Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO hefur komið fyrir bókmenntamerkingu við staðinn þar sem bærinn Melkot stóð, fyrirmynd Brekkukots í skáldsögu Halldórs Laxness, Brekkukotsannáll (1957). Melkot stóð á lóð sem nú tilheyrir Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, en bæjarstæðið var efst í lóðinni, nær Suðurgötu. Bókmenntamerkingar Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO eru nú orðnar sjö talsins, en auk Melkots eru merkingar við Hressó (tileinkuð Steini Steinarr), Pósthúsið í Austurstræti (Málfríður Einarsdóttir), Aðalstræti 6-8 (Elías Mar), Laugaveg 1 (Margrét Jónsdóttir og þvottakonur í Reykjavík), Ingólfstræti 8 (Torfhildur Hólm) og Grundarstíg 10 (Hannes Hafstein). Fleiri merkingar munu bætast við, en þetta langtímaverkefni miðar að því að kortleggja og kynna bókmenntasögu borgarinnar fyrir íbúum og gestum Reykjavíkur. Verkefnið er unnið í samstarfi við Símann. Merkingarnar eru á íslensku og ensku og á þeim er rafrænn kóði sem má skanna með snjallsíma til að nálgast ítarlegri upplýsingar, hljóðefni og myndefni. Sjá um Melkot og Brekkukotsannál á farsímavef Bókmenntaborgarinnar, en þar má m.a. horfa á skemmtilegt myndskeið um gerð kvikmyndarinnar Brekkukotsannáll. [gallery link="file" order="DESC" columns="2" orderby="title"]