Hlíðaskóli hélt á dögunum svo kallaðan SMT- dag þar sem nemendur og kennarar taka sér heilan dag í að vinna verkefni sem tengjast skólabragnum. Í ár var dagurinn nefndur Ljóða SMT- dagur í tilefni Lestrarhátíðar í Reykjavík. Hver bekkur vann með ljóð og var unnið út frá kjörorðum skólans: ábyrgð, virðing, vinsemd. Nemendur ortu um kjörorðin og veltu fyrir sér þýðingu þeirra, en einnig andstæðum og hvernig hægt er að virkja kjörorðin í vinnu í skólanum. Ljóðatré spruttu upp, þekkt dægurlög fengu nýja texta og mörg andstæðuljóð voru ort, svo dæmi séu tekin af þeim fjölmörgu verkefnum sem krakkarnir unnu. Skemmtileg ljóð spruttu fram úr hverri stofu og að lokum var skólinn ljóðskreyttur af nemendum. Ljóðin fá að standa í vetur öllum til ánægju.
Hlíðaskóli ljóðskreyttur
