Frítt inn um þjóðhátíðarhelgina
Gröndalshús verður opnað almenningi á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní næstkomandi. Húsið hefur verið gert upp og verður það rekið sem menningarhús í í Grjótaþorpinu í minningu Benedikts Gröndals (1826 - 1907), skálds, myndlistarmanns og fræðimanns, sem bjó þar síðustu tuttugu ár ævinnar.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, opnar húsið formlega föstudaginn 16. júní kl. 16.00 að viðstöddum fjölmiðlum en á á laugardaginn verður það opið almenningi í fyrsta sinn.
Dagskrá á sunnudag
Sunnudaginn 18. júní kl. 15.00 og aftur kl 16.00 mun Ragnheiður Gröndal flytja nokkur lög í húsinu og Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, spallar um skáldið Benedikt Gröndal og verk hans. Dagskráin er öllum opin á meðan húsrúm leyfir.
Húsið, sem stóð upprunalega við Vesturgötu 16a, stendur nú á horni Fishersunds og Mjóstrætis.
Í húsinu verður minning skáldsins Benedikt Gröndal heiðruð og ævi hans og verk kynnt. Einnig er Reykjavík á tímum Gröndals gerð skil á sýningunni. Benedikt bjó í húsinu ásamt dóttur sinni Helgu og tveimur vinnukonum í tuttugu ár, eða þar til hann lést í ágúst árið 1907. Þarna vann hann mörg af sínum helstu verkum, til að mynda margar myndanna sem eru uppistaðan í bókunum Dýraríki Íslands og Íslenskir fuglar. Einnig skrifaði Gröndal sjálfsævisögu sína, Dægradvöl, á meðan hann bjó í húsinu og ritgerðina "Reykjavík um aldarmótin 1900".
Hús skáldsins
Vinnuaðstaða fyrir rithöfunda, fræðimenn og þýðendur verður í risi hússins og í kjallaranum er skáldaíbúð þar sem Bókmenntaborgin Reykjavík mun bjóða erlendum listamönnumað dvelja til skemmri tíma til að kynnast íslenskri menningu, landi og þjóð.
Frítt er inn í Gröndalshús opnunarhelgina en eftir það verður aðgangseyrir þúsund krónur. Opnunartími er frá 13-17 fimmtudaga til sunnudaga. Arkitektinn Hjörleifur Stefánsson teiknaði endurgerð hússins en Minjavernd hafði umsjón með endurbótunum.
Reykjavikurborg á Gröndalshús og verður það á forræði Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Icelandair Group styður Bókmenntaborgina við að opna Gröndalshús fyrir almenningi.
Sýningarhönnuðir í húsinu eru Snæfríður Þorsteinsdóttir og Hildigunnur Gunnarsdóttir. Margmiðlunarsýningu hönnuðu Phoebe Jenkins og Ben Moody. Textagerð og umsjón með texta var í höndum Guðmundar Andra Thorssonar og Kristínar Viðarsdóttur og Sarah Brownsberger þýddi texta eftir Gröndal og aðra sýningartexta á ensku. Sýningarstjórar í húsinu eru Kristín Viðarsdóttir og Lára Aðalsteinsdóttir.