Beint í efni

Bókmenntaborgin í Hörpu á Menningarnótt

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO býður upp á fjölbreytta dagskrá í Hörpu á Menningarnótt, laugardaginn 18. ágúst. Dagskráin fer öll fram á svo kölluðum Norðurbakka, sem er á 1. hæð hússins sjávarmegin. Hún er tileinkuð borgarbókmenntum í víðum skilningi og koma skáld ólíkra kynslóða við sögu, allt frá tímum fyrstu borgarbókmenntanna í hinu nýja lýðveldi um miðja síðustu öld til borgar aukins margbreytileika dagsins í dag. Bergur Ebbi verður með uppistand sem hann byggir á götumáls- og slangurorðasafni Elíasar Mar og tvær hjómsveitir flytja tónlist, annars vegar Bókbandið sem er skipað meðlimum sveitarinnar Moses Hightower og hins vegar söngkonan Fríða Dís Guðmundsdóttir úr Klassart ásamt hljóðfæraleikurum. Allir eru hjartanlega velkomnir.

DAGSKRÁ:

ÞÍNA SKÁL REYKJAVÍK Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands Harpa 14:30 – 15:30

Reykvískir höfundar flytja skáldskap um bókmenntaborgina Reykjavík frá ólíkum hliðum. Höfundarnir eru Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands, Sigurður Pálsson,  Vigdís Grímsdóttir, Bragi Ólafsson, Þórdís Gísladóttir, Eiríkur Guðmundsson og Sjón, sem er formaður stjórnar Bókmenntaborgarinnar. Bókbandið leikur og syngur Reykjavíkurlög, en hljómsveitina skipa þeir Steingrímur Karl Teague, Andri Ólafsson og Daníel Friðrik Böðvarsson sem allir eru meðlimir hljómsveitarinnar Moses Hightower. Að morgni Menningarnætur afhendir borgarstjóri Rithöfundasambandi Íslands Gunnarshús til eignar, fyrrum heimili Gunnars Gunnarssonar rithöfundar, og er dagskráin sett saman í tilefni þessa.

SVINGPJATTTAR OG VAMPÍRFÉS Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Lesstofan Harpa 16:00 – 16:30

Fjörleg dagskrá með tónlist, uppistandi og spjalli í tilefni fyrstu Lestrarhátíðar í Reykjavík sem verður haldin í október næstkomandi. Fríða Dís Guðmundsdóttir og hljómsveit frumflytja lagið Vögguvísu (Chi baba) í nýrri íslenskri útgáfu, Bergur Ebbi flytur gamanmál út frá slangurorðasafni frá 1950 með skírskotun til götumáls dagsins í dag og Hjálmar Sveinsson spjallar stuttlega um Elías Mar og eftirstríðsárin í bland við örstuttan upplestur úr skáldsögunni Vögguvísu. Bókin er nýkomin út í nýrri útgáfu með ítarlegum eftirmála hjá forlaginu Lesstofunni og þar er einnig að finna slangurorðasafnið sem Elías safnaði á meðan hann vann að bókinni. Hlusta á viðtal við Sjón og Kristínu Viðarsdóttur um Lestrarhátíðina í Víðsjá. Sjá um nýju útgáfuna í viðtali við Lesstofufólk í Fréttablaðinu.

NÝJU SKÁLDIN Í BÆNUM Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO Harpa 17:30 - 18:00

Reykvísk skáld af erlendum og innlendum uppruna leiða saman skáldfáka sína á sprelllifandi ljóðadagskrá og flytja saman ljóð á ýmsum tungumálum. Öll ljóðin verða flutt í íslenskum þýðingum svo og á frummálinu og þau íslensku einnig í erlendum þýðingum. Skáldin eru Mazen Maarouf (Palestína / Líbanon), Juan Estrada (Kólumbía), Elías Portela (Galisía), Harutyun Mackoushian (Syría / Armenía), Kári Tulinius (Ísland) og Þórdís Björnsdóttir (Ísland). Kynnir er Björn Kozempel. Hópurinn vann saman í þýðingasmiðju á vormánuðum og er dagskráin afrakstur þeirrar vinnu. [gallery link="file" order="DESC"]