Beint í efni

Hinsegin bókmenntadagskrá

Hinsegin dagar verða haldnir í Reykjavík frá 6. - 11. ágúst 2013.  Þrír bókmenntaviðburðir eru á dagkskrá hátíðarinnar auk fjölmargra annarra spennandi viðburða.

Þerraðu aldrei tár án hanska

Miðvikudagur 7. ágúst kl. 18. Norræna húsið Um þessar mundir sendir bókaforlagið Draumsýn frá sér fyrstu skáldsöguna í þríleik sænska rithöfundarins Jonasar Gardell, Þerraðu aldrei tár án hanska, og nefnist hún Ástin. Draumey Aradóttir þýddi söguna. Sagan fjallar um líf nokkurra homma á fyrstu árum alnæmis á Norðurlöndum. Hún var kvikmynduð á liðnu ári og sýnd í sænska sjónvarpinu við mikla hrifningu. Í tilefni af útgáfu bókarinnar efna Hinsegin dagar í Reykjavík og bókaforlagið Draumsýn til viðburðar í Norræna húsinu í samvinnu við HIV Ísland og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þar verður lesið úr bókinni og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson syngur ljóð Jonasar Gardell, „Mitt eina líf“. Dagskráin fer fram í fyrirlestrasal Norræna hússins í beinu framhaldi af opnun ljósmyndasýningarinnar Hinsegin Grænland. Aðgangur er ókeypis.

Við viljum meira af hinsegin bókmenntum

Fimmtudagur 8. ágúst kl. 14:00. Ráðhús Reykjavíkur Meðal gesta á Hinsegin dögum í ár eru Hallongrottans vänner, norræn grasrótarsamtök sem beina athyglinni að hinsegin bókmenntum, femínisma og fjölmenningu. Á síðastliðnum fjórum árum hafa þau skipulagt menningarviðburði og umræðuvettvang um hinsegin málefni víða um Norðurlönd og vinna ötullega að því að gera heiminn örlítið betri fyrir alla. Fimmtudaginn 8. ágúst standa samtökin fyrir pallborðsumræðum um aflið sem býr í bókum sem koma út úr skápnum. Þátttakendur eru Håkan Lindquist (Svíþjóð), Emma Juslin (Finnland), Kristina Nya Glaffey (Danmörk), Kristofer Folkhammar (Svíþjóð), Kristín Ómarsdóttir (Ísland) og Maja Lee Langvad (Danmörk). Umræðurnar fara fram á ensku.

Stefnumót við hinsegin rithöfunda

Föstudagur 9. ágúst kl. 17:00. Ráðhús Reykjavíkur, kaffihús Verið velkomin í opnar umræður þar sem meðal annars verður spurt: Hvað rekur rithöfunda til verksins og hvað bíður þeirra handan við næsta horn? Þátttakendur eru Håkan Lindquist, Kristina Nya Glaffey og Emma Juslin. Þau munu lesa upp úr verkum sínum og taka við spurningum úr sal. Dagskráin fer fram á ensku. Nordisk Kulturfond og Kulturkontakt Nord styrkja þessa viðburði. Sjá heildardagskrá Hinsegin daga á vef hátíðarinnar