Beint í efni

Fjölbreytt bókmenntagskrá á Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð fór vel af stað í morgun, þriðjudaginn 17. apríl. Fjölmargir bókmenntaviðburðir eru á hátíðinni fyrir krakka á öllum aldri og var til að mynda frábært að sjá áhugann sem unglingar úr 9. bekkjum borgarinnar sýndu bókaúrvalinu á bókamessunni "Að leggjast í sortir" á Borgarbókasafninu í dag. Ratleikurinn, Ævintýri á gönguför - farðu á flug með Sleipni, er kominn upp en í honum geta fjölskyldur leyst léttar þrautir sem tengjast íslenskum barnabókum. Þátttökuspjöld liggja frammi í Ævintýrahöllinni í Iðnó en leikurinn fer fram umhverfis Reykjavíkurtjörn. Í lok Barnamenningarhátíðar verður dregið úr lausnum í Ævintýrahöllinni og nokkrir heppnir þátttakendur fá verðlaun. Í Ævintýrahöllinni verða líka tvær sögustundir fyrir börn í boði Sleipnis, sú fyrri er á föstudaginn 20. apríl kl. 16 og sú síðari laugardaginn 21. apríl kl. 13. Á föstudaginn mun leikarinn Hannes Óli Ásgeirsson lesa um úflinn frábæra úr bókunum Hver er flottastur? og Ég er klárastur eftir Mario Ramos og að lestrinum loknum sýnir Þórgunna Þórarinsdóttir hvernig á að nudda börn frá fæðingu að unglingsaldri, en hún er höfundur bókarinnar Barnanuddbókin. Þarna geta börn og foreldrar átt saman notalega stund í lok vikunnar. Á laugardaginnn kl. 13 verður fjör í Ævintýrahöllinni þegar lesið verður úr fjórum skemmtilegum bókum fyrir hressa krakka. Sigrún Eldján sýnir heklaða útgáfu af geimverunni Bétveir Bétveir og les úr bókinni um þessa geðþekku furðuveru. Jón St. Kristjánsson leikari kynnir okkur fyrir vinunum Mítsó og Bastían, sem lenda í stórkostlegum ævintýrum í bókinni Ótrúleg saga um risastóra peru og Bergljót Arnalds segir frá litla tröllastráknum sem reynir að finna leiðina heim með hjálp íslensku húsdýranna. Loks mætir tónelska músin Maxímús í öllu sínu veldi ásamt skapara sínum, Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara. Börnin geta svo tekið þátt þegar Maxímús dansar við lagið sitt. Einnig verður standurinn hans Trölla á staðnum og þar geta krakkarnir prófað að setja sig í spor tröllastráksins. Af öðrum bókmenntaviðburðum má nefna sýningu í Ingunnaskóla þar sem gefur að líta afrakstur úr vinnu nemenda með Hávamál, en sýningin er opin á skólatíma dagana 17. og 18. apríl og á Umhverfisdaginn þann 23. apríl. Í Gerðubergssafni Borgarbókasafns hafa starfsmenn útbúið bókapakka fyrir krakka sem þeir lofa að komi skemmtilega á óvart og þar má líka taka þátt í að búa til orðaorm. Þetta er bara lítið brot af því sem er á dagskránni, en hana má kynna sér á vefnum barnamenningarhatid.is.