Beint í efni

Bókamessa í Bókmenntaborg

Helgina 17. - 18. nóvember standa Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fyrir bókamessu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Útgefendur sýna nýjar bækur og boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá og þarna gefst því einstakt tækifæri til að kynna sér litskrúðuga bókaflóru ársins. Lesendum gefst einnig færi á að spjalla við höfunda því fjölmargir þeirra verða á svæðinu og munu sumir bjóða upp á áritanir. Bókamessan verður opin frá 12 - 18 báða dagana.

Bókmenntir í fyrsta sinn eina málið á dagskrá í sal borgarstjórnar

Í fyrsta sinn verður boðið upp á bókmenntadagskrá í borgarstjórnarsalnum, en þar verða umræður um bókmenntir kl. 14 - 15 báða dagana. Fyrri daginn fær Eiríkur Guðmundsson rithöfundur og útvarpsmaður fjóra af okkar þekktustu höfundum í spjall um nýjar skáldsögur þeirra og ávarpar borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, gesti í upphafi dagskrár. Á sunnudeginum stýrir Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra umræðum um nokkrar skáldsögur sem tengjast sögu eða sagnaarfi okkar Íslendinga. Þótt stjórnmál verði ekki á döfinni í sal borgarstjórnar að þessu sinni eiga þau sinn stað á messunni, því Guðni Th. Jóhannesson fær þá Styrmi Gunnarsson og Svavar Gestsson til sín í spjall um splunkunýjar bækur þeirra sem takast báðar á við íslenska stjórnmálasögu. Einn erlendur gestur verður á messunni, bandaríski fantasíuhöfundurinn Ransom Riggs, og mun rithöfundurinn Sjón ræða við hann. Fjölmargt annað er á dagskrá fyrir fullorðna og börn, en eins og sjá má hér fyrir neðan er dagskráin glæsileg. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Bókamessan fer öll fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sýningarbásar útgefenda verða í Tjarnarsal og bókmenntadagskráin í matsal á fyrstu hæð (andspænis kaffihúsi), í kaffihúsi Ráðhússins, á gangi, í setustofu á 2. hæð hússins (gengið upp stigagang austan megin) og í sal borgarstjórnar eins og áður sagði. Úti verða svo boltar og bílar í aðalhlutverki.  

DAGSKRÁ:

LAUGARDAGUR 17. NÓVEMBER

Allur dagur Flottustu bílarnir Í tilefni útkomu bókanna 100 geggjuðustu bílarnir og Bílar í málum og myndum geta gestir Bókamessunnar litið inn í rennilega kagga sem eru sjaldséðir á götum borgarinnar. Myndir á Ráðhúsgangi Edda Heiðrún Backmann sýnir nokkrar vatnslitamyndir sem Þórarinn Eldjárn ljóðskreytir í bókunum Ása og Vaknaðu, Sölvi. Allur ágóði af sölu bókanna rennur til Hollvina Grensásdeildar. 13:00 Tjarnarsalur Þorgerður Ingólfsdóttir og félagar úr Kór Menntaskólans við Hamrahlíð flytja nokkur lög í tilefni útkomu bókarinnar Söngvasafn, en hún er helguð minningu Ingólfs Guðbrandssonar. Söngvasafn er aukin útgáfa Nýs söngvasafns handa skólum og heimilum og hefur fjölda nýlegra laga og þjóðlaga verið bætt við nýju útgáfuna. Námsgagnastofnun gefur út. 13:00 Ráðhúsgangur Heklað, prjónað og endurskapað Sigríður Ásta Árnadóttir kynnir bók sína, Litfríður - heklað, prjónað og endurskapað, en þar er að finna spennandi uppskriftir að litskrúðugum flíkum fyrir börn og fullorðna auk nýstárlegra hugmynda um hvernig má endurnýta eldri fatnað. Hér gefst bókamessugestum kjörið tækifæri til að fá hugmyndir að því hvernig má búa til frumlegar og fallegar jólagjafir. Einnig kynna Halla Bára Gestsdóttir og Herborg Sigtryggsdóttir Stóru prjónabókina en hún hefur að geyma 100 uppskriftir að flíkum fyrir börn og fullorðna eftir íslenska prjónahönnuði. 13:00 – 14:00 Matsalur, 1. hæð Gleðigjafar Thelma Þórbergsdóttir, annar höfundur bókarinnar Gleðigjafar, ræðir um tilurð bókarinnar og deilir reynslu sinn af því að eiga langveikt barn. Í bókinni segja foreldrar sögur sínar, en allir eiga þeir börn sem eru sérstök á einhvern hátt, með alvarlega sjúkdóma eða fötlun. 14:00 – 15:00 Matsalur, 1. hæð Viltu læra að útbúa persónulega myndabók eða dagatal? Starfsfólk Odda heldur stutt námskeið í gerð persónulegra myndabóka og dagatala. 13:30 – 14:00 Kaffihús Helgi Ingólfsson spjallar og les upp úr nýútkominni bók sinni, Frjálsar hendur – kennarahandbók. Þar segir frá tveimur kennurum við Fjölbrautarskólann í Kringlumýri sem kljást við misáhugasama æsku landsins, en eltast í frístundum við ólík áhugasvið sem snerta fjölda fólks, til dæmis misheppnaðan rithöfund, vansæla þingmannsfrú, útrásarvíking í útlegð og mótorhjólagengi. [caption id="attachment_3139" align="alignleft" width="300" caption="Eiríkur Guðmundsson stýrir umræðum í Borgarstjórnarsal þar sem rithöfundar ræða um nýjustu verk sín, sem eiga það sameiginlegt að fjalla um ástina í sínum fjölbreyttu birtingarmyndum."][/caption] 14:00 – 15:00 Borgarstjórnarsalur Ástin og allt þar á milli Eiríkur Guðmundsson rithöfundur og útvarpsmaður spjallar við höfundana Auði Övu Ólafsdóttur (Undantekningin), Kristínu Ómarsdóttur (Milla), Steinunni Sigurðardóttur (Fyrir Lísu) og Sigurbjörgu Þrastardóttur (Stekk) um nýútkomnar skáldsögur þeirra. Þessar annars ólíku sögur eiga það sameiginlegt að fjalla um ástina í sínum fjölbreyttu birtingarmyndum. Borgarstjóri, Jón Gnarr, ávarpar gesti í upphafi samkomunnar í tilefni þesssarar fyrstu bókmenntadagskrár í borgarstjórnarsalnum. 14:00 – 15:00 Ráðhúsgangur Seðjandi súpur og krásir úr ofninum heima Sigurveig Káradóttir kynnir bók sína Súpur allt árið, sem geymir uppskriftir að girnilegum og nærandi súpum frá öllum heimshornum og kitlar bragðlauka gesta með því að leyfa þeim að smakka. Gísli Egill Hrafnsson og Inga Elsa Bergþórsdóttir kynna nýja matreiðslubók í Eldað og bakað ofninum heima og verða með sýnishorn úr bókinni. Þar má finna fjölbreyttar uppskriftir að heimilismat, hversdagsmat, veislumat, brauði og tertum. 14:00 – 15:00 Kaffihús Mishlýjar sögur að vestan Vestfirskir sagnamenn skemmta gestum kaffihússins með sönnum vestfirskum lygasögum. Með í för verður heiðursgestur Vestfirska forlagsins Jóhannes Kristjánsson frá Brekku á Ingjaldssandi, sem mun mun kæta lund bókamessugesta. 14:00 – 15:00 Setustofa, 2. hæð Fjölskyldustund fyrir unga sem aldna með barna- og unglingabókahöfundum Tylltu þér niður í setustofunni og njóttu þess að láta lesa fyrir þig. Eftirtaldir höfundar lesa úr nýútkomnum bókum. Anna Heiða Pálsdóttir: Mitt eigið Harmagedón Margrét Örnólfsdóttir: Aþena – að eilífu, kúmen! Þórdís Gísladóttir: Randalín og Mundi Iðunn Steinsdóttir: Varið ykkur á Valahelli Marta Dröfn: Amma með biluðu augun 15:00 Ráðhúsgangur Pure Ebba Ebba kynnir bók sína Eldað með Ebbu í Latabæ en hún inniheldur 100 hollar og góðar uppskriftir fyrir alla fjölskylduna. Boðið verður upp á bragðdæmi. [caption id="attachment_3086" align="alignnone" width="240" caption="Böðvar Guðmundsson les upp og áritar í matsal Ráðhússins."][/caption] 15:00 – 16:00 Matsalur, 1. hæð Ný skáldsaga eftir Böðvar Guðmundsson, Töfrahöllin, kemur út þennan dag og er henni fagnað með útgáfuhófi á Bókamessunni af því tilefni. Höfundur les og áritar, Skúli mennski sér um tónlistina og boðið verður upp á léttar veitingar. 15:00 – 15:30 Kaffihús Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi spjallar um stjúptengsl út frá nýútkominni bók sinni, en þar er fjallað um málefni sem brennur á fjölmörgum fjölskyldum. Fróðleg dagskrá fyrir alla þá sem eiga, þekkja eða eru stjúpfeður, - mæður, - systur, - bræður, -synir, - dætur, - afar eða –ömmur! 15:00 – 16:00 Setustofa, 2. hæð Skrifum og teiknum Huginn Þór Grétarsson stjórnar smiðju fyrir börn og fjölskyldur út frá sögunum um Búkollu og Naglasúpuna. Huginn hefur fært þessar þekktu sögur í nútímalegt horf og gefið út á bók með nýjum myndskreytingum. Í smiðjunni gefst krökkum tækifæri til að búa til stuttar sögur og myndskreyta þær. 15:00 Útisvæði við inngang frá Tjarnargötu Knattspyrnuþrautir Atli Sveinn Þórarinsson stjórnar knattþrautum sem fótafimir messugestir á öllum aldri geta tekið þátt í, en Sögur útgáfa sendir nú frá sér fjölda bóka sem tengjast þessari eðlu íþrótt. 16:15 Útisvæði við inngang Tjarnargötumegin Ertu skytta? Gunnar Helgason stýrir aukaspyrnukeppni sem krakkar á öllum aldri geta tekið þátt í. Allir þátttakendur fara í pott og þrír heppnir fá bókina Aukaspyrna á Akureyri senda heim. 16:00 – 18:00 Ráðhúsgangur Greiddu mér lokka Theodóra Mjöll, höfundur bókarinnar Hárið og Íris Sveinsdóttir, höfundur bókarinnar Frábært hár sýna gestum og gangandi snjallar greiðslur. Sýnikennsla og leiðbeiningar um umhirðu hársins, helgargreiðsluna, fljótleg fiff og fleira. 16:00 Ráðhúsgangur Ljótikór syngur fyrir gesti bókamessunnar. Kórinn tekur nokkur lög við ljóð Þórarins Eldjárns á sinn einstaka hátt. Undirleikari er Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi. 16:00 Matsalur, 1. hæð ð-ið eldað Höfundar bókarinnar ð ævisaga framreiða þennan fagurskapaða bókstaf úr íslenska stafrófinu fyrir gesti Ráðhússins. Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit eru grafískir hönnuðir sem hafa um árabil rannsakað bókstafinn ð. Í bókinni taka þeir saman niðurstöður sínar með fulltingi Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Þetta er ævisaga fagursveigða ð-sins. Það má vera að það sé hæverskasti bókstafur stafrófsins, en líf þess hefur verið einstaklega viðburðaríkt. 16:00 Setustofa, 2. hæð Jólakúlusmiðja Forlagið kynnir bók norsku hönnuðanna Arne og Carlos, Jólakúlur. Þar ræður jólastemningin og sköpunargleðin ríkjum, en í bókinni er sýnt hvernig prjóna má jólakúlur af öllum stærðum og gerðum. Í smiðjunni gefst gestum kostur á að kynnast jólakúlugerðinni og geta einnig gripið í prjóna. 17:00 – 18:00 Matsalur, 1. hæð Af Gúlagi og íslenskum ættarveldum Jón Ólafsson spjallar um bók sína Appelsínur frá Abkasíu, sem rekur sögu Veru Hertzsch, barnungrar dóttur hennar og annarra kvenna í Gúlagi Sovétsins og Guðmundur Magnússon spjallar um bók sína Íslensku ættarveldin, en þar fylgir hann þráðum ættarvelda sem liggja frá höfðingjum landnámsaldar allt til Björgólfsfeðga. SUNNUDAGUR 18. NÓVEMBER Allur dagur Flottustu bílarnir Í tilefni útkomu bókanna 100 geggjuðustu bílarnir og Bílar í málum og myndum geta gestir Bókamessunnar litið inn í rennilega kagga sem eru sjaldséðir á götum borgarinnar. Myndir á Ráðhúsgangi Edda Heiðrún Backmann sýnir nokkrar vatnslitamyndir sem Þórarinn Eldjárn ljóðskreytir í bókunum Ása og Vaknaðu, Sölvi. Allur ágóði af sölu bókanna rennur til Hollvina Grensásdeildar. 13:00 Matsalur, 1. hæð Fólkið að vestan Lesið verður úr nokkrum bókum sem Vestfirska forlagið gefur út nú í ár. Finnbogi Hermannsson: Vestfirskar konur í blíðu og stríðu Guðrún Ása Grímsdóttir: Vatnsfjörður í Ísafirði Reynir Ingibjartsson: Æviminningar Kristínar Dahlstedt veitingakonu Lýður Björnsson: Þar minnast fjöll og firðir. Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna Benedikt Sigurðsson: Mannleg samskipti Lárus Jóhansson: Andvaka. Lífshlaup og ljóð Tómasar Guðmundssonar Geirdælings hins víðförla 13:30 Kaffihús Heimili fröken Peregrine Rithöfundurinn Sjón ræðir við bandaríska höfundinn Ransom Riggs um fantasíubók hans, Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn, sem er nýkomin út hjá Sölku í þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur. Í bókinni, sem hefur notið mikillar hylli fantasíulesenda og setið á metsölulistum, segir afi Portman Jakobi litla frá dularfullu barnaheimili fyrir munaðarlaus börn. Þegar Jakob fer síðar á slóðir barnaheimilisins tekur líf hans óvænta stefnu. 13:45 Ráðhúsgangur Hafdís Huld Hafdís Huld tekur nokkur lög af plötunni Vögguvísur. Þar syngur hún vel þekkt íslensk þjóðlög, ásamt öðrum frumsömdum og nýjum íslenskum þýðingum á erlendum vögguvísum.   14:00 Ráðhúsgangur Múffur í hvert mál Nanna Rögnvaldardóttir gefur gestum og gangandi nýbakaðar múffur og kynnir bók sína Múffur í hvert mál, en þar er að finna jafnt hollar morgunmúffur og kaffimeðlæti – og jafnvel múffur fyrir hund og kött!   [caption id="attachment_3146" align="alignleft" width="300" caption="Katrín Jakobsdóttir stýrir umræðum í Borgarstjórnarsal þar sem rithöfundar ræða um verk sín, sem tengjast sögu og/eða sagnaarfi Íslendinga."][/caption] 14:00 Borgarstjórnarsalur Saga og samtími Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fær til sín nokkra höfunda nýrra skáldverka sem tengjast sögu, samtíma og/eða sagnaarfi okkar Íslendinga. Þeir eru Einar Kárason (Skáld), Eyrún Ingadóttir (Ljósmóðirin), Kristín Steinsdóttir (Bjarna-Dísa), Pétur Gunnarsson (Íslendingablokk. Tíðarandasaga) og Vilborg Davíðsdóttir (Vígroði).   14:00 – 16:00 Matsalur, 1. hæð Bókahátíð barnanna Barnabókahöfundar koma sér fyrir í matsal Ráðhússins, spjalla við gesti á öllum aldri og sýna efni sem tengist nýjum bókum þeirra.  Hallfríður Ólafsdóttir og Maxímús Músíkmús verða á staðnum. Bergrún Íris kynnir bókina Gerðu eins og ég og Blávatnsorminn sem hún myndskreytti. Ingibjörg Kr. Ferdinandsdóttir sýnir og kynnir bók sína Leyndarmál Kela, Dagbjört Ásgeirsdóttir spjallar um bókina Gummi fer á veiðar með afa, tekur fyrir orð sem tengjast sjónum og sýnir myndir og muni sem tengjast bókinni. Áslaug Jónsdóttir verður með nýja bók um sín ástsælu skrímsli, Skrímslaerjur. Nýbakaðir handhafar Íslensku barnabókaverðlaunanna verða á staðnum með bók sína Hrafnsauga, þeir Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Hildur Knútsdóttir kynnir fyrstu barnabók sína Spádómurinn. Bergljót Arnalds mætir með Stafakarlana, Kristjana Friðbjörnsdóttir verður með Reisubók Ólafíu Arndísar og Gunnar Theodór Eggertsson Steinskrípin. Sigrún Eldjárn spjallar við gesti um Bétvo, Listasafnið og Jólakrakka og sýnir jóladúkkulísurnar sínar. Þá verður Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir með bók sína, Hulstur utan um sál, sem fjallar á einfaldan hátt um það hvernig börnin verða til. Af tilefni útkomu bókarinnar Legóbókin - StarWars verða legókubbar í salnum sem krökkum býðst að leika sé með. Allir krakkar sem mæta á dagskrána geta tekið þátt í léttum leik og eiga þá von um bókavinning. 14:00 Kaffihús Limrur Pétur Blöndal flytur limrur úr Limrubókinni, sem Bókafélagið gefur út, en þar hefur Pétur tekið saman fjölbreytt safn íslenskra limra. Sumar leika á hvers manns vörum, aðrar eru á fárra vitorði og enn aðrar eru frumbirtar í bókinni. Anton Helgi Jónsson stígur einnig á stokk, en hann var að senda frá sér limrubókina Hálfgerðir englar og allur fjandinn. 15:00 Ráðhúsgangur Sunnudagsmatur í munn og maga: Hollusta fyrir sælkera Solla býður gestum að smakka holla eftirrétti úr bókinni Eftirréttir Sollu. Þar opnar hún nýjar víddir í gerð gómsætra eftirrétta og sælgætis fyrir alla sem hafa áhuga á heilbrigði og hollri næringu samfara girnilegum kræsingum. Krydd og krásir Sigrún Óskarsdóttir og Kristín Þóra Harðardóttir kynna bók sína Orð, krydd og krásir, en hún hefur að geyma uppskriftir sem sækja innblástur á söguslóðir Biblíunnar. 15:00 Kaffihús Hefur einhver séð Dagbók Eddu Björgvins? Hún er nefnilega týnd. Edda mætir á svæðið og segir farir sínar ekki sléttar. 16:15 Matsalur, 1. hæð Styrmir og Svavar Guðni Th. Jóhannesson spallar við þá Styrmi Gunnarsson og Svavar Gestsson um nýútkomnar bækur þeirra. Bók Svavars er sjálfsævisagan Hreint út sagt, en þar segir hann persónulega og pólitíska sögu sína en í bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör, er lesanda boðið inn í bakherbergi stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. 16:00 Kaffihús Ljóðadagskrá Uppheima og Dimmu í tali og tónum Svavar Knútur leikur og syngur og eftirtalin skáld lesa upp: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarni Gunnarsson, Hjörtur Pálsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson. 17:00 Kaffihús Ljóðin í bænum Rúsínan í pylsuendanum í bókmenntadagskrá Bókamessu í Bókmenntaborg er ljóðadagskrá með nokkrum ljóðskáldum. Fyrstur stígur á stokk verðlaunahafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2012, Dagur Hjartarson, með verðlaunabókina Þar sem vindarnir hvílast, og síðan lesa eftirtaldir höfundar úr nýjum bókum sínum. Gerður Kristný: Strandir Huldar Breiðfjörð: Litlir sopar Guðrún Hannesdóttir: Teikn Sigurður Pálsson: Ljóðorkulind Óskar Árni Óskarsson: Kuðungasafnið