Beint í efni

Bókaverðlaun barnanna 2013

Bókaverðlaun barnanna 2013 verða afhent sunnudaginn 27. október

Bókaverðlaun barnanna verða afhent í ellefta sinn sunnudaginn 27. október kl. 15 í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15. Ár hvert verðlauna almennings- og skólabókasöfn landsins tvær nýjar bækur, eina íslenska og aðra þýdda. Sex til tólf ára börn völdu uppáhaldsbækurnar sínar og fór valið fram á heimasíðu Borgarbókasafns og í grunnskólum og bókasöfnum um allt land. Á verðlaunahátíðinni verða höfundi og þýðanda veitt verðlaun og nokkur börn sem tóku þátt í kosningunni fá einnig viðurkenningu. Þá mun Jón Víðis fremja töfrabrögð, börn úr Langholtsskóla flytja frumsamið ljóðatónverk um Reykjavíkurborg og eftir verðlaunaafhendinguna geta öll börn tekið þátt í ljóðarugli þar sem hægt verður að raða saman þekktum ljóðlínum úr ýmsum áttum og búa þannig til nýtt ljóð úr þeim. Sjá nánar um Bókaverðlaun barnanna á vef Borgarbókasafns.