Beint í efni

Fjörutíu skólabókasöfn fá styrki

Bókasöfn í grunnskólum um allt land styrkt til bókakaupa. Í morgun, miðvikudaginn 9. maí, var úthlutað styrkjum til 40 skólabókasafna um allt land í Arion banka, Borgartúni 19. Styrkveitingin er hluti af verkefninu „Ávísun á lestur“ sem stendur frá 23. apríl til 14. maí 2012. „Ávísun á lestur“ var dreift til allra heimila á landinu í Viku bókarinnar og nýtist ávísunin sem þúsund króna afsláttur af bókakaupum. Í hvert sinn sem „Ávísun á lestur“ er notuð renna 100 krónur í Skólasafnasjóð. Vonir standa til að um ein milljón króna safnist á þennan hátt í sjóðinn og leggur Arion banki nú eina milljón króna í hann til viðbótar. Hér má sjá frétt um Skólasafnasjóð og tilgang hans frá Félagi íslenskra bókaútgefenda: Um Skólasafnasjóð Árið 2010 stofnaði Félag íslenskra bókaútgefenda Skólasafnasjóð í því skyni að vekja athygli á veikri stöðu skólabókasafna í kjölfar efnahagsþrenginganna. Sjóðurinn veitir táknræna styrki til safnanna til að sýna að jafnvel lágar fjárhæðir bæta úr brýnni þörf. Markmiðið er að sem flestir séu meðvitaðir um að bókasöfn grunnskólanna eru hornsteinn lestrarhvatningar íslenskra barna. Áhyggjur af læsi íslenskra barna Mikil umræða hefur farið fram á undanförnum árum um lestrarfærni íslenskra grunnskólanemenda. Niðurstöður úr jafnt alþjóðlegum rannsóknum (PISA og PIRLS) sem innlendum benda til þess að brýnt sé að auka lestur íslenskra barna. Læsi er ein af sex grunnstoðum íslenskrar menntastefnu og viðurkennt er að læsi sé grundvallarfærni, forsenda fyrir að nemendur nái tökum á öðrum bóknámsgreinum. Vitað er að eina svarið við lítilli lestrarfærni er að lesa meira. Aðgengi að áhugaverðu lesefni á móðurmálinu skiptir þar höfuðmáli. Skólabókasöfn eru hornsteinn lestrarhvatningar Mikilvægi skólabókasafna hefur aukist á undanförnum áratugum. Þau gegna fjölþættu hlutverki í skólastarfinu, ekki síst til að kenna nemendum upplýsingaleit og upplýsingalæsi. Hitt meginhlutverk þeirra er að vera nemendum til hvatningar, leiðbeiningar og örvunar í að lesa. Augljóst er að þeim mun fjölbreyttari sem safnkosturinn er, þeim mun meiri líkur eru til þess að börn beri sig eftir bókum. Ákaflega mikilvægt er að allar nýjar bækur rati inn í söfnin og að safnkostinum sé haldið við. Stutt við bakið á skólabókasöfnum Efnahagsþrengingar undanfarinna ára hafa því miður komið illa við bókasöfn grunnskólanna. Í rannsókn Brynhildar Þórarinsdóttur, dósents við Háskólann á Akureyri, sem kynnt var á tólftu Þjóðarspegilsráðstefnunni í nóvember 2011, kemur þetta skýrt fram. Erfið fjárhagsstaða skóla og sveitarfélaga hefur bitnað á bókakaupum safnanna og í sumum söfnum var á tímabili alfarið hætt að kaupa bækur. Það er ekki hlutverk Skólasafnasjóðs að ráða bót á þessum vanda, en mikilvægt er að um leið og vakin er athygli á að skólabókasöfn eru mikilvæg stoð lestrarhvatningar sé þeim veittur táknrænn stuðningur. Bókakaupendur velja „sín“ söfn Í hvert sinn sem bók er keypt fyrir „Ávísun á lestur“ gefst bókakaupendum færi á að vekja athygli á „sínum“ skóla og skólabókasafni hans. Þá er nafn skólans skrifað í sérstakan reit á ávísuninni. Á grundvelli þessara tillagna er síðan gerður listi yfir þau skólabókasöfn sem koma til greina við úthlutun úr Skólasafnasjóði. Framlag Arion banka til sjóðsins, ein milljón króna, rennur til 40 skóla víðsvegar um landið. Úthlutað verður að nýju úr sjóðnum eftir að gildistími „Ávísunar á lestur“ rennur út 14. maí. Vonir standa til að alls verði úthlutað tveimur milljónum króna úr Skólasafnasjóði á árinu 2012. Skólarnir 40 sem nú fá úthlutað úr Skólasafnasjóði eru: Álftamýrarskóli, Reykjavík Ártúnsskóli, Reykjavík Áslandsskóli, Hafnarfirði Borgaskóli, Reykjavík Breiðagerðisskóli, Reykjavík Breiðholtsskóli, Reykjavík Egilsstaðaskóli, Fljótsdalshéraði Engjaskóli – Vættaskóli, Reykjavík Fellaskóli, Reykjavík Flúðaskóli, Hrunamannahreppi Fossvogsskóli, Reykjavík Grundaskóli, Akranesi Grunnskóli Bláskógarbyggðar, Reykholti Grunnskóli Vesturbyggðar, Patreksfirði, Bíldudal Grunnskólinn á Eskifirði, Fjarðabyggð Grunnskólinn á Stöðvarfirði, Fjarðabyggð Grunnskólinn á Bolungarvík Grunnskólinn Breiðdalsvík, Breiðdalshreppi Grunnskólinn í Hveragerði Hamraskóli, Reykjavík Hlíðaskóli, Reykjavík Holtaskóli Keflavík, Reykjanessbæ Hólabrekkuskóli, Reykjavík Húsaskóli, Reykjavík Hvolskóli, Hvolsvelli, Rangárþingi eystra Ingunnarskóli, Reykjavík Kársnesskóli, Kópavogi Korpuskóli, Reykjavík Kópavogsskóli, Kópavogi Myllubakkaskóli Keflavík, Reykjanessbæ Oddeyrarskóli, Akureyri Selásskóli, Reykjavík Seljaskóli, Reykjavík Smáraskóli, Kópavogi Snælandsskóli, Kópavogi Stóru-Vogaskóli, Vogum Vallaskóli, Selfossi, Árbæ Varmahlíðaskóli, Skagafirði Waldorfskólinn Öldutúnsskóli, Hafnarfirði