Bókmenntaborgirnar Reykjavík og Granada standa saman að tveimur viðburðum í Reykjavík í nóvember 2017. Annars vegar höfundaspjalli með José Miguel Gómez Acosta og hins vegar dagskrá um stöðu og framtíð bókaverslana með Mariam Recuerda , sem rekur bókaverslunina UBÚ Libros í Granada.
Norðrið mæra
Miðvikudaginn 1. nóvember kl. 17 verða José Miguel Gómez Acosta og Elías Knörr á Kaffislipp á Hótel Marina við Mýrargötu. Þeir munu spjalla um skáldskap og kynna ljóðabók José Miguels, El Gran Norte / Norðrið mæra, sem nýlega kom út í tvímála útgáfu á íslensku og spænsku. Þýðendur ljóðanna á íslensku eru Elías Knörr og Guðrún H. Tulinius. Bókin hlaut Federico Garcia Lorca verðlaunin í Granada 2014. Einnig mun Óskar Kontra las Kuerdas syngja lag sitt El gran norte sem hann samdi út frá ljóðunum.
José Miguel Gómez Acosta (Almería 1975) er arkítekt og skáld. Auk starfa sinna sem skáld ritstýrir José tímaritinu Márgenes Arquitectura. Hann ferðast á milli Suður-Spánar og Norðurlanda, sérstaklega Íslands, og vinnur ýmist hér eða þar. Sú skoðun hans að miðbær Reykjavíkur ætti að vera á heimsminjaskrá UNESCO hefur vakið athygli, en José hefur haldið erindi um þetta efni í Listaháskóla Íslands. Hann skrifar mikið fyrir spænsk blöð og hefur birt fræðilegt efni af ýmsum toga. José Miguel hefur skrifað töluvelt um málefni norðurlanda, sérstaklega á vettvangi Grupo de Investigación Arquitectura y Cultura contemporánea við Háskólann í Granada. Hann teiknar einnig og hefur haldið sýningar á teikningum og grafík með myndlistahópnum Aulago.
El Gran Norte er önnur ljóðabók José Miguels. Sú fyrri, El pabellón de los elefantes (Fílaálman), hlaut einnig Federico García Lorca verðlaunin, árið 1997. Í skáldskap sínum er José jafnan myndrænn og dularfullur og „bregður hann upp myndum af nístandi landslagi þar sem mannlífið glitrar eins og hversdagslegt kraftaverk um leið og ástarsorg og kaldlyndi samtvinnast skuggum“, svo vitnað sé í þýðanda hans, Elías Knörr.
Bókaverslanir í nútíð og framtíð
Laugardaginn 4. nóvember kl. 13 verður dagskrá um stöðu bókaverslana í Granada og Reykjavík í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18.
Hver er staða sjálfstæðra bókaverslana í þessum systurborgum? Er hún að einhverju leyti sambærileg, við hvað glíma eigendur þeirra og hvaða möguleikar eru til endursköpunar í rekstrarumhverfi dagsins í dag? Þurfa bókabúðir að endurskapa sig og í hvaða áttir er þá hægt að fara? Þessum spurningum og fleirum verður velt upp.
Í upphafi dagskrár mun Mariam Recuerda , sem rekur bókaverslunina UBÚ Libros í Granada, segja stuttlega frá búðinni og þeirri menningarsýn sem hún vinnur eftir og gefa mynd af umhverfi bókaverslana í Granada. UBÚ Libros er fjögurra ára gömul verslun í hjarta Granada sem leggur áherslu á bækur sem tengjast sviðslistum og myndlist auk bóka frá grasrótinni. Auk þess að bjóða upp á vandað úrval slíkra bóka er búðin vettvangur upplestra með áherslu á að endurvekja bókabúðina sem fundarstað og sameiginlegan vettvang höfunda, útgefenda og lesenda. UBÚ Libros leggur áherslu á beint samband við lesendur og nýtir sér þar m.a. samfélagsmiðla með markvissum hætti.
Eftir kynninguna taka Halla Kristín Hannesdóttir og Steinunn Önnudóttir frá Bókum á bakvið, Sigríður Sóley Sveinsdóttir frá Bókabúð Máls og menningar og Elías Knörr skáld þátt í umræðum (á ensku) um stöðu og möguleika bókaverslana í systurborgunum Reykjavík og Granada. Gunnur Vilborg frá forlaginu Bjartur / Veröld stýrir umræðunum.
Allir eru velkomnir og við hvetjum fólk sérstaklega til að taka þátt í umræðum um þetta þarfa málefni.
Vefur Bókmenntaborgarinnar Granada