikur. Mál og menning gefur út.
Elísabet Rún: Sólkerfið. JPV gefur út.
Hallveig Kristín Eiríksdóttir: Fuglabjargið. Bókabeitan gefur út.
Rán Flygenring: Koma jól? Angústúra gefur út.

Þýddar bækur

Guðni Kolbeinsson: Kynjadýr í Buckinghamhöll eftir David Walliams. BF gefur út.
Jón St. Kristjánsson: Seiðmenn hins forna eftir Cressidu Cowell. Angústúra gefur út.
Sólveig Sif Hreiðarsdóttir: Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaughrean. Kver gefur út. 
Sverrir Norland: Kva es þak? eftir Carson Ellis. AM forlag gefur út.

Frumsamdar bækur

 

Arndís Þórarinsdóttir: Bál tímans. Mál og menning gefur út.
Hilmar Örn Óskarsson: Holupotvoríur alls staðar. Bókabeitan gefur út.
Margrét Tryggvadóttir: Sterk. Mál og menning gefur út.
Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika. Angústúra gefur út.