Bókamessa 2017 verður haldin helgina 18. - 19. nóvember í Hörpu. Messan verður opin frá kl.11 - 17 bæði laugardag og sunnudag. Ekkert kostar inn og eru allir hjartanlega velkomnir.
Bókamessa er árlegur viðburður í Bókmenntaborginni Reykjavík í nóvember en að henni standa Bókmenntaborgin og Félag íslenskra bókaútgefenda. Messan flutti í Hörpu í fyrra við góðar undirtektir og í ár leggur hún aftur undir sig Flóa á 1. hæð hússins. Líf og fjör verður í Flóa allan daginn, bæði laugardag og sunnudag. Þarna gefst lesendum einstakt tækifæri til að ræða beint við uppáhalds rithöfundana sína og hitta útgefendur. Boðið verður upp á áritanir, smakk úr matreiðslubókum og líflega bókmenntadagskrá með upplestrum, höfundaspjalli og kynningum á nýjum bókum. Fyrir börnin verða skemmtilegar smiðjur og allir geta hreiðrað um sig í Undralandi bókanna þar sem barna- og ungmennabækur ársins verða á einum stað.
Meðal þess sem verður á dagskrá er spjall við Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra, tónlistardagskrá helguð ljóðum Tómasar Guðmundssonar með Svavari Knúti, umræður um smásögur heimsins, paneldagskrá um Druslugönguna, umfjöllun um sögur af konum, ratleikir, skrímslasmiðja, ljóðadagskrá, tilfinningasmiðja, höfundaspjall í umsjá Jórunnar Sigurðardóttur og Hauks Ingvarssonar og margt fleira. Rithöfundar mæta á sýningarbása útgefenda, spjalla við lesendur og hægt verður að taka þátt í laufléttum getraunum þar sem veglegir bókavinningar eru í boði fyrir heppna messugesti.
Það verður því líf og fjör í Hörpu alla helgina á árlegri Bókamessu í Bókmenntaborg.
Láttu sjá þig!
Heildardagskrá messunnar má sjá hér á vefnum okkar